14.06.1985
Neðri deild: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6587 í B-deild Alþingistíðinda. (5941)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Nál. við þetta frv. er á þskj. 1260 frá meiri hl. landbn., en hann skipa auk mín hv. þm. Halldór Blöndal, Þórarinn Sigurjónsson, Eggert Haukdal og Páll Dagbjartsson.

Nefndin hélt ellefu fundi um þetta mál, marga mjög langa. Það voru mjög margir sem komu til nefndarinnar til að tjá sig um þetta frv., m. a. fulltrúar frá Framleiðsluráði, frá Stéttarsambandi bænda, frá nefnd sex manna sem kosnir voru á aukafundi Stéttarsambands bænda, sem haldinn var að mig minnir 17. apríl, og frá Sambandinu, frá Iðnaðardeild Sambandsins. Fulltrúar komu frá Sláturfélagi Suðurlands, frá Alþýðusambandi Íslands, frá BSRB, frá Neytendasamtökunum, Verslunarráði og Kaupmannasambandi Íslands. Einnig frá búnaðarsamböndum á Vesturlandi og Norðurlandi vestra. Einnig komu á fund nefndarinnar fulltrúar frá öllum sérgreinasamböndunum, loðdýra-, svína-, kjúklinga-, kartöflu- og garðávaxta og eggjaframleiðenda. Þá komu á fundinn bankastjórar frá Landsbankanum, Búnaðarbankanum og Samvinnubankanum. Að síðustu komu svo formaður Stéttarsambands bænda, framkvæmdastjóri þess og einn stjórnarmaður í Stéttarsambandinu.

Nefndin klofnaði um málið og hafa þeir skilað sérálitum, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Jón Baldvin Hannibalsson. Þeir sem skipa meiri hl. hafa lagt fram brtt. við frv. sem eru á þskj. 1262 og eru 16 að tölu.

Í 1. gr. frv. segir: „Tilgangur þessara laga er:

a) að stuðla að framförum og aukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu og vinnslu og sölu búvara til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur.“ Í þessum 1. staflið 1. gr. kemur fram hver tilgangur laga þessara er.

Á meðan frv. var í vinnslu kom aukafundur Stéttarsambands bænda saman til að athuga frv. og segja álit sitt á einstökum greinum þess. Stéttarsambandsfundurinn samþykkti fjölmargar brtt. við frv. og kaus, eins og áður segir, sex manna nefnd til að fylgja þessum brtt. fram.

Það má segja að í því samkomulagi sem formenn stjórnarflokkanna gerðu og er dags. 6. sept. 1984 sé að finna þann grundvöll sem frv. er svo byggt á. Þetta samkomulag er birt með nál. meiri hl. Frv. felur í sér heimildir til að stjórna öllum búgreinum, allri búvöruframleiðslu í landinu ef þær heimildir, sem notaðar eru, eru notaðar til fulls skv. VII. kafla frv.

Í VI. kaflanum eru ákvæði um hvernig háttað skuli greiðslum skv. frv. á framleiðsluvörum bænda.

Í 28. gr. segir:

„Afurðastöð er skylt að haga greiðslum til framleiðenda fyrir innlagðar búvörur í samræmi við ákvæði þessara laga og þeirra samninga og ákvarðana sem teknar eru með heimild í þeim.“

Í samkomulagi formannanna, gr. 8.6., sem er hér með á fskj., segir með leyfi forseta:

„Framleiðendur fái fulla greiðslu fyrir afurðir sínar sem næst við afhendingu, enda verði vinnslustöðvum með afurðalánum gert það kleift.“

Í samþykkt ríkisstj. í marsmánuði s. l. stendur m. a., með leyfi forseta, til frekari áréttingar þessu atriði: „Jafnframt ákveður ríkisstj. að viðskrh. skipi nefnd til að gera tillögur um framkvæmd samþykktar stjórnarflokkanna frá 6. sept. þannig að bændur geti frá 1. maí n. k. fengið innlagða mjólk greidda að fullu innan mánaðar og sláturafurðir um áramót. Markmiði þessu sé náð með endurskoðun á reglum um veitingu afurðalána, tímasetningu í niðurgreiðslum úr ríkissjóði og reglum um lágmarksfjármögnun birgða af eigin fé stöðvanna.“

Ég er hér með afrit af bréfi sem hæstv. viðskrh. skrifaði nefnd sem skipuð var til að gera tillögur um framkvæmd á þessu atriði. Bréf þetta er þannig, með leyfi forseta:

