14.06.1985
Neðri deild: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6596 í B-deild Alþingistíðinda. (5942)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. 1. minni hl. landbn. sem er eitt af þremur nál. sem liggja fyrir hér um þetta frv. til l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Meiri hl. leggur til, eins og við höfum hér heyrt, að þetta frv. verði samþykkt með ákveðnum brtt. 1. minni hl. leggur til að málinu verði vísað til ríkisstj. og henni falið að skipa nefnd til að vinna að endurskoðun frv. og kynna málið meðal hagsmunaaðila og leggja fyrir næsta starfandi Alþingi nýtt frv. til l. í þessum efnum. Í áliti 2. minni hl. er lagt til að málinu verði vísað frá með rökstuddri dagskrá.

Ég mun áður en ég geri nánar grein fyrir nál. mínu, herra forseti, víkja nokkrum orðum almennt að þessu frv. svo og að brtt. meiri hl. og frv. eins og það liti út ef þær yrðu samþykktar.

Ég hef í fyrsta lagi, herra forseti, gagnrýnt málsmeðferðina. Það er liður í þeirri afstöðu minni að ekki sé tímabært og ekki skynsamlegt að samþykkja þetta frv. eins og það liggur nú fyrir, m. a. og sérstaklega með tilliti til þeirrar málsmeðferðar sem ég hef áður gert að umtalsefni í umr. um þetta mál. Það er nánast óþarft að rekja fyrir hv. þd. hvernig að þessu hefur verið staðið og í sjálfu sér ekki mitt hlutverk að hafa um það mjög mörg orð. Það liggur nú fyrir að stjórnarflokkarnir ætla að keyra þetta mál í gegn þrátt fyrir þann andbyr sem það hefur mætt víða í þjóðfélaginu, þrátt fyrir þau mótmæli sem borist hafa gegn því að frv. verði afgreitt og þrátt fyrir þá erfiðleika sem urðu hjá hv. stjórnarliðum við að ná samstöðu um breytingar á þessu frv.

Ég vil segja þó, herra forseti, að flestar af þeim brtt. sem meiri hl. hefur náð saman um ganga í átt til nokkurrar lagfæringar á frv. Það er mér ekkert launungarmál. Sumar eru þó nokkuð broslegar með tilliti til þess að þar er í raun litlu breytt, en höfð um það nokkur orð. Aðrar eru beinlínis furðulegar. Ég vil sérstaklega vekja athygli forseta og hæstv. landbrh., einnig frsm. meiri hl., á 7. brtt. við 30. gr., vilji menn vera svo góðir að fletta upp á textanum á 9. bls. frv. Ég skil a-lið 7. brtt. við 30. gr. þannig, að brott skuli falla úr síðari hluta 1. mgr. orðin „heimilt að gera eftirtaldar ráðstafanir.“ Ætla ég að lesa, herra forseti, 1. mgr. eins og hún er orðin ef brott féllu orðin „heimilt að gera eftirtaldar ráðstafanir.“ Það er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Til þess að hafa stjórn á framleiðslu búvara þannig að hún verði í samræmi við tilgang laga þessara er landbrh.“

Ég fæ ekki betur séð en að með því að fella brott síðasta hluta setningarinnar, þessi orð: „heimili að gera eftirtaldar ráðstafanir“, sé þessi setning þar með orðin lokleysa og er kannske dæmigerð um þau vinnubrögð sem við hv. þm. höfum neyðst til að viðhafa vegna þeirrar stjórnunar sem hæstv. ríkisstj. hefur ástundað á síðustu dögum. Ég tek það fram og vil að það sé alveg ljóst að ég er ekki að gagnrýna formann landbn. Nd. sem hefur unnið ótrúlega mikið starf við þröng skilyrði hér á þinginu s. l. daga við að koma þessu máli fram, hvað sem um vilja hans að öðru leyti mætti segja.

Þetta er þá sem sagt þannig, herra forseti, að meiri hl. landbn. leggur til að landbrh. sjái til þess að hafa stjórn á framleiðslu búvara þannig að hún verði í samræmi við tilgang laga þessara, ef maður snýr við orðaröð fyrstu setningarinnar, og er það þá orðið nokkuð sérkennilegt hlutskipti sem hæstv. landbrh. er ætlað, ef ég hef skilið þessa brtt. rétt og leyfi mér að umorða ofurlítið 1. mgr. eins og hún væri þá orðin. Ég beini því til meiri hl. og til forseta að athugað verði hvort hér sé á ferðinni fullkomlega þinglegt orðalag. Ég geri þetta með góðum hug að sjálfsögðu, herra forseti, því að mér er umhugað um að hlutverk landbrh. Íslands verði eitthvað annað og meira en bara að „vera“ í þessum efnum. En það er alkunna og þarf ekki að rekja það fyrir málhögum þm. hvað sögnin „að vera“ í ákveðnum hætti merkir í fornu máli íslensku.

Þetta er sú sem mér finnst broslegust af þessum brtt. Önnur er sú sem gerð er við 40. gr. og mætti hafa um nokkurt mál. Það er alkunna að uppi var um það ágreiningur hvort leyfisbinda skyldi starfsleyfi afurðasölustöðva og sláturhúsa. Ég er í þeim hópi sem tel skynsamlegt og nauðsynlegt að hafa þarna á nokkra stjórnun. Ég óttast að ef menn opni algerlega fyrir starfsemi af þessu tagi skelli hér á bylgja nýrrar og óþarfrar fjárfestingar, en það er vitað og það liggur fyrir að afkastageta sláturhúsa og vinnslustöðva í landinu er langt umfram það magn sem nú er framleitt þannig að það er með öllu ástæðulaust og óþarft að opna fyrir nýja fjárfestingarbylgju sem skollið gæti á í þessum efnum. Þennan ágreining hafa stjórnarliðar leyst á þann snilldarlega hátt, sem ber vott um mikla hugkvæmni að ég tel, að þeir bæta við 40. gr., sem áður var tvær mgr., nýrri mgr., þeirri þriðju, sem vitnar í 1. mgr. M. ö. o.: Það er búin til ný mgr., 3. mgr. 40. gr., svohljóðandi:

„Við löggildingu sláturhúsa skv. lögum nr. 30 frá 28. apríl 1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum, með síðari breytingum, skal gætt ákvæða 1. mgr. þessarar greinar.“

Sem sagt: menn fara í einn lítinn hring og setja inn nýja setningu um að það skuli tekið tillit til þess sem stendur fyrr í sömu lagagr., þ. e. í 1. mgr. Þarna finnst mér nokkuð vel að verki verið og má mikið vera ef hv. 2. þm. Norðurl. e., sá lögfróði maður hefur ekki lagt hönd á plóginn og skapað þessa snyrtilegu fléttu sem í mínum huga er gersamlega marklaus, breytir ekki á nokkurn hátt merkingu greinarinnar og er með þeim sérkennilega lagahætti að vísað er í önnur og alls óskyld lög sem fjalla um allt annað, þ. e. heilbrigðisskoðun og heilbrigðiseftirlit í sláturhúsum sem koma þessu máli ekki við. (HBl: Þetta verður lagastafur ef samþykki er.) Verður lagastafur, segir hv. 2. þm. Norðurl. e., greinilega hróðugur af þessari fléttu sinni og hann um það. En ég er einungis að vekja athygli á þessum tveimur atriðum, herra forseti. Þau eru e. t. v. nokkuð dæmigerð fyrir þann gang mála sem hv. þm. hafa neyðst til að viðhafa á síðustu dögum til að reyna að koma þessu máli fram í samræmi við vilja landsfundar Sjálfstfl., að ég skil.

