14.06.1985
Efri deild: 101. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6638 í B-deild Alþingistíðinda. (5982)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum sem lagt var fram í hv. Nd. og hefur verið afgreitt þaðan.

Öllum hér er kunnugt um þær miklu breytingar sem orðið hafa á aðstæðum í íslenskum landbúnaði síðan lögin um Framleiðsluráð landbúnaðarins voru sett 1947. Á þessu tímabili hafa nokkrar breytingar verið gerðar, þær veigamestu 1960 með ákvæðum um útflutningsbótaábyrgð ríkissjóðs og síðan aftur 1979 þegar heimildir til framleiðslustjórnunar voru lögfestar, en þá hafði verið unnið að endurskoðun laganna um Framleiðsluráð um nokkurt skeið fyrir 1979 og nefndir settar til þess en samstaða ekki orðið um veigamiklar breytingar fyrr en með þessum ákvæðum um framleiðslustjórnunina.

Forustumenn bænda sáu hvert stefndi er dró úr markaði fyrir inniendar búvörur. Á tímabili var allhagkvæmt að flytja þær út þannig að lítið vantaði á að innanlandsverðið næðist með útflutningi, en á síðasta áratug seig á ógæfuhliðina þannig að sú 10% ábyrgð sem ríkið veitti miðað við heildarverðmæti framleiðslunnar nægði fyrir æ minna magn. Það var þess vegna sem bændasamtökin fóru fram á að lögfestar yrðu heimildir til framleiðslustjórnunar. Ákvæðunum frá 1979 hefur síðan verið beitt og vissulega haft áhrif til að aðlaga framleiðsluna markaðsaðstæðum þó nokkuð vanti enn á að þar sé viðunandi útkoma.

Með þessu frv. er ætlunin að leggja grundvöll að því að snúa vörn í sókn. Í 1. gr. frv. er skilgreindur tilgangur laganna:

1) að stuðla að framförum og aukinni hagkvæmni í búvöruframleiðslu og vinnslu og sölu búvara til hagsbóta fyrir framleiðendur og neytendur,

2) að framleiðsla búvara til neyslu og iðnaðar verði í sem nánustu samræmi við þarfir þjóðarinnar og tryggi ávallt nægjanlegt vöruframboð við breytilegar aðstæður í landinu,

3) að nýttir verði sölumöguleikar fyrir búvörur erlendis eftir því sem hagkvæmt er talið,

4) að kjör þeirra sem landbúnað stunda verði í sem nánustu samræmi við kjör annarra stétta,

5) að innlend aðföng nýtist sem mest við framleiðslu búvara, bæði með hliðsjón af framleiðsluöryggi og atvinnu,

6) að stuðla að jöfnuði milli framleiðenda í hverri bú rein hvað varðar afurðaverð og markað.

Ég vil sérstaklega vekja athygli á fimmta atriðinu þar sem áhersla er lögð á þær búgreinar sem fyrst og fremst nýta innlend aðföng við framleiðsluna. Það atriði tel ég vera eitt af grundvallarskilyrðunum til þess að íslenskur landbúnaður dafni í framtíðinni.

Í II. kafla frv. er fjallað um samtök framleiðenda þar sem Stéttarsambandi bænda er veitt aukin lagaleg heimild og kveðið á um að það skuli koma fram fyrir hönd bænda við framkvæmd laga þessara nema sérstaklega sé kveðið á um í frv. að því skuli hagað á annan hátt.

Í III. kafla er fjallað um skipan og verkefni Framleiðsluráðs. Þar er gert ráð fyrir breyttri skipan og farið algjörlega eftir tillögum nefndar sem síðasti aðalfundur Stéttarsambands bænda skipaði til að gera tillögur um breytingar á samþykktum Stéttarsambandsins. Þessi nefnd skilaði áliti í vetur nokkru áður en gengið var frá samningu þessa frv. og er farið eftir þeim tillögum sem nefndin lagði fram til stjórnar Stéttarsambandsins, enda þótt ekki hafi verið fjallað um þær á aðalfundi þess enn þá. Þar er gerð sú breyting á að fjölgað er í ráðinu. Inn í það koma fulltrúar frá sérbúgreinasamtökum, sem viðurkenningu fá sem landssamtök, auk þess sem fulltrúi frá landbrn. á þar sæti, en jafnframt er gert ráð fyrir að fækka fulltrúum vinnslustöðva og þeir tveir sem eftir sitja verði úr hópi bænda.