„Í samræmi við samþykkt ríkisstj. frá 21. fyrra mánaðar hefur verið ákveðið að skipa nefnd á vegum viðskrh. til þess að gera tillögur um framkvæmd á því ákvæði samkomulags stjórnarflokkanna frá 6. sept. 1984 er gerir ráð fyrir að bændur geti svo fljótt sem við verður komið fengið fullnaðargreiðslur fyrir afurðir sínar. Markmiði þessu skal nefndin ná með endurskoðun á reglum um veitingu afurðalána, tímasetningu á niðurgreiðslum úr ríkissjóði og reglum um lágmarksfjármögnun birgða af eigin fé vinnslustöðva. Jafnframt skal á það bent að endurskoðun á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins er að ljúka og þykir rétt að höfð sé hliðsjón af þeim markmiðum sem þar koma fram um nánara fyrirkomulag þessara mála. Hér með eruð þér skipaður formaður þessarar nefndar. Ásamt yður í nefndinni eru Helgi Bachmann, Ketill Hannesson, Ingi Tryggvason, Stefán Pálsson.“

Þetta bréf fer til seðlabankastjóra, Davíðs Ólafssonar.

Nú stendur þannig á gagnvart vinnslustöðvunum eins og hjá ýmsum öðrum fyrirtækjum í okkar þjóðfélagi að þar er ekki að finna fjármagn sem vinnslustöðvarnar geta tekið til greiðslu afurðalána bænda umfram það sem nú er. Því verður að koma annað og meira til.

Í viðtölum við þá sem komu til að ræða við nefndina um þetta frv. heyrðist á æðimörgum að þeir óttuðust að það mundu verða miklir örðugleikar á að fá fjármuni til þess að hægt væri að standa við það greiðslufyrirkomulag sem í frv. felst. Af þessu tilefni vil ég beina því til hæstv. viðskrh. að hann komi upp í ræðustól að loknu máli mínu og staðfesti í hv. Nd. að hann muni ásamt ríkisstj. gera þær ráðstafanir sem til þurfi að gera til þess að hægt verði að fara eftir því greiðslufyrirkomulagi sem í frv. þessu felst.

Í frv. kemur orðið „sláturleyfishafi“ víða fyrir sem samheiti fyrir þá sem reka sláturhús og eru aðilar að ýmsum ákvörðunum bundnum við þann hóp. Eins og orðið „sláturleyfishafi“ er skýrt í 7. mgr. 2. gr. frv. á það aðeins við þau sláturhús sem hafa löggildingu til slátrunar skv. lögum nr. 30 frá 1936, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, en ekki þau sláturhús sem fá undanþágu skv. 2. mgr. 2. gr. laganna þar sem þau fullnægja ekki þeim skilyrðum sem sett eru um gerð og búnað sláturhúsa. Það er hins vegar ekki ætlunin með frv. að gera mun á þessum sláturhúsum. Sláturhúsin eru sameiginlega í þessu frv. kölluð „sláturhús“ til að verka gegn ákvæðum þessa frv.

Með 2. brtt. er bætt úr þessu. Með brtt. er ákvæði 1. mgr. 4. gr. frv. um hlutverk Stéttarsambands bænda við framkvæmd laganna orðað með ótvíræðum hætti. Skv. till. er Stéttarsamband bænda að lögum sá aðili sem kemur fram fyrir hönd framleiðenda búvara við framkvæmd laganna nema öðruvísi sé kveðið á um í lögunum. Dæmi um frávik frá þessari reglu er t. d. heimildin í 2. mgr. 4. gr. til að viðurkenna einstök landssambönd framleiðenda búvara til að fara með fyrirsvar vegna framleiðenda í viðkomandi grein.

Nefndinni hafa borist um það tilmæli að hámarksverðmiðlunargjald skv. 19. gr. verði hækkað úr 3% af heildsöluverði eins og lagt er til í hinu upphaflega frv. Ástæða þessarar beiðni er að einstökum tegundum búvara hefur reynst nauðsynlegt að hafa þessa gjaldtöku verulega hærri en 3% og hefur þar m. a. komið til mismunandi vinnslukostnaður og verðtilfærsla milli einstakra framleiðsluvara umfram þá verðtilfærslu sem Sexmannanefnd hefur ákveðið. Það ber auðvitað að hafa í huga að hér er um að ræða hámarksheimild sem óvíst er hvort notuð verði að fullu, en þessi hámarksheimild er skv. brtt. 5.5%.

4. brtt. Við nánari athugun telja menn rétt að binda hámark þeirrar tilfærslu sem gera eigi á útborgunarverði mjólkur skv. 22. gr. við 15% af grundvallarverði í stað 30 eins og stóð í frv. Telja bændasamtökin að slík tilfærsla milli sumarmjólkur og vetrar sé nægileg til að ná þeirri stjórn á mjólkurframleiðslunni sem að er stefnt með þessu ákvæði, þ. e. að greiðsla til framleiðenda yfir sumarið sé allt að 15% lægri.