Ég ætla ekki að fara efnislega í aðrar brtt. meiri hl. Ég sagði áðan að ég tel margar þeirra vera til bóta og hv. frsm. meiri hl. gerði ágætlega grein fyrir því hverju þær breyta efnislega. En ég ætla að renna örlítið yfir þetta frv. með hliðsjón af helstu gagnrýnisatriðum sem komið hafa frá ýmsum aðilum og einkum og sér í lagi sex manna nefnd sem kosin var á aukafundi Stéttarsambands bænda því það má öllum ljóst vera sem eitthvað þekkja til málsmeðferðarinnar að afgreiðsla Stéttarsambands bænda, þessa aukafundar, var í raun og veru bundin því að sú sex manna nefnd næði fram þeim leiðréttingum á þessu frv. sem hún teldi nauðsynlegt. Stuðningur Stéttarsambandsins var bundinn því, að ég skil. Um það má segja að á fundum sem við áttum með sex manna nefndinni og fulltrúum Stéttarsambands bænda og Framleiðsluráðs var farið yfir frv., reyndar oftar en einu sinni, og það athugað hvað af ábendingum og aths. hefði þar komist inn. Ég hef merkt við þann lista og hann er þannig að mér sýnist að um 1/3 af þeim efnislegu aths. sem gerðar voru af hálfu sex manna nefndarinnar hafi verið tekinn fyllilega til greina, annar þriðjungur e. t. v. að nokkru leyti og þriðjungur til liggi algerlega úti. Auðvitað segja tölur ekki mikið í þessum efnum því að þessi atriði vega misjafnlega þungt, en þó er alveg ljóst að ýmis veigamikil efnisleg atriði, sem fulltrúar Stéttarsambands bænda og sex manna nefnd kosin á aukafundi lagði þunga áherslu á, hafa ekki náð fram að ganga. Ég nefni sem dæmi það hlutverk sem Stéttarsamband bænda og sex manna nefndin töldu eðlilegt að Framleiðsluráð landbúnaðarins hefði á höndum í sambandi við skipulag og verkaskiptingu vinnslustöðva fyrir búvörur og eftirlit með þeirri starfsemi.

Herra forseti. Það kom einnig fram í máli frsm. meiri hl. að það skipulag, sem þetta frv. byggir á varðandi verðlagningarkerfi búvara, IV. kafli, um verðskráningu á búvörum, er að verulegu leyti andvana fætt eins og það er hugsað og lagt upp í þessu frv. vegna þess að það liggur þegar fyrir að fulltrúar neytenda. sem skipa á af Alþýðusambandi Íslands og Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, munu ekki taka sæti í þeim nefndum sem frv. gerir ráð fyrir að þeir eigi sæti í. Þessar yfirlýsingar lágu fyrir þegar í meðförum málsins í landbn. Engu að síður er lagt til að þetta frv. byggi að óbreyttu á þessum grunni. Ég tel það mjög miður, herra forseti, að svo skuli hafa tekist til við heildarendurskoðun á framleiðslu- og verðlagningarmálum landbúnaðarins að þegar frá upphafi sé ljóst að fulltrúar Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja treysti sér ekki til að ganga inn í þær verðlagningarnefndir sem hér eru lagðar upp. Það er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. landbrh. að því: Hefur ríkisstj. eða landbrh. rætt við fulltrúa Alþýðusambands Íslands og BSRB? Ég er þá að spyrja um hæstv. landbrh. og hæstv. ríkisstj. sjálfa fyrir utan það sem landbn. gerði hvað þetta afriði varðar. Og liggur eitthvað fyrir um hvernig þyrfti að breyta þessu frv. og þessum verðlagningarákvæðum til þess að þessir aðilar vildu skoða um það hug sinn að taka þátt í þessu samstarfi?

Ég segi þetta vegna þess, herra forseti, að það er mín skoðun að skylt sé að reyna þegar slík endurskoðun er gerð að leita sátta milli þeirra sjónarmiða framleiðenda og neytenda sem tekist hafa á í þessum málum á undanförnum árum. Nú er ég ekki að segja það og ekki að halda því fram, herra forseti, að það sé auðvelt verk og það er eflaust hægara um að ræða en úr að bæta í þessum efnum. En ég vil segja það og það er mín sannfæring að það sé gersamlega skylt að gera hvað hægt er til að leiða þessa aðila saman og reyna að sætta þessi sjónarmið. Auðvitað eiga hagsmunir þessara aðila að fara saman í bráð og í lengd og það verður fátt gert íslenskum landbúnaði meir til bölvunar en að ala enn á og viðhalda þeirri tortryggni og sundrung sem í þessum efnum hefur verið og hefur ríkt. Íslenskur landbúnaður á að sjálfsögðu allt sitt undir því að samkomulag og samstarf framleiðendanna við neytendur í landinu sé sem best og að þar ríki sem gagnkvæmast traust og sem gagnkvæmastur skilningur á högum hvers annars.

Nú hef ég, herra forseti, fyrst og fremst nálgast landbúnaðinn og haft kynni af honum frá sjónarhóli framleiðendanna og ég leyni því ekki að ég tel í sjálfu sér, eins og staðan er og með tilliti til þess hvernig ástandið er í hefðbundnum búgreinum, að koma þurfi til veruleg utanaðkomandi aðstoð til þess að hægt sé að sætta þessi sjónarmið og ná þeim saman. En sú aðstoð endurspeglar einungis þann veruleika sem við búum við m. a. hvað varðar búsetu í landinu og fjárfestingu í hefðbundnum greinum. Það verður að mínu viti ekki fram hjá því horft að til þess að hagsmunir beggja þessara aðila geti farið að fullu saman í framtíðinni og einhver von sé um að sætt takist þurfi að koma til ákveðið átak, ákveðin aðstoð utanaðkomandi aðila sem vara þurfi um ákveðið tímabil á meðan þeim aðstæðum sem við búum við verður að einhverju leyti breytt.