Í III. kaflanum er enn fremur skilgreining á verkefnum Framleiðsluráðs.

Í VI. kafla er fjallað um verðskráningu á búvörum. Þar er gert ráð fyrir nokkuð breyttri skipan frá því sem nú er.

Um verðlagningu búvara til bænda er þó nokkuð svipaður háttur hafður á. Gert er ráð fyrir að þar starfi sexmannanefnd, tilnefnd annars vegar af þremur fulltrúum frá Stéttarsambandi bænda og hins vegar tveimur fulltrúum frá Alþýðusambandi Íslands og einum frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.

Ég vil taka það strax fram að fulltrúar frá þessum samtökum launþega komu á fund landbn. Nd. og lýstu því þar yfir að þau mundu ekki að svo stöddu tilnefna menn í þessa nefnd. Ég átti viðræður við fulltrúa frá Alþýðusambandinu á síðasta ári, þar sem ég taldi mjög mikilvægt að ná sem víðtækastri samstöðu um þessi mál, til að vita hvort þeir mundu vilja standa að verðákvörðun og féllust þeir á að athuga það mál og sérstaklega þegar fyrir lægi í hvernig búningi þetta frv. mundi verða. Ég vonaðist til þess að það mundi leiða til jákvæðrar niðurstöðu þar sem í þessu frv. er á ýmsan hátt komið til móts við þær hugmyndir sem komu fram í frv. sem fulltrúar þeirra lögðu fram 1979, en í bréfi til landbn. Nd. kemur fram að þeir telji að þar vanti enn eitthvað á og það sé þá rökréttara að ríkið annist þetta, eins og reyndar er gert ráð fyrir í frv. ef þeir ekki tilnefna fulltrúa þar sem ríkið á að semja um afurðamagn.

Mér finnst samt sem áður eðlilegt að þetta ákvæði sé óbreytt inni þar sem ég vona að við framkvæmd þessara laga komi í ljós að þau eru til ávinnings og hagsbóta bæði fyrir framleiðendur og neytendur og þá muni væntanlega breytast afstaða þessara samtaka.

Ef ekki verður samkomulag í verðlagsnefnd búvara er hægt að skjóta ágreiningi til yfirnefndar á sama hátt og verið hefur.

Heildsöluverð búvara skal hins vegar ákveðið af nefnd fimm manna er í eiga sæti undir forsæti verðlagsstjóra eða fulltrúa hans tveir fulltrúar neytenda og tveir fulltrúar afurðastöðva fyrir búvörur. Fulltrúar neytenda skulu tilnefndir af sömu aðilum og tilnefna fulltrúa neytenda í Verðlagsráð. Vilji neytendur ekki nota þar sinn rétt skal viðskrh. skipa menn í þeirra stað.

Um smásöluverð skal hins vegar fara eftir sömu ákvæðum og gilda um annað smásöluverð, þ. e. að um það fjallar Verðlagsráð, en það virðist sjálfsagt að hámarksverð sé á þeim vörum sem greiddar eru niður úr ríkissjóði þannig að verðlagsákvæði haldist á þeim þó að Verðlagsráð fjalli um það mál.

Í V. kafla frv. er ítarlega fjallað um verðmiðlun og tilgangur þess kafla kemur fram í fyrstu setningu 19. gr.: „Verðmiðlun á búvörum skal haga þannig, að afurðastöðvum sé gert kleift að greiða framleiðendum sama verð fyrir sams konar búvörur.“

Eru í þessum kafla margvísleg ákvæði sem eiga að tryggja þetta.

Í Nd. var gerð sú breyting að heimild til að leggja á verðjöfnunargjald til að standa straum af þessu var hækkuð úr 3% af verði í 51/2%.

Enn fremur var sú breyting gerð á í Nd. að lækkuð var gjaldprósenta sem kveðið er á um að heimilt sé að leggja á til þess að hafa mismunandi verð á mjólk til framleiðenda eftir árstíðum, eins og verið hefur undanfarið, þannig að mjólk sem framleidd er að sumrinu verði greidd á lægra verði, en síðan bætt upp að vetrinum. Þetta er gert til að stuðla að jafnari framleiðslu allt árið miðað við þarfir markaðarins.

