14.06.1985
Neðri deild: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6628 í B-deild Alþingistíðinda. (5952)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Frsm. meiri hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég vil þakka ráðherrunum fyrir þær yfirlýsingar sem þeir gáfu um að þeir mundu sjá um að ekki yrðu pappírsgagn eitt þau staðgreiðsluákvæði sem eru í frv. Ég held að hver einasti maður sem kom til nefndarinnar sem hefur með þessi mál að gera, bæði bændur og menn frá vinnslustöðvunum, hafi lagt áherslu á að þetta ákvæði yrði tryggt. En ég vil benda hæstv. viðskrh. á að þess er ekki að vænta eins og nú er að vinnslustöðvarnar geti af eigin fjármagni bætt við þær greiðslur. Þær hafa borgað út eins og þær hafa getað umfram það sem afurðalánin hafa numið. Þess vegna vil ég taka það sérstaklega fram að þess er ekki að vænta, nema þá í einstaka tilvikum, ég skal ekki fullyrða það, að þær geti bætt við afurðagreiðslurnar eins og nú standa sakir. Þess vegna verður að gera ráð fyrir að útvega þurfi þetta fjármagn eins og nú er að öllu leyti, mismuninn á því sem hefur verið greitt út fram að þessu og á fullri staðgreiðslu.

Ég vil segja við hv. 4. þm. Norðurl. e. að ég skil allt öðruvísi ákvæðið um ábyrgðina á magni þrátt fyrir það sem hann las upp úr greinargerðinni. Ég tel að ríkisstj. beri ábyrgð á því að skila bændum öllu verði fyrir það magn sem hún kann að semja um á hverjum tíma. Ég vil undirstrika þetta hér þannig að það sé ekki um það nokkur misskilningur. Það er mín túlkun þrátt fyrir grg. og ég vil að menn standi ekki í neinum vafa í því efni.

Ég sé að hv. þm. Guðmundur Einarsson er víst ekki hér staddur, en ég ætlaði að benda honum á að það mátti skilja það á orðum hans að hann teldi að landbúnaður væri styrktur meira hér en annars staðar. Það er langt í frá. Flestar þjóðir í kringum okkur styrkja sinn landbúnað með ýmsu móti langtum meira en gert er hér á landi. T. d. eru í Noregi, að ég held, yfir 30 alls konar framlög til landbúnaðar og mismunandi eftir héruðum. Það er meira þar sem er harðbýlt til að halda byggðinni við.

Þegar menn eru að tala um að flytja inn landbúnaðarvörur og framleiðsla hér þurfi að vera þannig að hún geti keppt við það verð finnst mér það alveg út í hött á meðan aðrar þjóðir greiða eins mikið niður sína framleiðslu og gert er í dag. Það verða menn að vita. Svíar tóku upp á því á tímabili að ætla að minnka sína framleiðslu og flytja inn samsvarandi, allt upp í 20%, en ekki liðu nú mörg ár þangað til þeir breyttu um stefnu og miðuðu við að hafa framleiðsluna innanlands þannig að hún væri fram yfir það sem þjóðin notar til að tryggja að hún geti lifað fyrst og fremst á sænskum landbúnaðarvörum.

Ég vil þakka fyrir hóflegar umræður. Það hefur verið ýmislegt sagt hér sem ég er auðvitað alls ekki sammála, en ég ætla ekki að eltast við að þessu sinni. Ég tók það fram í minni fyrri ræðu að þetta frv. væri samkomulag á milli ólíkra sjónarmiða. Ég vil þakka Eggert Haukdal fyrir það sem hann sagði áðan vegna þess að hann hefur kannske túlkað þau sjónarmið sem við bændur yfirleitt höfum í þessum málum hvar í flokki sem við stöndum.