Með 5. brtt. skv. 2. mgr. 24. gr. frv. skulu gögn um innheimtu og álagningu, svo og reikningar þeirra gjalda sem innheimt eru skv. verðmiðlunarkafla frv., endurskoðuð af löggiltum endurskoðanda er Framleiðsluráð tilnefnir og landbrh. Bændasamtökin óskuðu eftir að þessu ákvæði yrði breytt á þann veg að Framleiðsluráð hefði óbundnar hendur um val á endurskoðanda af sinni hálfu, en landbrh. tilnefndi aftur á móti löggiltan endurskoðanda. Í þeirri brtt. sem hér er lögð fram er lagt til að báðir endurskoðendurnir verði valdir úr hópi löggiltra endurskoðenda og verður að telja slíkt eðlilegt með tilliti til umfangs þess verks sem þessum endurskoðendum er falið.

Í 6. brtt. í 1. tölul. 29. gr. frv. er lagt til að svonefnd frumgreiðsla vegna sauðfjárinnleggs að hausti fari fram í síðasta lagi 31. oki. eftir reglum sem Framleiðsluráð setur. Nú er vitað að ýmsir sláturleyfishafar hafa greitt slíkar uppígreiðslur fyrr og auðvitað er ekkert í ákvæðinu sem bannar þeim að gera það eftirleiðis. Hins vegar telja menn hættu á að þetta ákvæði eins og það er í frv. leiði til þess að eftirstöðvar afurðaverðs verði vaxtafærðar síðar en nú er, en það er 15. október.

Með 6. brtt. er lagt til að umrædd frumgreiðsla fari fram í síðasta lagi 15. október og hjá þeim sem slátra eftir þann tíma fari frumgreiðslan fram eigi síðar en tíu dögum eftir innlagsdag. Það verður áfram verkefni Framleiðsluráðs að setja nánari reglur um þessi efni, en þær reglur, sem hér er fjallað um, markast fyrst og fremst af greiðslum afurðalána og fjármagnsútvegun að öðru leyti á hverjum tíma.

7. brtt. Þær brtt. sem lagðar eru fram við 30. gr. fela ekki í sér efnisbreytingar ef undan er skilinn b-liður tillagnanna. Með b-lið tillagnanna er undirstrikaður sá vilji þeirra sem að þessari lagasetningu standa að samningar skv. a-lið 30. gr. milli ríkisins og Stéttarsambands bænda um magn mjólkur og sauðfjárafurða verði gerðir. Hér er því lagt til að landbrh. verði ekki einungis heimilt að gera slíka samninga, heldur sé honum rétt að leita eftir slíkum samningum. Ekki er hægt að útiloka að slíkir samningar náist ekki og þá koma m. a. til ákvæði 4. mgr. 36. gr. eins og lagt er til að hún verði skv. 9. brtt., en hér er gerð sú mikilvæga breyting að landbrh. er skylt að eiga frumkvæði að slíkum samningsumleitunum og slíkri skyldu fylgir auðvitað að ríkisvaldið þarf að gera bændum grein fyrir hvert það vilji stefna með slíkum samningum.

Um 8. brtt. Á síðustu árum hefur Framleiðnisjóður landbúnaðarins veitt töluvert fé til nýrra búgreina og breyttra búskaparhátta. Með 37. gr. frv. fær sjóðurinn frekari fjármuni til þessa verkefnis með tilliti til þess að þeirri aðstoð er m. a. ætlað að styðja við nýjar búgreinar sem komi í stað sauðfjár- og mjólkurframleiðslunnar vegna aðstoðar sem Framleiðnisjóður lætur þeim í té. Hér gæti t. d. verið um að ræða bónda sem hefur búmark til framleiðslu á sauðfjárafurðum, en fær stuðning til uppbyggingar á loðdýrabúi. Þá gæti verið eðlilegt að skerða það búmark þegar hin nýja framleiðsla er farin að gefa af sér tekjur.

Með a-lið 9. brtt. er lagt til að eftir 1990 og þar til endurskoðun skv. 38. gr. hefur farið fram skuli útflutningsbætur árlega nema 4% af heildarverðmæti búvöruframleiðslu.