Í VI. kafla frv. er fjallað um greiðslu afurðaverðs og er það nokkurt nýmæli. Í 18. gr. er að vísu sagt að enginn megi kaupa eða selja búvöru innanlands á öðru verði en ákveðið hefur verið samkv. ákvæðum þessara laga. Hins vegar er í VI. kaflanum fjallað um það á hvern hátt þessum greiðslum skuli hagað. Fyrir mjólk skal greitt skv. því verði sem ákveðið er 10. dag næsta mánaðar eftir innleggsmánuð, en greiðslum fyrir sauðfjárafurðir verður vitanlega að haga á annan hátt, þ. e. að frumgreiðsla komi í síðasta lagi 15. október, eins og því var breytt í Nd., en það sem ekki hefur þá verið lagt inn verði greitt í síðasta lagi tíu dögum eftir innleggsdag. Síðan komi fullnaðargreiðsla haustgrundvallarverðs, sem ákveðið er 1. september, eigi síðar en 15. desember, en jafnframt er kveðið skýrt á um að verðhækkanir, sem verða ársfjórðungslega við breytingu verðlagsgrundvallar skuli leggjast ofan á birgðir og koma til bænda. Þær greiðslur skulu koma 15. næsta mánaðar eftir hvert verðlagstímabil.

Ákvörðun um að flýta svo greiðslum til bænda byggist á samkomulagi stjórnarflokkanna frá 6. september s. l. þar sem ákveðið var að þannig skyldi á málum haldið framvegis. Það var síðan staðfest með samþykkt ríkisstj. í marsmánuði s. l. Við 2. umr. um frv. í Nd. kom enn fremur fram frá hæstv. forsrh. og hæstv. viðskrh. að nefnd sem hæstv. viðskrh. skipaði er að gera tillögur um hvernig þessu verði best fyrir komið. Þær munu væntanlega liggja fyrir innan fárra vikna þannig að þetta ákvæði verði tryggt. Samkomulag stjórnarflokkanna byggðist á því að afurðastöðvunum yrði gert þetta fært með hækkun afurðalána eða á einhvern annan hátt þar sem augljóst er að að öðrum kosti hafa þær ekki fjármagn til að standa straum af þessari greiðslu.

Í VII. kafla eru ákvæði um stjórn búvöruframleiðslunnar. Þar er í fyrsta lagi kveðið á um að landbrh. sé heimilt að semja fyrir hönd ríkisstj. við Stéttarsamband bænda um magn mjólkur- og sauðfjárafurða sem framleiðendum verði ábyrgst fullt verð fyrir á samningstímanum. Þarna er um að ræða nýmæli og kemur í stað þeirra útflutningsbóta sem ákvæði eru um í núgildandi lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Með þessu móti á það að liggja ljóst fyrir í upphafi hvers verðlagsárs hversu mikið magn það er sem bændur fá fullt verð fyrir á samningstímanum og geta þá miðað sína framleiðslu við það og þá jafnframt að framleiðslan verði sem hagkvæmust, þ. e. að tilkostnaður verði sem allra minnstur, þannig að sem stærstur hluti af andvirði framleiðslunnar renni sem laun til bóndans. Til hliðsjónar við þessa samninga er sala á innanlandsmarkaðinum og til viðbótar þær upphæðir sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður verji í því skyni að bæta við vegna útflutnings á næstu fimm árum, árunum 1986–1990, eins og nánar er fjallað um í VIII. kafla frv.

Í b-lið 30. gr. er ákvæði um að skipta þessu framleiðslumagni milli einstakra framleiðenda og er það sambærilegt við ákvæði núgildandi laga.

Í c-liðnum er landbrh. hins vegar veitt heimild til að skipta framleiðslunni eftir héruðum eða ákveðnum svæðum þannig að hvert svæði viti hvað mikið magn með fullri verðtryggingu fellur í þess hlut. Ætti þá að vera auðveldara fyrir framleiðendur innan þess svæðis að færa til framleiðslu á sem hagkvæmastan hátt. Enn fremur var í Nd. bætt inn ákvæði í 35. gr. þar sem heimilt er að taka tillit til þeirrar auknu framleiðslu sem yrði í nýjum búgreinum með stuðningi eða framlögum úr Framleiðnisjóði og gæti það komið í staðinn fyrir það sem saman drægist í hinum hefðbundnu búgreinum.