Herra forseti. Ég þykist hafa sýnt fram á það, og gæti gert það í ítarlegra máli ef eftir því væri óskað, að margar veigamiklar tillögur sem bárust frá samtökum framleiðenda landbúnaðarvara hafi ekki náð inn í þetta frv. Nú er ég ekki að segja að það sé endilega óhjákvæmilegt að verða við öllum óskum þaðan, en með tillifi til þeirrar málsmeðferðar sem hér hefur verið viðhöfð vil ég að það liggi alveg ljóst fyrir hvernig staða þeirra hluta er og með tilliti til þess skamma tíma sem bændur og aðrir hagsmunaaðilar málsins hafa haft til þess að koma sínum athugasemdum á framfæri er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að hve miklu leyti slíkar athugasemdir hafa verið teknar til greina og að hve miklu leyti ekki. Ég ætla að vitna hér, með leyfi forseta, í örfáar af þeim fjölmörgu umsögnum og athugasemdum sem landbn. hafa borist í starfi sínu til þess að rökstyðja þá fullyrðingu, sem ég setti fram hér áðan, að þessu máli hafi mætt mikill andbyr víða úti í þjóðfélaginu.

Ég er hér með í höndum nokkuð þykka bók, herra forseti. Þetta er einungis hluti af þeim gögnum sem landbn. bárust í vinnu hennar að þessu frv. og hefur að geyma fjöldamargar athugasemdir og ábendingar og mótmæli ýmissa aðila sem tengjast þessu máli frá ýmsum mismunandi sjónarhornum. Þar eru aðilar eins og verkalýðshreyfingin, Neytendasamtökin, Verslunarráð Íslands, Kaupmannasamtökin, samtök framleiðenda, samtök vinnslustöðva, o. s. frv.

Alþýðusamband Íslands sendi landbn. Nd. 30. maí s. l. svohljóðandi bréf vegna þessa frv. til laga um verðlagningu og sölu á búvörum, með leyfi forseta:

„l. Miðstjórn Alþýðusambands Íslands hefur fjallað um frv. til l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Frv. þetta er æði viðamikið. Hér verður því engin tæmandi grein gerð fyrir afstöðu ASÍ til frv., heldur einungis þeim athugasemdum sem veigamestar teljast. Við þær aðstæður sem ríkjandi eru í búvöruframleiðslu og á mörkuðum fyrir afurðirnar er ljóst að ákvarðanir varðandi framleiðslumagn og skipulag framleiðslunnar skipta meginmáli um það verð sem neytendur verða að greiða fyrir búvörur. Það er álit miðstjórnar að tryggja verði neytendum eðlileg áhrif á stefnumótun að því er þessa þætti varðar.

2. Miðstjórn ASÍ telur með öllu óviðunandi að samningum um verð búvara sé með lögum settur fastmótaður rammi eins og gert er í IV. kafla frv. Það er nánast þversögn að tala um samningana og búa jafnframt í hendur neytendum reikningseyðublað þar sem einstakir þættir samninganna eru tíundaðir. Miðstjórnin ítrekar þá skoðun að aðild neytenda að heildarsamningum af því tagi sem mælt er fyrir um í VII. kafla frv. sé nauðsynleg og reyndar sjálfsögð. Ef vilji er til þess af hálfu ríkisvaldsins að fara eitt með slíka samningagerð verður einnig að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau axli alla ábyrgð á verðlagningu afurða. Eins og frv. er úr garði gert er samhengisins vegna eðlilegt að ríkisstj. eða fulltrúar hennar fari með samninga um verðlagningu afurða til framleiðenda og gagnvart vinnslustöðvum.“

Ég les ekki meira af bréfi Alþýðusambands Íslands, en ég hygg að hér sé skýrð sú ákvörðun Alþýðusambandsins að eiga ekki aðild að verðlagningarhlið málanna. Það kemur þar fram að Alþýðusamband Íslands telur eðlilegra að ríkið fylgi málinu eftir alla leið og gangi sjálft frá verðlagningu á landbúnaðarvörum til framleiðenda og á vinnslustigi.

Verslunarráð Íslands eru samtök sem hafa hitið sig landbúnaðarmálin mikið varða og skrifað fjöldamörg bréf, sem ræðumaður hefur naumast tölu á, til landbn. í tengslum við þetta mál. Kennir þar ýmissa grasa, en þó má segja að sameiginlegt sé það fjöldamörgum öðrum umsögnum og Verslunarráði Íslands að það telur vafasamt og ótímabært að samþykkja frv. á þessu stigi málsins. Þessu fylgir gífurlega mikil greinargerð frá Verslunarráðinu upp á tugi blaðsíðna, eða a. m. k. alllöng greinargerð, þar sem afstaða Verslunarráðsins til þessa máls er tíunduð. Fulltrúar Verslunarráðsins voru einnig í hópi fjölmargra aðila sem gengu fyrir hv. landbn.

Neytendasamtökin senda landbn. bréf 24. maí 1985 og þar segir, með leyfi forseta:

„Vegna erindis þessa“, þ. e. beiðni um að Neytendasamtökin segi álit sitt á þessu frv., „telja Neytendasamtökin rétt að benda á eftirfararandi atriði:

Málatilbúnaður frv. er að mörgu leyti slæmur. Neytendasamtökin heyrðu fyrst um tilvist þess fyrir um það bil mánuði þegar samtök bænda voru að fjalla um það á margra daga fundi. Samtökin fengu í hendur eintak af drögum um frv. eftir að hafa sent sérstakt umkvörtunarbréf til landbrh. og krafist þess að fá eintak. Samtökin sendu landbrh. sérstakt bréf sem fyrstu viðbrögð við drögunum og þar sem almenn sjónarmið neytenda í landbúnaðarmálum voru ítrekuð. Síðan fá samtökin engar fréttir af gangi málsins og hafa ekki enn þá fengið sjálft frv. Samt er hringt til formanns Neytendasamtakanna skömmu fyrir kl. 19 í gær, þann 23. maí, þar sem beðið var um að samtökin sendu fulltrúa á fund landbn. kl. 9.30 daginn eftir“, þ. e. í dag, 24. maí, sama dag og þetta bréf var skrifað.

„Neytendasamtökin hafa haft frumvarpsdrögin til athugunar undanfarnar þrjár vikur. Sá tími dugar vart til að gefa um þau nógu viðamikið svar. Formaður landbúnaðarnefndar samtakanna er nú erlendis. Neytendasamtökin eru því ekki í neinni stöðu til að gefa álit sitt á frv. umfram það sem kemur fram í þessu bréfi og fyrrnefndu bréfi til landbrh.

Full ástæða er,“ segir enn fremur, „til þess að hvetja hv. Alþingi til þess að flýta sér hægt í þessu máli og gefa hagsmunaaðilum rýmri tíma til að fjalla um það en hingað til hefur verið gert.“

Bréf Neytendasamtakanna er allmiklu lengra. Landbn. bárust að auki enn frekari mótmæli Neytendasamtakanna og sömuleiðis ályktun samþykkt á fundi Neytendasamtakanna, sem haldinn var um þetta leyti, þar sem því var mótmælt að þetta frv. yrði gert að lögum á yfirstandandi þingi.

Neytendasamtökin lýstu sig jafnframt í sömu ályktun reiðubúin til samstarfs og til þátttöku í samstarfi um að endurskoða þessa löggjöf í betra tómi.