Ákvæði IX. kafla frv. miða að því að aðstoða landbúnaðinn með aðlögun að breyttum markaðsaðstæðum. Við vitum ekki hver verður árangur þeirrar aðlögunar að fjórum árum liðnum. Í 38. gr. frv. er í samræmi við þetta ákvæði um að þessi ákvæði skuli tekin til endurskoðunar að liðnum fjórum árum frá gildistöku laganna með tilliti til aðstæðna í markaðsmálum og uppbyggingar nýrra búgreina. Með umræddri brtt. er tryggt að réttur bænda til útflutningsbóta verði ekki með öllu felldur niður nema til komi frekari umfjöllun Alþingis þar sem metið verður hvernig til hefur tekist með árangur af þessari lagasetningu. Þessi endurskoðun á fyrst og fremst, að mínum dómi, að vera til að meta hvernig hefur til tekist að ná því markmiði sem lögin fela í sér og yfirlýsingar ríkisstj. sem hafa hvað eftir annað verið endurteknar, þ. e. að byggja upp annan atvinnurekstur til þess að mæta því tekjutapi sem verður vegna þeirrar framleiðsluminnkunar í hefðbundnum búgreinum sem er talin nauðsynleg a. m. k. við þær aðstæður í markaðsmálum sem nú blasa við.

Ég hef þá trú að eftir fjögur ár verði staðan sú að það verði langt frá því að það mark hafi náðst að byggja upp atvinnurekstur í strjálbýli sem komi í veg fyrir þá fækkun, þá framleiðsluminnkun sem manni sýnist nú blasa við. Við skulum vona að það verði breyting í þessum málum þannig að slík minnkun þurfi ekki til að koma. Þessi endurskoðun á því að mínu mati fyrst og fremst að byggjast á því hvort þurfi að herða róðurinn til að ná þessu marki, þ. e. að það fólk sem býr í strjálbýli hafi tekjumöguleika sem eru í einhverju samræmi við tekjur annarra stétta og að fjárhagsaðstoðinni sem felst í 37. gr. og á að fara til þessarar uppbyggingar, verði ekki hætt, heldur miklu frekar að ef of skammt hefur verið gengið verði hún aukin þar til við náum því marki sem ríkisstj. hefur sett sér bæði í málefnasamningnum sem gerður var þegar ríkisstj. var mynduð og í yfirlýsingum um að reyna að halda landinu í svipaðri byggð og nú er.

Það hefur jafnan verið ætlunin með irv. að náist ekki samningar milli ríkisins og Stéttarsambands bænda skv. a-lið 30. gr. eigi bændur rétt á þeim útflutningsbótum sem tilteknar eru í 36. gr. Til þess að taka af allan vafa um þetta ákvæði er í b-lið 9. brtt. lagt til að bætt verði við 36. gr. nýrri mgr. um þetta efni.

Í 10. brtt., þ. e. 1. mgr. 40. gr. frv., er sett fram sú stefnuyfirlýsing að byggingu og staðsetningu afurðastöðva skuli haga á þann hátt sem hagkvæmastur er fyrir heildarskipulag viðkomandi búgreina. Ekki er í frv. hins vegar gert ráð fyrir sérstökum leyfum til byggingar og reksturs afurðastöðva utan þær kvaðir sem kunna að verða lagðar á þessi fyrirtæki með samningum eða úrskurði ráðh. skv. 48. og 51. gr. frv. Bændasamtökin hafa í umfjöllun sinni um frv. lagt mikla áherslu á að í lögum verði heimild til að hafa stjórn á uppbyggingu afurðastöðva þannig að tryggð verði heppileg nýting þeirrar fjárfestingar sem bundin er í þessari atvinnugrein, enda er það grundvöllurinn fyrir því að þau markmið, sem frv. felur í sér, náist. Hér er því lagt til að við löggildingu afurðastöðva, sérstaklega þó sláturhúsa, skv. lögum nr. 30 frá 1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturhúsum, með síðari breytingum, skuli gætt ákvæða 1. mgr. 40. gr. Skv. lögum nr. 30 frá 1966 er það landbrh. sem löggildir sláturhús að fengnum meðmælum frá yfirdýralækni eða hlutaðeigandi héraðsdýralækni ef húsin eru að dómi þeirra svo fullkomin að gerð og öllum búnaði að hægt sé þess vegna að fullnægja nauðsynlegum heilbrigðis- og hreinlætiskröfum. Með þessari brtt., sem hér er fjallað um, er bætt við því viðbótarskilyrði við löggildingu sláturhúsa að ráðh. þarf að taka afstöðu til þess hvort bygging og staðsetning viðkomandi sláturhúss sé hagkvæm fyrir heildarskipulag viðkomandi búgreinar. Þarna er því ráðh. gerður ábyrgur fyrir framkvæmd þeirrar stefnu sem sett er fram í 1. mgr. 11. gr.

