18.06.1985
Sameinað þing: 97. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6694 í B-deild Alþingistíðinda. (6002)

508. mál, Íslandssiglingar Rainbow Navigation

Ellert B. Schram:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. 5. landsk. þm. fyrir að bera fram þessa fsp. Hér er mikið hagsmunamál í húfi og eins og hann segir býsna alvarlegt mál á ferðinni.

Undanfarna mánuði og misseri hefur sú staða komið upp að bandarískt skipafélag situr nánast eitt að flutningum milli Íslands og Bandaríkjanna, ekki aðeins flutningum fyrir varnarliðið heldur líka almennum vöruflutningum. Þessir flutningar fara fram í skjóli einokunarlaga sem sett eru í Bandaríkjunum. Það er auðvitað allsendis óviðunandi fyrir okkur Íslendinga að þurfa að sætta okkur við að erlendar þjóðir skuli geta sett okkur slíka afarkosti, ákveðið og leitt í lög slíka einokun, sem við verðum að hlíta, á almennum skipaferðum til og frá Íslandi.

Ég vek athygli á að á þessu þingi hef ég leyft mér að flytja frv. til laga sem fjallar um þetta mál, en þar er gert ráð fyrir að farmflutningar til og frá Íslandi séu frjálsir og ef skipafélög sigli í skjóli einokunar verði slíkar skipaferðir stöðvaðar. Ég efa ekki að hæstv. utanrrh. hefur beitt ýtrustu ráðum til að leysa þetta viðkvæma og alvarlega mál eftir diplómatískum leiðum, en ég held að það sé sjálfsagt mál fyrir okkur Íslendinga að halda vel á okkar hagsmunum og okkar rétti og það sé ekki úr vegi að Alþingi noti þá daga sem eftir eru þings á þessu vori til að samþykkja áður nefnt frv. Ég lít svo á að það geti orðið til styrktar og stuðnings fyrir utanrrh. um leið og það sýnir náttúrlega Bandaríkjamönnum svart á hvítu að Íslendingar ætla að standa fast á sínum rétti og þeir geta sett lög alveg eins og Bandaríkjamenn vestra.