Þá hafa, herra forseti, borist fjölmörg bréf frá ýmsum búnaðarsamböndum og ætla ég ekki að lesa þau öll. Þannig mælir t. d. Búnaðarsamband Eyjafjarðar með því að þetta frv. verði gert að lögum náist þær leiðréttingar fram sem Stéttarsamband bænda og sex manna nefnd þess hafi gert kröfu um. Fundur stjórna búnaðarsambanda í Vestfjarðakjördæmi er öllu harðorðari. Í bréfi frá þeim samtökum segir, með leyfi forseta:

„Fundurinn tekur sterklega undir ábendingar stjórnar Stéttarsambands bænda til landbn. Nd. Alþingis frá 20. þ. m. og skorar á Alþingi að taka þær til greina, en fresta að öðrum kosti afgreiðslu málsins svo betra tóm gefist til umfjöllunar. Fundurinn lýsir sérstaklega alvarlegum áhyggjum af þeirri stefnu, sem kemur fram í frv., að dregið sé úr höndum samtaka bænda vald til að hafa áhrif á vinnsluskipulag búvara. Beinir fundurinn því til Stéttarsambands bænda að það beiti öllum ráðum til að hindra lögfestingu frv. fáist ekki viðunandi leiðrétting.“

Á fund landbn. komu einnig fulltrúar stjórnar búnaðarsambanda og stjórnar samvinnufélaga á öllu Norðurlandi vestra og í Strandasýslu. Þessir aðilar héldu með sér fund á Blönduósi þann 3. maí 1985 og var nokkuð til hans vitnað í 1. umr. þessa máls. Fundur þessi gerði ályktun og var henni komið á framfæri við landbn. og mættu fulltrúar fundarins hjá nefndinni til að kynna þessa ályktun og afstöðu sína að öðru leyti. Ályktunin var svohljóðandi, með leyfi forseta:

„1. Fundurinn mótmælir harðlega þeim vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið af hálfu stjórnarflokkanna varðandi endurskoðun á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins og átelur að þessi endurskoðun skuli hafa verið gerð án samráðs við bændasamtökin.

2. Fundurinn mótmælir eindregið þeirri valdatilfærslu frá Framleiðsluráði landbúnaðarins til landbrh. sem frv. gerir ráð fyrir og telur að með því sé ákveðið stefnt að því að veikja stöðu bændastéttarinnar, bæði efnalega og félagslega.

3. Fundurinn telur þann samdrátt sem frv. gerir ráð fyrir varðandi greiðslur útflutningsuppbóta algerlega óraunhæfan meðan þeim samdrætti sem þegar hefur átt sér stað í mjólkur- og sauðfjárframleiðslu hefur ekki verið mætt með annarri atvinnuuppbyggingu.

4. Fundurinn krefst þess að tekin verði upp framleiðslustjórnun varðandi alla kjötframleiðslu.

5. Fundurinn telur að frv. stefni ákveðið að því að brjóta niður núverandi sölukerfi á búvörum svo og vinnslustöðvarnar.

6. Fundurinn tekur að öðru leyti undir brtt. sex manna nefndar og aukafundar Stéttarsambands bænda og leggur áherslu á að þær verði teknar til greina við lokagerð frv.

7. Fundurinn mótmælir því harðlega að frv. verði lögfest á yfirstandandi Alþingi og telur að það þurfi enn frekari umfjöllun hjá bændastéttinni.“

Ályktunin var borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða. Þetta var á fundi með stjórnum búnaðarsambanda og stjórnum samvinnufélaga á Norðurlandi vestra og í Strandasýslu sem haldinn var á Blönduósi 3. maí 1985.

Búnaðarsamband Vesturlands gerir ýmsar athugasemdir við þetta frv. og kom þeim á framfæri við nefndina.

Þá vil ég vitna til samþykktar sem gerð var á fundi Neytendasamtakanna á síðara stigi umfjöllunar þessa máls. Þann 30. maí s. l. gerði fundur stjórnar Neytendasamtakanna samþykkt í tilefni af umfjöllun þessa frv. Þar segir, með leyfi forseta:

„Stjórn Neytendasamtakanna hefur í bréfum til landbrh. og Nd. Alþingis varað við samþykkt ýmissa atriða í frv. til l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Stjórnin ítrekar fyrri sjónarmið sín í máli þessu, en þau eru m. a. andstaða við útvíkkun búvöruhugtaksins frá því sem nú gildir, þ. e. að undir framleiðslustjórn verði teknar afurðir svína og alifugla, nytjajurta, loðdýra og hlunninda, og í öðru lagi verðmiðlun milli búgreina, m. a. í formi fóðurgjalds. Einnig mótmælir stjórn Neytendasamtakanna málsmeðferðinni á frv., en Neytendasamtökunum var fyrst kynnt frv. þegar það var fullbúið til flutnings á Alþingi. Neytendasamtökin skora því á Alþingi að samþykkja ekki frv. í núverandi mynd. Eðlilegt er að frv. verði tekið til frekari athugunar í nefnd hagsmunaaðila fyrir næsta Alþingi. Neytendasamtökin lýsa sig reiðubúin til þátttöku í slíkri nefnd.“

Undir þetta ritar Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna.

Meðan málið var í vinnslu hjá landbn. kom Framleiðsluráð landbúnaðarins sérstaklega á framfæri sínum athugasemdum, en þær eru að verulegu leyti samhljóða athugasemdum og tillögum sex manna nefndarinnar og Stéttarsambands bænda og ég ætla því ekki að rekja þær hér efnislega. En sama má um það segja. Þær hafa ekki nema að hluta til og að sumu leyti alls ekki verið teknar til greina, herra forseti.

Ég ætla að leyfa mér að lesa a. m. k. enn eina samþykkt sem gerð hefur verið af tilefni þessa máls, en það er samþykkt sem Búnaðarfélag Bólstaðarhlíðarhrepps gerði á fundi þann 25. apríl í tilefni af þessu máli og var send Stéttarsambandi bænda og hefur borist landbn. í hendur. Þar segir, með leyfi forseta:

„Aðalfundur Búnaðarfélags Bólstaðarhlíðarhrepps, haldinn í Húnaveri 24. apríl 1985, lýsir vantrausti á landbrh. vegna málsmeðferðar við kynningu á framkomnu stjfrv. til veigamikilla breytinga á framleiðsluráðslögum landbúnaðarins.“

Ég held að það sé rétt, herra forseti, með tilliti til þess hve hér er sterkt kveðið að orði, að ég lesi þetta aftur hægt og rólega:

„Aðalfundur Búnaðarfélags Bólstaðarhlíðarhrepps, haldinn í Húnaveri 24. apríl 1985, lýsir vantrausti á landbrh. vegna málsmeðferðar við kynningu á fram komnu stjfrv. til veigamikilla breytinga á framleiðsluráðslögum landbúnaðarins.