Með 11. brtt. eru tekin af öll tvímæli um að til innflutnings á sveppum þurfi leyfi landbrh., en deilt hefur verið um hvort sveppir falli undir grænmeti eða ekki. Það hafa haft samband við mig ýmsir þeir sem framleiða alls konar grænmeti og kvarta mjög yfir því að það hafi verið flutt inn grænmeti eftir að íslenskt grænmeti kom á markað á þessu vori. Þeir segja mér t. d. að komið hafi íslenskt salat á markað upp úr 20. mars og þeir telja að innflutningur hafi verið það mikill að orðið hafi að henda verulegum hluta af framleiðslu þeirra. Þessir bændur eru fyrst og fremst í Árnessýslu, Borgarfirði og e. t. v. víðar. Þeir báðu mig að minnast á það hér að setja þurfi í reglugerð um þetta efni að um innflutning á grænmeti verði að gefa skýrslu til rn. eða Framleiðsluráðs og það verði að ganga frá þeim málum þannig að ekki þrengi að íslenskri framleiðslu á þann veg sem þeir telja að hafi verið gert á s. l. vori. Þeir sem flytja inn grænmeti verði að gera glögga grein fyrir þeim innflutningi.

Þar sem afgreiðsla frv. hefur dregist er nauðsynlegt að færa gildistöku þess aftur til 1. júlí 1985, en ákvæði til bráðabirgða eru ýmist frávik frá gildistökuákvæði 60. gr. eða vegna aðstæðna ýmissa á þessu ári.

Um 13. brtt. Ákvæði til bráðabirgða þarf að breyta þar sem ákvarðanir um verð búvara 1. júní hafa þegar verið teknar. Einnig er gerð sú breyting á greininni að tekjum af verðmiðlunargjöldum, sem innheimt eru þar til landbrh. ákveður verðmiðlunargjöld skv. hinum nýju lögum, skuli ráðstafað í samræmi við 40. gr. laga nr. 95 frá 1981, en skv. þeirri grein annast Framleiðsluráð það verkefni.

14. brtt. Vegna gildistöku laganna er nauðsynlegt á árinu 1985 að kveða á um breytingar á ýmsum frestum sem þar eru ákveðnir.

Þá er bráðabirgðaákvæði stafliðar H svohljóðandi: „Þrátt fyrir ákvæði í 5. gr. skal Framleiðsluráð landbúnaðarins, það sem nú situr skv. lögum nr. 95/ 1981, fara með verkefni Framleiðsluráðs landbúnaðarins skv. lögum þessum þar til fulltrúafundur Stéttarsambands bænda hefur kosið fulltrúa sína í ráðið skv. 5. gr., þó ekki lengur en til 15. sept. 1985.“

Ég vil taka það fram að aðalfundur Stéttarsambands bænda er alltaf um mánaðamótin ágúst-september.

Við 52. gr. var einnig gerð sú breyting, það er 12. brtt., að í staðinn fyrir að upphaf greinarinnar var þannig: „Rekstri Grænmetisverslunar landbúnaðarins skal hætt frá 1. júní 1968“ komi: Framleiðsluráð landbúnaðarins hættir rekstri Grænmetisverslunar landbúnaðarins frá og með 1. júní 1986.

Í sambandi við þetta kom fram hjá fulltrúum bæði kartöflubænda og þeirra sem framleiða annað grænmeti að þeir höfðu mikinn hug á að stofna með sér samvinnu um heildsölu á grænmeti og kartöflum og vildu láta setja inn í frv. að þeir skyldu taka við Grænmetisverslun landbúnaðarins á þeim tíma sem Framleiðsluráð hætti þar rekstri. Um það yrði auðvitað að semja og liggur ekki fyrir nein samstaða hjá þessum aðilum. Verður að sjá hverju fram vindur í því efni.

Skv. 7. gr. frv. var gert ráð fyrir að í Sexmannanefnd mundu af hálfu neytenda tilnefna stjórn Alþýðusambands Íslands tvo fulltrúa, en stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja einn fulltrúa. Nefndinni barst bréf frá Alþýðusambandinu um að það ætlaði ekki að tilnefna menn, hvorki í Sexmannanefnd eða í fimmmannanefnd skv. 13. gr. Fulltrúi frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja tilkynnti nefndinni, þegar hann kom á fund hennar, að bandalagið mundi ekki heldur tilnefna menn í þessar nefndir. Það varð úr að þessum greinum var ekki breytt þrátt fyrir að þessar staðreyndir blöstu við í von um að þó þetta sé afstaða þessara samtaka nú muni afstaða þeirra breytast innan skamms.

