13.06.1985
Efri deild: 98. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6451 í B-deild Alþingistíðinda. (5848)

5. mál, útvarpslög

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Hugmyndir og skoðanir Kvennalistans í útvarpsmálum hafa verið ítarlega reifaðar á því þingi sem nú situr og þetta mál, sem hér er nú til umr., almennt fengið ítarlega umfjöllun héðan úr þessum ræðustól. Ég skal því vera stuttorð við 3. umr. þessa máls hér í þessari hv. deild.

En áður en þetta frv., eða það samsafn ósamstæðra lagagreina sem hér er á ferðinni, kemur til atkv. í heild sinni hér á eftir, þá vil ég árétta ástæður þess að ég er móttallin þessu frv. og mun greiða atkv. gegn því.

Ég er móttallin þessu frv. vegna þess að það tekur ekki tillit til þess að útvarp er þjónusta við landsmenn, mjög mikilvæg þjónusta, en ekki fjárfestingar- og viðskiptavettvangur eins og frv. gengur út á. Ég er einnig mótfallin þessu frv. vegna þess að það tekur eingöngu mið af því hver megi standa fyrir útvarpi hér á landi en ekki hvernig útvarpi við viljum stuðla að landsmönnum til gagns og gleði. Ég er þessu frv. mótfallin vegna þess að meðan það leggur Ríkisútvarpinu ótæpilegar skyldur á herðar, eins og sjálfsagt er, leggur það engar svipaðar skyldur á þá einkaaðila sem útvarpsrekstur vilja stunda. Á meðan þetta frv. tryggir ekki fjárhag Ríkisútvarpsins sér það til þess að þeim einkaaðilum sem nægilegt stofnfé hafa og sem eru stórir og sterkir í peningamálum þurfi ekki að vera fjár vant til útvarpsrekstrar.

Ég er einnig mótfallin þessu frv. vegna þess að það tekur ekki mið af því að við erum fámenn þjóð í stóru landi og að nauðsynlegt er að gæta jafnaðar á milli manna og milli landshluta og jafnan að tryggja rétt þeirra sem minni hluta skipa á hvaða sviði sem er. Slíkan rétt tryggir þetta frv. ekki. Það gengur að mínu viti í grundvallaratriðum þvert á frelsishugsjón jafnræðis- og jafnréttismanna. Af þessum ástæðum er ég mótfallin þessu frv. og mun greiða atkv. gegn því.

En jafnvel þótt ég hefði ekki allar þessar ástæður fyrir því að vera mótfallin þessu frv. mundi ég aldrei greiða atkv. mitt öðrum eins samsetningi og jafndæmalausu fimbulfambi og þetta frv. er nú orðið. Þess vegna mun ég styðja þær brtt. sem hér hafa fram komið við 3. umr. þessa máls í þeirri von að það megi verða til þess að þetta mál fái skynsamlegri skoðun og umfjöllun en það hefur fengið fram til þessa. Fari hins vegar svo að þetta frv. verði samþykkt hér á eftir óbreytt með innan við helmingi atkv. í hv. Ed. hafa hér orðið atburðir sem eru hvorki hv. Alþingi til sóma né munu þeir verða íslenskri þjóð til farsældar.