Í d-lið 30. gr. er ákvæði um fóðurgjöld af innfluttu fóðri og hráefnum í það. Er það tvenns konar:

1. Grunngjald sem má nema allt af 50% af tollverði hinnar innfluttu vöru. Er þetta vitanlega fyrst og fremst gert til að jafna aðstöðu þeirra framleiðslugreina sem byggja eingöngu á innfluttu fóðri og þeirra sem byggja á innlendu fóðri. Erlent fóður er nú mjög mikið greitt niður erlendis svo að verð á því þar er óeðlilega lágt og ekki í neinu samræmi við raunverulegan framleiðslukostnað. Það má t. d. benda á að alveg nýlega voru hækkaðar niðurgreiðslur á fóðurblöndur erlendis um 45 þýsk mörk til viðbótar við það sem áður hafði verið og er margfalt hærri upphæð. Það stefnir allt í þessa átt, að verðið lækki erlendis. Framleiðslan er svo gífurleg að reynt er að losna við umframmagnið á einhverju verði, jafnvel þó að það sé langt undir framleiðslukostnaðarverði. Allar þjóðir reyna að verja sinn landbúnað fyrir innflutningi á slíku fóðri og leggja mjög mikið kapp á að landbúnaðurinn í hverju landi byggi á innlendum aðföngum, eins og ég sagði áður að er eitt af grundvallaratriðum þessa frv.

2. Gert er ráð fyrir sérstöku fóðurgjaldi sem má nema allt að 150% af tollverði hinnar innfluttu vöru. Ráðh. setur í reglugerð nánari ákvæði um gjaldskyldu og er þar heimilt að undanskilja einstakar tegundir fóðurs gjaldskyldu. Enn fremur er heimilt að endurgreiða framleiðendum búvara hið sérstaka fóðurgjald eða hluta þess og skal miða endurgreiðslur við framleiðslumagn sem ákveðið er eftir þörf markaðarins fyrir viðkomandi búvöru eða ákveðið skv. b- og c-lið þessarar greinar.

Þessu gjaldi er ætlað að stýra framleiðslunni þannig að framleiðslan verði í samræmi við þarfir markaðarins, en hvorki verði skortur á framleiðsluvörum né heldur allt of mikil framleiðsla, þannig að fjárfesting nýtist sem best. Það er allt of dýrt fyrir þjóðfélagið og þó fyrst og fremst fyrir viðkomandi einstaklinga að leggja í fjárfestingu sem annaðhvort er ekki hægt að nýta til framleiðslu eða verður til þess að einhver annar, sem hefur skapað sér slíka aðstöðu og lagt í þá fjárfestingu, verður að hætta við.

Í VIII. kafla er fjallað um aðlögun búvöruframleiðslunnar. Þar er gert ráð fyrir að á árunum 1986–1990 verði greitt samtals úr ríkissjóði 9% af heildarverðmæti landbúnaðarframleiðslunnar, en það skiptist í tvennt: annars vegar til að greiða halla af útflutningi vegna þess magns sem ábyrgð er tekin á fullu verði fyrir, en hins vegar, og er það eitt af aðalatriðum þessa frv., er hluta af því varið til uppbyggingar á nýjum atvinnugreinum í landbúnaðinum þar sem markaðsaðstæður eru betri og gefa svigrúm til slíks. Á árunum 1986–1990 lækkar það sem varið er til útflutningsbóta úr 7% niður í 4%, en þó eru ákvæði um að jafnan skuli tryggt að staðið verði við þá samninga sem gerðir eru af ríkisins hálfu við Stéttarsamband bænda. Hins vegar hækka að sama skapi framlög til uppbyggingar á nýjum búgreinum og nýjum atvinnurekstri.