Það komu fram óskir um að inn í 47. gr. kæmi ný setning. Þar er verið að ræða um sölusvæði fyrir mjólk skv. 45. gr. og hljóðar það þannig: „... og skulu þá framleiðendur mjólkur á hverju mjólkursölusvæði kjósa sér stjórn er hefur á hendi umsjón mjólkurmálanna á því svæði.“ Óskað var eftir að því næst kæmi: Þar með talin verðjöfnun milli samlaga innan svæðis. — Það varð niðurstaðan í þessu máli að allar heimildir til þess fælust í 19. gr., en niðurlag 19. gr. frv. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Tekjum af verðmiðlunargjaldi skal m. a. varið þannig:

a) til verðmiðlunar á milli afurðastöðva til þess að jafna flutningskostnað frá framleiðendum að afurðastöð í þeim tilgangi að auðvelda hagkvæman rekstur stöðvanna,

b) til þess að koma á hentugri verkaskiptingu á milli afurðastöðva,

c) til að jafna aðstöðu afurðastöðvanna til að koma framleiðsluvörum sínum á markað,

d) til þess að greiða nauðsynlega flutninga á milli svæða þar sem vöntun kann að vera á sérstökum afurðum, sbr. 49. gr.

Annars staðar í frv. stendur að það skuli allir framleiðendur fá sama verð fyrir sömu vöru. Eftir að búið er að hækka verðmiðlunargjaldið úr 3% í 5.5% teljum við að það ætti að nást að fullnægja því ákvæði í frv. að allir sitji við sama borð og skipti þá ekki máli hvort það er innan svæðis eða á milli svæða.

Þegar framleiðendur grænmetis og kartaflna komu á fund nefndarinnar kom fram ósk um að inn í 25. gr. laganna yrði sett heimild um að ef til væri landssamband hverrar búgreinar mætti leggja á 1% af brúttóverði framleiðslu þeirra til að standa undir félagslegri starfsemi búgreinarinnar, þ. e. ef aðalfundur þeirrar búgreinar samþykkti það, en að sjálfsögðu yrði landbrh. að samþykkja það einnig. Enn fremur kom fram að Stéttarsamband bænda vildi einnig fá heimild til að leggja á framleiðendagjald sem var talið að þyrfti að vera allt að 0.25%, en það var bundið því skilyrði að slíkt gjald yrði lagt á að aðalfundur Stéttarsambands bænda samþykkti að slík gjaldtaka skyldi verða leyfð.

Það fóru fram miklar umræður um þetta efni í nefndinni og í stjórnarflokkunum varð niðurstaðan sú að eðlilegra væri að verða við þessari beiðni þannig að setja slík ákvæði inn í lögin um Búnaðarsjóð. Ég vil því hvetja þá aðila, bæði Stéttarsamband bænda og þær búgreinar sem vilja óska eftir því að fá þessa heimild inn í lög, að taka afstöðu til þess á sínum næsta aðalfundi og koma þeirri ósk á framfæri við hæstv. landbrh. Landbn. Nd. mun líka reyna að vinna að þeim málum ef slík beiðni kemur. Þá þarf að breyta lögunum um Búnaðarsjóð í þá átt sem ég hef hér greint frá. Ég óska sérstaklega eftir því að hæstv. landbrh. staðfesti hér og nú að það sé vilji hans að verða við þessari beiðni ef hún kemur fram og hefur verið samþykkt á aðalfundi þessara búgreina og eins stéttarsambandsfundi bænda.

Í d-lið 30. gr. er heimilað að innheimta eftirtalin fóðurgjöld af innfluttu fóðri og hráefnum til þess: Grunngjald sem má nema allt að 50% af tollverði hinnar innfluttu vöru. Sérstakt fóðurgjald sem má nema allt að 150% af tollverði hinnar innfluttu vöru. Fóðurgjöld skv. þessari grein mega vera tiltekin fjárhæð á hverja þyngdareiningu fóðurs eða tiltekið hlutfall af tollverði þess. Heimilt er að ákveða fóðurgjöldin mishá eftir fóðurtegundum.

Það komu fram miklar athugasemdir við að fyrri liðurinn, þ. e. grunngjald af tollverði, skuli vera 50%. Þeir sem nota mikið eða jafnvel einvörðungu fóðurmjöl til framleiðslu sinnar töldu að þetta mundi koma mjög hart niður á búgreinum sem slíkt mjöl nota. Þeir lögðu þó enn þá ríkari áherslu á að það yrði með einhverju móti tryggt að þeir fengju nokkurra mánaða gjaldfrest til að inna þessi gjöld af hendi. Það er kannske sérstaklega vegna þess að þeir hafa búið við það fyrirkomulag að hafa gjaldfrest. Ef þeir þyrftu að borga upp á skömmum tíma, en yrðu að taka upp staðgreiðslu á þessum gjöldum og fob-verðinu, mundi það verða mörgum þeirra um megn.