Fundurinn átelur harðlega þátttöku fulltrúa frammámanna bænda í þeim skrípaleik og krefst þess að afgreiðsla málsins verði stöðvuð þar til bændur hafa fengið frumvarpsdrögin í hendur til umfjöllunar á lýðræðislegan hátt.“

Og svo segir: „Ályktun þessi skal send landbrh. þeim er vantraustinu er lýst á, Framleiðsluráði landbúnaðarins og Stéttarsambandi bænda.“ — Svo mörg voru þau orð.

Aðalfundur Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga, haldinn 21. apríl 1985, mótmælir því harðlega að þetta frv. verði afgreitt nú og telur að það sé með öllu óforsvaranlegt að afgreiða frv. hjá Alþingi eða hjá Stéttarsambandi bænda án þess að það hafi verið rækilega kynnt bændum, eins og segir í ályktun frá aðalfundi Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga.

Sláturfélag Suðurlands hélt með sér fund 30. apríl 1985 og mótmælti þá harðlega að þetta frv. yrði lögfest fyrr en bændur og framleiðslufélögin hefðu fengið ráðrúm til að kynna sér það ítarlega og koma á framfæri tillögum til breytinga á þeim greinum frv. sem þeir telja að betur megi fara.

Sama má segja um ályktanir frá ýmsum öðrum aðilum, sem ég ætla tímans vegna ekki að lesa hér, en ég nefni Mjólkursamsöluna, Osta- og smjörsöluna, Kaupfélag Borgfirðinga og fjöldamarga fleiri aðila mætti til nefna sem sent hafa frá sér erindi til landbn. og/eða gert samþykktir eða ályktanir á opnum fundum um sama efni.

Ég þykist nú, herra forseti, með þessum lestri, og skal ekki hafa hann lengri, hafa rökstutt þá fullyrðingu mína sæmilega að talsverður andbyr hafi mætt þessu frv. úti í þjóðfélaginu þegar menn fengu af því spurnir og ég tala nú ekki um eftir að frv. barst mönnum í hendur, en það var einmitt síðustu dagana sem það var til umfjöllunar í hv. landbn.

Ég hef svo, fyrir mína hönd sérstaklega, ýmsar athugasemdir við þetta frv. að gera og gæti auðvitað tekið hverja einustu grein þess til umfjöllunar og haft ýmislegt um þær að segja sumar sem ég tel til bóta og aðrar miður góðar. Ég ætla tímans vegna enn að spara það, en vísa til þess nál. sem ég hef lagt fram og mun ljúka máli mínu á að lesa. Ég vil þó gera nokkur atriði, sem ég tel hvað veigamest í þessu sambandi, að sérstöku umtalsefni og þá fyrst það að útflutningsuppbætur eru skv. 36. gr. þessa frv. lækkaðar í áföngum niður í 4% af heildarverðmæti þess stofns búvöruframleiðslu sem notaður er þar til viðmiðunar. Ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ég tel að hér sé farið of geyst. Ég miða við það fjármagn sem leggja á fram skv. 37. gr. til uppbyggingar í öðrum greinum og ég tel að verið hefði skynsamlegt að hafa þennan stiga ekki svona brattan á meðan menn sæju hvernig gengi að koma störfum til og koma uppbyggingu í öðrum greinum eitthvað á rekspöl. Ég vek á því athygli að skv. 37. gr. er hlutfallið sem varið er til eflingar nýrra búgreina, markaðsöflunar og til fjárhagslegrar endurskipulagningar búreksturs lægst fyrstu árin eða 2% árið 1986 og fer síðan hækkandi. Í raun má segja að þörfin sé þarna í öfugum hlutföllum og eðlilegast hefði verið að þeir fjármunir sem þarna eru látnir í té hefðu verið mestir í upphafi og farið síðan minnkandi. Það má öllum ljóst vera að eigi nýjar búgreinar og þessi endurskipulagning að bera árangur og skila sér með sæmilegum hraða þarf auðvitað að gera myndarlegt átak og það strax.

Það má síðan velta fyrir sér því fyrirkomulagi, sem í raun er ætlunin að beita með þessu frv., að ein atvinnugrein fjármagni, svo að segja út úr launalið sínum, uppbyggingu í nýrri atvinnustarfsemi eins og hér er gerð tillaga um. Það er í raun það sem er að gerast. Menn skyldu athuga að að verulegu leyti kemur þetta fé út úr þeim launalið sem íslenskir bændur hafa haft á undanförnum árum í hefðbundnum búgreinum og það rennur til hinnar nýju uppbyggingar. Ég hefði talið nauðsynlegt og í samræmi við þann vilja sem ríkisstj. hefur lýst yfir, að hún vilji gera átak til atvinnuuppbyggingar og átak í nýjum búgreinum, að útvegað hefði verið sérstakt fjármagn í upphafi til að gera þetta átak myndarlegt fyrstu árin og það hefði síðan fremur verið haft lækkandi en hækkandi, en það tel ég vera, eins og ég hef áður rakið, í öfugu hlutfalli við þörfina.

Ég hef átalið það áður og látið það koma fram að þetta frv. er í raun á vissan hátt slitið úr tengslum við ástandið í atvinnugreinum eins og það er þar sem ljóst má vera að þetta frv. um framleiðslu, sölu og verðlagningu á búvörum tekur ekki á nokkurn hátt á þeim gífurlega fjárhagsvanda íslenskra bænda sem er staðreynd í dag. Til þess hefðu þurft að koma aðrar og víðtækari ráðstafanir. Ég hefði talið eðlilegt að hæstv. ríkisstj. hefði látið þær verða samferða þessu máli sínu í gegnum Alþingi ef hún vill á annað borð eitthvað á sig leggja í þeim efnum.

Ég hef sérstaklega gagnrýnt, herra forseti, að engin stefna er mörkuð í tengslum við þetta frv. um niðurgreiðslur eða niðurgreiðslustig búvara. Ég tel það fásinnu og raunar með ólíkindum að menn skuli treysta sér til að marka framtíðarstefnu um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum í landinu án þess að minnast einu einasta orði á hvaða stefnu þeir ætli að viðhafa á næstu árum varðandi niðurgreiðslur. Það má öllum ljóst vera að niðurgreiðslustigið og það verð sem þar með er á landbúnaðarvörunum verða ekki slitin úr samhengi við framleiðslu- og sölumálin í heild sinni. Það er óhjákvæmilegt að lýsa eftir því við þessa umræðu hvaða stefnu hæstv. landbrh. hefur í þessum efnum. Hyggst ríkisstj. láta halda svo sem horfir, að niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðum hverfi á 1–2 árum frá því sem verið hefur? Það er öllum ljóst að haldi svo sem horft hefur í tíð þessarar ríkisstj., að niðurgreiðslur hafa lækkað að raungildi um helming, verða þær horfnar út úr dæminu eftir svo sem önnur tvö ár. Ég hefði talið eðlilegt, úr því að hæstv. ríkisstj. hefur ekki um það einhverjar tillögur hér, að í það minnsta hæstv. landbrh. sýndi þessari deild þá virðingu að lýsa sinni persónulegu skoðun í þessum efnum. Ég skal taka hana fyrir síðar vegna þess að ég býst ekki við því að hæst. landbrh. sé í aðstöðu til þess í hæstv. ríkisstj. að segja meira en sína persónulegu skoðun. Það er reyndar venja hér, þegar hæstv. ráðherrar Framsfl. svara manni einhverju, að sé um einhver viðkvæm mál að ræða flýja þeir bak við sína persónulegu skoðun í því efni og er hæstv. forsrh. einmitt frægastur fyrir þá tilhögun.