Það hefur verið bent á að þetta væri að nokkru leyti öfugt þannig að það væri meiri þörf fyrir fjármagn til þeirra hluta nú í upphafi vegna þess mikla samdráttar sem varð á árunum 1980–1983 í búvöruframleiðslunni og veldur vissulega mörgum bændum erfiðleikum nú þar sem það hefur dregið nokkuð úr tekjumöguleikum. En á þessu ári er varið mjög miklu fjármagni til eflingar nýrra greina, sérstaklega til stuðnings loðdýraræktinni sem hefur verið unnið að að byggja upp á skipulegan hátt og gefur góðar vonir. Árangurinn hefur orðið það góður hjá þeim sem þar hafa náð tökum á að góðir sauðfjárbændur með miklar afurðir segja tvímælalaust að þeir hafi betri afkomu af loðdýraræktinni en góðum sauðfjárbúskap. Er það vissulega mikils virði að hafa möguleika til að byggja slíkt upp við þær markaðsaðstæður sem við búum við í hinum hefðbundnu búgreinum. En vissulega er nauðsynlegt að horfa til fleiri átta og nýta alla möguleika. Við vitum enn heldur lítið um hvernig haganlegast er að koma fyrir fiskeldi, það þarf meiri rannsóknir og tilraunir þar, en vissulega vonast menn til að unnt verði að finna þar möguleika og ýmislegt er verið að reyna. Ég vil sérstaklega benda á að nú í sumar er gerð mjög merk tilraun hjá Laxeldisstöðinni í Kollafirði þar sem hraðalin voru seiði. Nú í vor, rúmlega ársgömul, voru þau komin upp í 5–700 g þyngd og verða síðan sett í nót út í fjörðinn og reynt að ná þeim upp í sláturstærð fyrir áramót þannig að þeim stafi ekki hætta þar af vetrarkulda. Ef slíkt væri hægt að gera víða í kringum landið er það aðferð sem ekki krefst mikilla fjárfestinga, eins og menn óttast eða horfur eru á að verði við sumar aðrar leiðir sem menn telja vænlegar í fiskeldi.

Í Nd. var gerð breyting á 36. gr. þar sem kveðið var á um að ef ekki takast samningar um endurskoðun ákvæða um aðlögun búvöruframleiðslunnar að fjórum árum liðnum, eins og gert er ráð fyrir í 38. gr., skulu þau 4% sem gert er ráð fyrir árið 1990 haldast þangað til slík endurskoðun hefur tekið gildi.

Í IX. kafla frv. er fjallað um vinnslu og sölu búvara og þar eru nokkrar breytingar frá núgildandi lögum um Framleiðsluráð þó að sömu stefnunni sé haldið. Þar er lögð áhersla á að hafa sem hagkvæmast skipulag til þess að tilkostnaði verði haldið í lágmarki. Þetta er ekki síst nauðsynlegt þegar búvöruframleiðslan dregst saman, en vissulega skapar það ýmsum vinnslustöðvum nokkurn vanda þar sem þær hafa verið miðaðar við að taka á móti meiri framleiðslu en verður. Við slíkar aðstæður er vitanlega enn þá brýnna að reyna að koma á hagkvæmari verkaskiptingu. Það er lagt meira í vald samtaka vinnslustöðvanna sjálfra í þessum kafla en í núgildandi lögum þar sem Framleiðsluráð sá að mestu eða öllu leyti um þá hlið. Vissulega virðist eðlilegt að vinnslustöðvarnar komi þar inn í þar sem þær hljóta að vera þar öllum hnútum best kunnugar.

Í 1. mgr. 40. gr. er mörkuð sú stefna að byggingu og staðsetningu afurðastöðva skuli haga á þann hátt sem hagkvæmastur er fyrir heildarskipulag viðkomandi búgreinar. Þetta er sú stefnumörkun sem allir verða að hlíta og til þess að leggja meiri áherslu á þetta var í Nd. bætt aftan við þessa málsgr. að til þessarar stefnumörkunar skyldi tekið tillit við veitingu leyfa samkv. lögum um slátrun og mat sláturafurða nr. 30/1966.

Í 52. gr. er gert ráð fyrir að Framleiðsluráð landbúnaðarins hætti rekstri Grænmetisverslunar landbúnaðarins frá og með 1. júní 1986, en hins vegar gert ráð fyrir að Samtökum kartöflu- og grænmetisframleiðenda verði gefinn kostur á að yfirtaka rekstur þess fyrirtækis og hafa þeir sýnt áhuga á því. Það hefur gefist vel í öðrum búgreinum að það séu framleiðendur sjálfir sem standa að rekstri vinnslustöðvanna og þess vegna virðist eðlilegt að þessi háttur verði á hafður, enda er það mjög undir samtökum bændanna sjálfra komi<) hvernig til tekst með verslun og dreifingu á þessum afurðum.