Í sambandi við fóðurvöruinnflutning og það gjald sem hefur verið tekið af fóðurvörum til þessa hefur, eins og ég sagði áðan, verið, að ég hygg, allt upp undir sex mánaða gjaldfrestur. Ef nú yrði breyting á, eins og ég hef sagt, mundi verða erfitt fyrir marga að lifa við slíkt. Þess vegna verð ég að endurtaka að það verður að skoða það mjög vel hvernig hægt er að ganga þannig frá málum að þessir framleiðendur fái áfram svipaðan gjaldfrest og verið hefur.

Það kom sú ósk frá framleiðendum kartaflna að það bættist við 44. gr. að ekki mætti selja kartöflur og gulrófur nema í þeim stöðvum sem hafa samþykki landbrh. til að versla með þessar vörur í heildsölu. Það kom fram hjá þessum mönnum að það höfðu verið gerðar athuganir á ástandi þessarar vöru í verslunum í Reykjavík og hefði komið í ljós að þær geymslur sem eru notaðar fyrir þessar vörur í verslununum væru með þeim hætti að í mörgum tilvikum hefði ekki verið á boðstólum hæf söluvara. Okkur nm. var sýnt hvernig þetta mat hefði komið út.

Það varð ekki samstaða um að verða við þessari ósk framleiðenda. Hins vegar verður að benda framleiðendum á að eina leiðin fyrir þá í þessu efni er að þeir stofni sjálfir sín samtök, um að öll þessi framleiðsla verði seld frá einhverjum dreifingarstöðvum sem hafa fullkomnar geymslur og framleiðendur þessarar framleiðslu sitji allir við sama borð, en ekki, eins og nú hefur verið, að sumir eru kannske búnir að selja alla sína framleiðslu frá því í fyrra, en aðrir eiga mjög mikinn hluta af henni óseldan. Bændur ættu að vera búnir að læra það á liðnum árum að þeir verða að stjórna þessum málum sjálfir, styrkja sín samtök og láta eitt yfir alla framleiðendur ganga í hverri framleiðslugrein. Það er sígilt að sameinaðir stöndum vér, en sundraðir föllum vér. Í samkomulagi formanna stjórnarflokkanna, sem áður er getið og er fskj. með nál., segir í 8.4. lið: „Samtök bænda skipti framleiðslunni á framleiðslusvæði og/eða einstaka framleiðendur.“

Það kom fram í nefndinni að líklega væri illmögulegt að halda uppi byggð í ýmsum héruðum landsins öðruvísi en skipta landinu í framleiðslusvæði og ákveða hverju svæði ákveðið búmark.

Í 30. gr. er leyfi fyrir sérstökum svæðakvóta og er mikilvægt að athugað sé vel hvort ekki beri að nota slíka heimild til að styrkja þau svæði sem standa höllum fæti um þessar mundir. Það kom fram í nefndinni og var lögð áhersla á það af einstökum nm. að slíkur svæðakvóti kæmist í framkvæmd hið allra fyrsta.

Nefndinni barst svohljóðandi bréf frá stjórn Grænmetisverslunar landbúnaðarins sem hélt aðalfund sinn 10. júní s. 1.:

„Bókað var eftirfarandi“, eins og segir í bréfi þessu: „Stjórn Grænmetisverslunar landbúnaðarins mótmælir eindregið þeim ákvæðum í nýju frv. um framleiðslu, sölu og verðlagningu á landbúnaðarvörum að fyrirtækið og eignir þess séu ríkiseign. Hjálagt fylgir ljósrit af bréfi kjörinna endurskoðenda um þetta efni dagsett í dag. Stjórnin áskilur sér allan rétt til að mótmæla m. a. með lögsókn ef þetta ákvæði frv. verður samþykkt.“

Undir þetta skrifa Ingi Tryggvason, Magnús G. Friðgeirsson, Magnús H. Sigurðsson, Eiríkur Sigfússon, Gísli Andrésson, Skarphéðinn J. Larsen og Páll 1. Guðbrandsson.

Hér vil ég líka lesa upp fskj. sem er dags. 10. júní 1985:

„Til stjórnar Grænmetisverslunar landbúnaðarins: Vegna þeirrar umræðu sem orðið hefur um eignir Grænmetisverslunar landbúnaðarins og enn fremur vegna ákvæða varðandi Grænmetisverslun í frv. sem nú liggur fyrir Alþingi um Framleiðsluráð landbúnaðarins viljum við kjörnir endurskoðendur taka fram eftirfarandi:

Grænmetisverslun landbúnaðarins tók til starfa 1. sept. 1956. Tók þá við Grænmetisverslun ríkisins og kaupir eignir hennar, áhöld og bifreiðar fyrir 151 þús. 720 kr., en greiðir leigu fyrir húsnæði við Sölvhólsgötu. Framleiðsluráð lánar 50 þús. kr. í byrjun starfstímans til þess að hægt sé að greiða nauðsynlegustu hluti. Þetta fé var síðan endurgreitt Framleiðsluráði á árinu 1957.