Ég hef einnig gagnrýnt það og vil gera enn, herra forseti, að menn skuli treysta sér til að leggja til með einu lítt hugsuðu frv., sem afgreitt er á nokkrum vikum, jafnviðamiklar þjóðfélagsbreytingar og ég tel að gætu orðið afleiðing þessa frv. án þess að gera á því nokkrar þjóðhagslegar athuganir hvaða afleiðingar slíkt gæti haft fyrir hið flókna samhengi efnahagslífs og mannlífs á landsbyggðinni einkum og sér í lagi. Ég óttast að samþykkt þessa frv. muni leiða af sér verulegar breytingar, einkum og sér í lagi í hinum hefðbundnu búgreinum og þá fyrst og fremst sauðfjárframleiðslunni, með aldeilis ófyrirséðum afleiðingum fyrir búsetu og allt mannlíf í þeim héruðum og þeim byggðarlögum sem einkum byggja á þessari starfsemi. Ég óttast þetta vegna þess að ég tel, því miður, engan veginn tryggt að þau fögru fyrirheit, sem menn hafa hér um nýsköpun í öðrum búgreinum, nái fram að ganga. Auk þess er afstaða byggðanna mjög mismunandi hvað þetta varðar. Það eru til sauðfjárræktarhéruð sem hafa litla sem enga möguleika á því að fara yfir í loðdýrarækt einfaldlega vegna þess að í þeim byggðum liggur ekki fyrir hráefni til fóðurgerðar. Í öðrum eru þeir möguleikar takmarkaðir o. s. frv. Mér er ekki kunnugt um að hæstv. landbrh. hafi t. d. látið Þjóðhagsstofnun með öllum sínum sérfræðingaher skoða það eitthvað hverjar væru mögulegar afleiðingar af samþykkt þessa frv. á tekjur í einstökum byggðarlögum, á afkomumöguleika einstakra þjónustustaða. Hvað telur t. d. hæstv. ráðh. að þetta muni þýða fyrir Kópasker, Núpasveit og Öxarfjörð þar sem sauðfjárrækt er nánast einasta atvinnugreinin og þar sem Kópasker byggir nánast á þjónustu við þessa grein og hefur sáralítið annað til að grípa til? Ég held að skynsamlegt væri að taka fyrir einhver slík byggðarlög með sérstakar aðstæður og reyna að skoða það, ef samdráttur verður svo mikill sem vænta má í sauðfjárframleiðslunni, hvernig þessar byggðir standa þá. Á að láta þær bera hlutfallslega sinn skerf af þessum samdrætti burtséð frá því hvaða möguleika þær hafa til að nýta sér átak í öðrum greinum sem hér er um talað eða verður eitthvað til þess litið hvernig einstök héruð standa þar að vígi?

Herra forseti. Ég ætla svo að gera alveg sérstaklega að umtalsefni einn þátt þessa máls. Ég tel vera langalvarlegast og langámælisverðast hvernig að því hefur verið staðið af hálfu stjórnarmeirihlutans. Það eru þau fölsku fyrirheit sem að mínu mati eru gefin í þessu frv. um greiðslu á afurðaverði til framleiðenda. Það er öllum kunnugt, sem með þessu máli hafa fylgst, að það er sá hluti þessa frv. sem mest hefur verið notaður af hálfu hv. stjórnarliða til að selja bændum, ef ég má nota það orðalag, þetta frv., til að fá bændur til að sætta sig við þær þrengingar sem með ýmsu móti eru á þá lagðar. Í öðrum greinum frv. hefur því mjög verið hampað að nú muni bændur nánast fá staðgreiddar sínar afurðir verði þetta frv. að lögum. Ekki neita ég því að vissulega væri það mikill ávinningur fyrir bændur væri þetta rétt og næði þetta fram að ganga. En mér þykja heldur illa bundnir hnútarnir hvað það varðar að hæstv. ríkisstj. tryggi að þetta markmið hennar nái fram að ganga. Ég vil víkja aðeins að því hvers vegna ég segi að hér sé ekki nægilega tryggilega frá þessu gengið.

Það er þm. eflaust kunnugt að eitt af afrekum hæstv. ríkisstj. í peningamálum var að flytja afurðalán til viðskiptabanka. Það var því að vonum að einstakir þm. í landbn. hefðu uppi spurningar í sambandi við það hvernig viðskiptabönkunum mundi ganga að fjármagna þau auknu útgjöld sem hér þurfa tvímælalaust að koma til ef þessi kafli frv., um greiðslu afurðaverðs, á að verða eitthvað annað en dauður bókstafur. Reyndar höfðu fleiri spurningar og efasemdir uppi um þetta en þm. í landbn. Nd. Þegar t. d. ekki ófrægari maður en stjórnarformaður Sambands ísl. samvinnufélaga, Valur Arnþórsson kaupfélagsstjóri á Akureyri, kom til landbn. hóf hann mál sitt á því að gera athugasemdir við þennan kafla. Hann sagði að í sínum huga þýddi ekki að setja lög um að borga út afurðir ef ekki væri tryggt til þess fjármagn. Slíkur lagabókstafur yrði dæmdur til þess að verða dauður bókstafur ef fyrir fjármagninu yrði ekki séð. Hann lýsti síðan möguleikum samvinnufélaganna eins og hann taldi þá vera til að fjármagna þetta fyrir sitt leyti og taldi það ekki koma til greina yrði ekki fyrir fjármagninu séð með öðrum hætti. Ég fór því fram á það, herra forseti, að fyrir landbn. yrðu kallaðir bankastjórar þeirra viðskiptabanka sem mest hafa á sinni könnu af afurðalánaviðskiptum og við því var orðið eins og öðrum óskum sem ég bar fram í hv. landbn. og ber að þakka það.