Í X. kafla eru ýmis ákvæði þar sem kveðið er m. a. á um að settar skuli reglugerðir til að segja nánar til um framkvæmd á einstökum þáttum þessara laga. Í Nd. var gildistökuákvæði frv. frestað til 1. júlí þar sem nú er komið fram yfir 1. júní. Enn fremur var bætt þar inn bráðabirgðaákvæðum um breytingar á öðrum dagsetningum af sömu ástæðum og jafnframt að það Framleiðsluráð sem nú situr skuli halda stöðu sinni þangað til nýtt verður kosið á næsta aðalfundi Stéttarsambands bænda.

Ég hef gert grein fyrir nokkrum aðalatriðum þessa frv. Komið hefur fram að það séu nokkuð skiptar skoðanir um frv. og þarf engan að undra það þar sem hér er um að ræða málaflokk sem kannske eru ólíkastar skoðanir um af öllum hér a. m. k. ef taka á mið af þeim umræðum sem farið hafa fram í þjóðfélaginu á undanförnum árum. En hér hefur verið reynt að fara þá leið sem væri hagkvæmust fyrir framleiðendur, neytendur og þjóðarbúið í heild.

Eins og ég sagði áðan hefur Stéttarsamband bænda gert margvíslegar samþykktir um breytingar á lögum um Framleiðsluráð landbúnaðarins og á síðasta ári skipaði ég nefnd til að marka stefnu í framleiðslumálum landbúnaðarins. Þessi nefnd var skipuð þremur fulltrúum Stéttarsambandsins og þremur frá Búnaðarfélagi Íslands og ráðuneytisstjórinn í landbrn. var formaður nefndarinnar. Þessi nefnd skilaði tillögum sem fjallað var um á síðasta aðalfundi Stéttarsambands bænda og hann gerði ályktun sem að mestu leyti var byggð á þeirri stefnumörkun sem í þeim kom fram.

Þessi stefnumörkun og ýmsar aðrar samþykktir hafa fyrst og fremst verið lagðar til grundvallar við þá endurskoðun á lögum um Framleiðsluráð sem fram kemur í þessu frv., en vissulega eru svo skiptar skoðanir um einstök önnur atriði þó menn séu sammála um meginstefnuna.

Þegar drög höfðu verið samin að þessu frv. voru þau þegar lögð fyrir aukafund Stéttarsambands bænda sem fjallaði nokkuð um þau og kaus síðan nefnd til að halda áfram frekari athugun. Hún átti viðræður við þá sem höfðu unnið að samningu frv. áður en það var fært í endanlegan búning og margvíslegar ábendingar sem komu frá nefndinni voru teknar inn í frv. áður en það var lagt fram.

Eftir að það kom til hv. landbn. Nd. hefur sú nefnd unnið mjög mikið að athugun frv. og fengið til viðræðu þá aðila sem óskað var eftir og óskuðu eftir viðræðum, og m. a. nefndina frá Stéttarsambandi bænda. Í Nd. lagði meiri hl. landbn. fram 15 eða 16 brtt. sem fyrst og fremst miðuðu að því að ganga til móts við þær tillögur sem komu frá Stéttarsambandinu. Ég tel því óhætt að fullyrða að í veigamestu atriðunum hafi verið komið þar til móts við það sem Stéttarsambandið setti fram.

Ég vil að lokum láta í ljós þá ósk og vissu að þetta frv. megi verða til að hjálpa okkur að komast fram úr þeim erfiðleikum sem íslenskur landbúnaður tvímælalaust er nú í vegna þeirra aðstæðna sem hér hafa skapast. Ég tel að mjög mikilvægt sé að ekki dragist lengur að reyna að bregðast við þeim á besta hátt sem við getum. Það hefur sigið á ógæfuhliðina hvað varðar markaðsaðstæður á síðustu árum og verður ekki lengur dregið að gera þar öflugt átak og gera sér fyllilega grein fyrir þeim staðreyndum sem við blasa.

Ég vænti þess að ég hafi drepið hér á helstu atriðin sem þetta frv. fjallar um þó vissulega væri hægt að halda lengi áfram ef allt ætti að tíunda. En ég legg til að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. landbn. og 2. umr. og vænti þess að landbn. Ed. komist að þeirri niðurstöðu að hér sé um tvímælalausan ávinning fyrir íslenskan landbúnað að ræða.