Byggingarsjóður Grænmetisverslunarinnar var stofnaður 1958 með framlögum frá framleiðendum og af rekstrartekjum fyrirtækisins. Lagt var í þennan sjóð í þrjú ár, en framleiðendum síðan endurgreitt árið 1965.

Það liggur því ljóst fyrir, að fyrirtækið er byggt upp af eigin tekjum og með stuðningi frá framleiðendum, en á engan hátt af ríkisframlögum. Það er staðfest í stjórnarfundargerð frá 15. apríl 1958 að Sveinbjörn Jónsson hrl. hefur gert álitsgerð um skattalega og eignarréttarlega stöðu fyrirtækisins. Hann telur að verslunin sé sjálfseignarstofnun, er sé rekin af framleiðendum þeirra vara er hún selur.

Með tilvísun til framanritaðs teljum við að sú hugsun, sem liggur að baki ákvæði frv. til l. um Framleiðsluráð landbúnaðarins, að Grænmetisverslun landbúnaðarins sé ríkiseign, standist ekki og sé í andstöðu við þá hugsun sem gilt hefur um eignarrétt og að þessum ákvæðum beri að mótmæla. Jafnframt teljum við að nauðsynlegt sé að skera endanlega úr um eignarréttarlega stöðu fyrirtækisins og leita til dómstóla ef með þarf.“

Undir þetta skrifa Sigurður E. Líndal og Guðmundur Sigþórsson.

Af þessu tilefni, þó að þessu ákvæði í lögunum hafi ekki verið breytt, vil ég undirstrika að ég tel orka mjög tvímælis hvort rétt sé að eignir Grænmetisverslunar landbúnaðarins séu eign ríkisins. Þess vegna vil ég hafa allan fyrirvara á um þetta ákvæði í frv. og tel æskilegt að það séu tilnefndir menn til að kanna hver sé eigandi að þessu fyrirtæki. Best væri ef það væri hægt að leiða það til lykta án dómsúrskurðar.

Ég vil taka það fram að við hv. þm. Halldór Blöndal skrifuðum þremur lögmönnum og lögðum fyrir þá spurningar um ýmis atriði í þessu frv. Eitt af því var þetta. Það er nú búið að svara spurningum okkar nema þessu eina. Þessir lögfræðingar voru þeir Benedikt Blöndal, Gaukur Jörundsson og Jón Þorsteinsson. En við eigum von á að þeir kanni þetta mál til hlítar og við fáum svar við þessari spurningu síðar. Ég vil beina mínu máli til hæstv. landbrh. og æskja þess að þetta verði kannað og þó að þetta sé í frv. hef ég, og ég hygg aðrir nm., allan fyrirvara á varðandi þetta atriði.

Ég vil svo að síðustu segja að það samkomulag sem stjórnarflokkarnir eða fulltrúar þeirra í landbn. Nd. hafa gert er auðvitað málamiðlun. Við hefðum margir hverjir viljað hafa þetta frv. á annan veg. En samkomulag er samkomulag. Sé það gert verður að standa við það. Ég held líka að þó að ýmis ákvæði þessa frv. hefðu að mati hinna einstöku nm. þurft að vera öðruvísi hafi verið gerðar á frv. mikilvægar breytingar sem ég tel að séu allar til mikilla bóta. Þær brtt. sem leitað var eftir en ekki fengust samþykktar eru flestar ekki eins mikilvægar og sumar af þeim brtt. sem samkomulag varð um. En það er framkvæmd laganna sem líka skiptir miklu máli hvernig tekst til með. Í reynd verður það framkvæmdin sem dómurinn um þetta frv. mun fyrst og fremst byggjast á þegar fram líða stundir.

Landbúnaðurinn er nú í miklum öldudal og margir bændur búa við mjög þröngan kost. Ég vona að með því að byggja upp nýjan atvinnurekstur í sveitum verði þessu snúið við og bændur fái aftur von um betri tíma fram undan. Það skiptir einnig miklu máli hvernig reglugerðin verður sem sett verður við þetta frv. Ég veit að hæstv. landbrh., sem hana setur, hefur fullan skilning á því að það skiptir ekki litlu máli hvernig reglugerðin verður við þetta frv.

Meiri hl. landbn. leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem ég hef hér lýst.