Fyrir nefndina komu bankastjórarnir Helgi Bergs, Stefán Pálsson og Geir Magnússon og voru þeir spurðir þeirrar spurningar, sem ég hef hér rakið, hvort þeir teldu þessa viðskiptabanka, sem til samans hafa nær öll afurðalán til landbúnaðarins á sinni könnu, eiga möguleika til að fjármagna þessi auknu útgjöld. Svarið var ósköp einfalt: Enga. Það er engin von til þess að viðskiptabankarnir auki afurðalánahlutdeild sína til landbúnaðarins, sagði bankastjórinn Helgi Bergs. Og hann tilgreindi ýmsar ástæður. M. a. þær að bönkunum hefði nýverið verið fyrirskipað af æðsta valdinu, sjálfum Seðlabanka Íslands, að draga saman sín útlán og laga eiginfjárstöðu sína. Halda menn að það standi þá sérstaklega vel á fyrir viðskiptabönkunum að taka á sig aukin útgjöld hvað þetta varðar þegar sjálfur æðsti presturinn, Jóhannes Nordal, hefur nýverið skipað þeim að draga saman útlán og laga sína eiginfjárstöðu? Bankastjórarnir bentu enn fremur á að það væru einungis nokkrir mánuðir síðan þessum bönkum hefði verið fyrirskipað að fjármagna afurðalán án endursölu og það væri ljóst að á næstu sex árum mundi þetta hlutverk íþyngja bönkunum í vaxandi mæli. Enn fremur bentu þessir bankastjórar á að ríkisstj. hygðist enn sem fyrr halda niðri vöxtunum á þessum lánum með því að ákvarða þá sjálf og þetta mundi draga enn úr möguleikum og áhuga bankanna á að sinna þessu hlutverki. Þá bentu bankastjórarnir enn fremur á að þetta lögboðna hlutverk bankanna mundi rýra samkeppnisstöðu þeirra gagnvart öðrum bönkum, sem ekki hefðu slíkt hlutverk, og draga þannig beinlínis úr áhuga þeirra á því að sinna þessum verkum og það segði sig sjálft að bankarnir mundu reyna að koma sínum hlutverkum af sér eftir því sem þeir hefðu möguleika til.

Það gekk erfiðlega, herra forseti, að fá upplýsingar um hve mikill útgjaldaauki væri hér á ferðinni, hve þessi flýting greiðslna til bænda mundi fela í sér mikinn útgjaldaauka, en þó er ljóst að þetta þýðir í sveitabúskapnum einum nokkur hundruð millj. kr., sennilega á núgildi á bilinu 400–550 millj. kr.

Ég verð að segja það alveg eins og er, herra forseti, að eftir þessi svör bankastjóranna bjóst ég satt að segja ekki við því að við fengjum þennan kafla, um greiðslu afurðaverðs til bænda, óbreyttan inn í þingið. Ég hélt að hæstv. ríkisstj. hefði meiri metnað en þann að hún mundi, að þessum svörum bankastjóranna gefnum, senda þetta frá sér óbreytt nema þá að tryggja með einhverju öðru móti að þetta næði fram að ganga og það lægi þá fyrir við afgreiðslu málsins. Ég hlýt að spyrja hæstv. landbrh. hvort hann sé hæstánægður með þessa stöðu mála. Það væri gaman, ef einhvern tíma skeði sá atburður að hv. þm. stjórnarliðsins tækju til máls hér, að þeir létu þá aðeins á sér heyra hvort þeir væru allir sáttir og ánægðir við þetta. Er t. d. hv. þm. og samnm. minn Eggert Haukdal fullkomlega ánægður með þennan kafla eins og hann er nú og þau svör sem þessir bankastjórar gáfu? Mér þætti fróðlegt að heyra mál þm. ef hann gæfi sér tíma til að skeiða í ræðustólinn þó ekki væri nema í eina mínútu til að svara þessu. (HBl: Það virðist nú ekki vera mikið pláss þar.) Það er það ekki sem stendur, herra skrifari, en það verður innan tíðar pláss fyrir þig og aðra hv. þm. til að koma í þennan ræðustól. Þið megið vera þar báðir í einu, þú og hv. þm. Eggert Haukdal, ef ykkur sýnist svo mín vegna. Hins vegar kann það að vera að forseti geri við það athugasemd, en það er ekki mitt mál.

Herra forseti. Ég tel að hér sé einhver alvarlegasti bresturinn í þessu frv. og það liggi nú fyrir að hér verði um dauðan lagabókstaf að ræða. Það liggi þar með fyrir að bændum hafa verið gefnar tálvonir með þeim hrossabrestum sem stjórnarmeirihlutinn hefur viðhaft hvað þetta varðar. Ég óttast mjög að þegar næsta haust sýni það sig að erfiðlega gangi að koma þessum málum fram. Þá skulu menn minnast þess að þetta lá hér fyrir og bankastjórar viðskiptabankanna höfðu sagt skoðun sína á því hvernig þetta mundi ganga til.

Herra forseti. Það er ýmislegt fleira sem væri hægt að gera athugasemdir við, en eins og ég hef áður sagt er það auðvitað kvöl stjórnarliða að bera ábyrgð á frv. Þeir kusu þá málsmeðferð að hafa þetta einir í sínum höndum í helmingaskiptum, eins og er viðtekin vinnuregla þegar þeir sitja saman í stjórn, Sjálfstfl. og Framsfl. Þá skipta þeir til helminga og leyfa helst ekki öðrum að komast þar að. Það skal þá vera þeirra kvöl að hafa staðið svona að málum og hvorki látið bændur, neytendur né önnur hagsmunasamtök komast mikið inn í helmingafélag sitt. Það er sennilega vegna þess að þeim líður svo vel saman, þessum ágætu stjórnarliðum, þegar þeir komast í helmingaskiptanefndir að þeir vilja helst ekki spilla kompaníinu með því að draga neina utanaðkomandi aðila þangað inn og þarf ég svo sem ekki að segja meira um það. (HBl: Og hefur reynst farsælt.) Það voru ekki mín orð, virðulegur skrifari.

Mér finnst í þessu frv. ekki fara mikið fyrir því að hv. stjórnarmeirihluti hafi peningavit. Það er nokkuð einkennilegt þegar þjóðin á allar þessar stofnanir og alla þessa sérfræðinga, Þjóðhagsstofnun og hvað þær nú heita allar, að ekki skuli reynt að líta til þess hvaða fjárhagslegar stærðir eru á ferðinni, það skuli einstakir nm. þurfa að toga það upp úr mönnum utan úr bæ hve margra hundraða milljóna útgjaldaauka sé verið að tala um hér eða þar og að það skuli t. d. ekki vera á einu einasta blaði upplýsingar um fjárfestingar í hefðbundnum búgreinum og hvaða fjárfestingum er verið að kasta fyrir róða með samdrætti t. d. í sauðfjárbúskapnum. Þetta þarf að liggja fyrir. Ég er ekki endilega að segja að hægt sé að búa þar við óbreytt ástand, en það er nauðsynlegt að menn geri sér grein fyrir því að við búum við ákveðnar staðreyndir sem þýðir ekkert að horfa fram hjá. Það er þá spurningin hvernig best verður unnið úr þeirri stöðu sem fyrir liggur. Menn geta haft um það langar ræður hvers vegna málum er komið eins og þeim er komið, hvers vegna innanlandsmarkaðurinn er að hrynja o. s. frv., en það er engu að síður staðreynd að fyrir er í landinu framleiðslugeta og fjárfesting til að sinna ákveðinni framleiðslu og út frá þeirri staðreynd eiga menn að ganga. Það mun koma víðar við en í sveitunum og það mun sýna sig að víðar hefur verið fjárfest í tengslum við ákveðna framleiðslu og ákveðið munstur en bara í sveitunum. Skyldu ekki jafnvel hér á Reykjavíkursvæðinu sjást þess merki að landbúnaðurinn hefur staðið undir mikilli fjárfestingu og að byggst hefur upp utan um þá framleiðslu mikil þjónusta og mikil fjárfesting? Þetta hefðu menn átt að hugsa um þegar þeir taka ákvörðun á borð við þessa og leggja fram frv. sem getur haft í för með sér jafnviðamiklar breytingar og ég hef nefnt.

