18.06.1985
Sameinað þing: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6693 í B-deild Alþingistíðinda. (6000)

508. mál, Íslandssiglingar Rainbow Navigation

Fyrirspyrjandi (Eiður Guðnason):

Herra forseti. Ég hef á þskj. 951 leyft mér að bera fram svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. utanrrh.:

„1. Hvernig standa viðræður íslenskra og bandarískra stjórnvalda um siglingar bandaríska skipafélagsins Rainbow Navigation til Íslands?

2. Er lausn deilunnar í sjónmáli þannig að eðlilegir og réttmætir hagsmunir íslensku skipafélaganna séu tryggðir?

3. Hvaða ráðstöfunum hyggst utanrrh. beita sér fyrir til að tryggja réttmæta hagsmuni og siglingaöryggi íslensku þjóðarinnar í þessu máli?“

Svo sem alkunna er eru í gildi í Bandaríkjunum einokunarlög sem tryggja bandarískum skipafélögum forgangsrétt. Þetta eru lög frá árinu 1904 ef ég man rétt sem tryggja bandarískum skipafélögum einkarétt á að sigla með varning sem varðar Bandaríkjaher til annarra landa. Bandarískir kaupsýslumenn hafa stofnað útgerðarfyrirtæki til að ná þessum flutningum undir sig og þetta fyrirtæki situr nú að öllum flutningum varnarliðsins til og frá Íslandi.

Lengst af tók þetta skipafélag aðeins varning í einni höfn og lét íslenskum eftir aðra flutninga á vegum varnarliðsins. Það tók varning í Norfolk, en lét íslenskum skipafélögum eftir að flytja vörur frá New York og New Jersey, en nú er það svo að þetta fyrirtæki, Rainbow Navigation, flytur nánast allar vörur sem fara til varnarliðsins og hefur þar að auki verið að seilast í aðrar vörur og mun t. d. hafa undirboðið flutninga á tóbaki frá Bandaríkjunum til Íslands og sjálfsagt notað til þess hagnað af öðrum flutningum.

Hér er um býsna alvarlegt mál að ræða, eins og komið hefur fram í fjölmiðlum að undanförnu. Það er rúmt ár, 13 mánuðir, síðan þessir flutningar hófust og hefur verið mikið um það fjallað og íslensku skipafélögin, sem hafa verulega byggt á þessum flutningum, hafa orðið fyrir umtalsverðum skakkaföllum í rekstri sem hefur náttúrlega áhrif á siglingaöryggi okkar og tíðni ferða með íslenskum skipum til Bandaríkjanna. Þessi fsp. er lögð fram og henni beint til utanrrh. til að fá nánari upplýsingar um stöðu þessa máls.