Eins og ég áður sagði finnst mér ekki tekið tillit til þeirra raunverulegu aðstæðna sem við er að búa víða í sveitum þegar menn starfa að lagasmíð um átak í nýjum búgreinum og samdrátt í framleiðslunni. Það hefði einnig verið gaman ef stjórnarmeirihlutinn hefði haft meira vit á íslenskum iðnaði og hefði gert sér grein fyrir því að ein blómlegasta grein íslensks iðnaðar byggir á hráefnum frá landbúnaðinum. Staðan er þannig t. d. í skinnaiðnaðinum að öll skinn sem til falla á Íslandi eru fullunnin og meira en það. Iðnaðardeild Sambandsins hefur hafið innflutning á skinnum til sinna iðnaðarþarfa. Þess vegna er það síður en svo að það standi landbúnaðinum fyrir þrifum að hann geti ekki losnað við þann hluta framleiðslu sinnar. Reyndar er þar eftirspurn meiri en framboð.

Það er ákaflega merkileg stund þegar Framsfl. leggur það til, herra forseti, að fara að draga úr og næstum því falla frá útflutningsuppbótum á landbúnaðarafurðir. Ég er ekki að segja að það hefði verið hægt að búa þar við óbreytt ástand, en ég hefði reynt að hafa þennan stiga ekki svona brattan. Ég hlýt að minnast þess þegar Framsfl. hljóp út um landið árið 1982 og sakaði Alþb. um svik. Nú ætlaði Alþb. að svíkja landbúnaðinn, fara að skera niður útflutningsuppbæturnar. Það voru haldnar um þetta ræður norður í landi og víðar. Þetta væru nú meiri kónarnir, þessir Alþb.-þingmenn. Þeir ætluðu að svíkja landbúnaðinn, draga úr útflutningsuppbótunum. Ég vek á þessu athygli, herra forseti, vegna þess sem er að gerast þessa dagana á þinginu og hef ekki um það fleiri orð.

Herra forseti. Ég gæti ýmislegt fleira um þetta sagt, en þarf held ég ekki að hafa orð mín öllu fleiri. Ég ætla að enda á því að lesa það nál. sem ég hef lagt fram við þessa umr. um frv. þar sem koma fram nokkrar meginröksemdir mínar fyrir því að vísa þessu máli til ríkisstj. Með leyfi forseta er nál. 1. minni hl. svohljóðandi:

„Nefndin hefur á allmörgum fundum fengið talsmenn ýmissa hagsmunaaðila til viðræðna um frv. Of langt mál yrði að vitna til alls sem þar hefur komið fram, en í fáum orðum sagt hafa flestir, sem fyrir nefndina hafa komið, lagst gegn því að frv. yrði afgreitt á þessu þingi. Þá hefur málsmeðferðin ekki síður verið gagnrýnd en frv. sjálft og það talinn slæmur kostur að samþykkja svo mikilsvert mál sem þetta án þess að hagsmunaaðilum gefist betra tóm til að kynna sér málið og koma athugasemdum sínum á framfæri. Sérstök ástæða er til að vekja athygli á því að bændum, sem þó eiga að lifa og starfa og nánast eiga allt sitt undir þessari löggjöf, er nú fyrst að berast frv. í hendur um það leyti sem stjórnarliðar vilja taka málið til afgreiðslu. Hið sama á auðvitað við um ýmsa hagsmunaaðila, ekki síst neytendur, því að hér er einnig mikið í húfi fyrir þá.

Meiri hl. nefndarinnar hafnaði óskum um að senda málið til umsagnar og var borið við tímaskorti. Það er því ljóst að þrátt fyrir góða viðleitni nefndarinnar er ýmislegt enn óljóst um innihald frv. og áhrif af samþykkt þess.

Af fjölmörgum atriðum, sem þar koma til, skulu hér aðeins nefnd eftirfarandi:

1. Að því er best verður séð hefur fjármagn engan veginn verið tryggt með fullnægjandi hætti til þess að ákvæði VI. kafla um greiðslu afurðaverðs fái staðist. Frá upphafi virðist því hætta á að þau ákvæði verði dauður bókstafur auk þess — sem er öllu alvarlegra — að þær vonir, sem þau gætu vakið hjá bændum, yrðu falsvonir.

Á síðasta fundi nefndarinnar, þar sem málið var til umfjöllunar, komu bankastjórar þeirra þriggja viðskiptabanka sem mest afurðalánaviðskipti hafa við landbúnaðinn og bar þeim öllum saman um að bankarnir hefðu enga möguleika til að taka á sig útgjöld til að flýta greiðslum afurðaverðs til bænda eins og frv. gerir ráð fyrir.

2. Með samþykkt þessa frv. tekst ekki, nema síður sé, að koma á þeirri sátt milli framleiðenda og neytenda sem nauðsynlegt og skylt er að leita eftir við lagasetningu sem þessa.

3. Engir þjóðhagslegir útreikningar hafa farið fram á áhrifum af samþykki frv. og þeim miklu breytingum sem það gæti að líkindum haft í för með sér. Hér er sérstaklega átt við þann mikla samdrátt sem frv. virðist gera ráð fyrir að verði í sauðfjárbúskapnum og þau margvíslegu áhrif á allt mannlíf og athafnalíf út um landið sem slíkt mun óhjákvæmilega hafa í för með sér.

4. Frv. þessu fylgir engin stefnumörkun um niðurgreiðslur, eða niðurgreiðslustig, búvara sem þó verður að telja óaðskiljanlegan hluta af stefnumörkun í framleiðslu- og sölumálum landbúnaðarins.

5. Fjölmörg ákvæði frv. eru óljós og lítt eða ekki skýrð. Nefna má ákvæði um verðlagningarkerfi búvara, verðábyrgð, framleiðslustjórn, samdrátt hefðbundinnar búvöruframleiðslu o. fl.

6. Ekkert samkomulag lá fyrir í nefndinni um frv. eða brtt. við það og enginn meiri hl. hafði myndast þegar frv., að ósk stjórnarþingmanns, var afgreitt úr nefndinni.

Með vísan til ofanritaðs er undirritaður andvígur því að frv. þetta verði nú samþykkt, en leggur til að málinu verði vísað til ríkisstj. og henni falið að skipa nefnd fulltrúa allra stjórnmálaflokka sem vinni að nýju frv. og kynningu þess í samráði við fulltrúa helstu hagsmunaaðila. Nýtt frv. um framleiðslu, verðlagningu og sölumál landbúnaðarins verði svo lagt fyrir á næsta Alþingi svo fljótt sem við verður komið.“