19.06.1985
Efri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6799 í B-deild Alþingistíðinda. (6093)

423. mál, viðskiptabankar

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Virðulegi forseti. Hér er nú til 1. umr. frv. til l. um viðskiptabanka. Þegar þetta frv. var til umræðu í hv. Nd. gerði ég ítarlega grein fyrir frv., aðdraganda þess og þeirri vinnu sem lögð hefur verið í það á undanförnum árum varðandi endurskoðun á bankakerfinu. Það er nokkuð langt síðan gerð var skýrsla nefndar sem þáv. viðskrh. Lúðvík Jósepsson skipaði í sambandi við bankamálin. Hins vegar er hér um að ræða fyrst og fremst afrakstur af vinnu nefndar sem hæstv. viðskrh. Tómas Árnason skipaði og var endurskipulögð á árinu 1983.

Í greinargerð með frv. er vikið að þeim höfuðatriðum sem um er að ræða varðandi breytingar á málefnum viðskiptabankanna og má þar benda á að horfið er frá þeirri skipan með þessu frv. að binda starfsemi hvers viðskiptabanka að verulegu leyti við tiltekna atvinnugrein, atvinnurekstur eða hagsmunasamtök eins og nú er gert í lögum allra viðskiptabankanna nema Landsbankans.

Þá gerir þetta frv. ráð fyrir að bankar verði aðeins reknir sem ríkisviðskiptabankar eða sem hlutafélög. Þá er í frv. gert ráð fyrir breytingum í sambandi við útibú og með hvaða hætti bankar geti stofnað til útibúa, en eins og kunnugt er er það skv. lögum nr. 10/1964 háð leyfi viðskrh. eftir umsögn Seðlabankans. Það er ljóst mál að það fyrirkomulag sem gilt hefur hefur runnið sitt skeið og í frv. er gerð tillaga um að viðskiptabankar sem nota meira undir sína starfsemi en sem svarar 65% af eigin fé geti ekki aukið á starfsemi sína með nýju útibúi. Það er sem sagt efnahagsleg staða bankans sem segir til um það og þá liggur það í hlutarins eðli að nýta það svigrúm með e. t. v. fleiri en minni útibúum til þess að lenda ekki yfir það mark sem sett er.

Þá er það ákvæði að bankastjórar viðskiptabankanna geti ekki setið í stjórnum annarra stofnana eða atvinnufyrirtækja. Það er hert.

Þá er í þessu frv. gert ráð fyrir að viðskiptabankar ákveði sjálfir sína inn- og útlánsvexti og önnur þjónustugjöld.

Þá er í frv. gert ráð fyrir að allir viðskiptabankar hafi rétt til að versla með erlendan gjaldeyri án sérstaks leyfis.

Þá er gert ráð fyrir í frv. að viðskiptabönkum sé heimilt að kaupa hlut í almenningshlutafélögum eins og þau eru skilgreind í lögum nr. 32/1978, um hlutafélög. Hér er um nýja heimild að ræða fyrir viðskiptabanka.

Þá er gert ráð fyrir að allir viðskiptabankar megi taka við geymslufé.

Þá er gerð krafa til þess í frv. að eigið fé viðskiptabanka nemi ekki minna en 5% af niðurstöðutölu efnahagsreiknings og veittum ábyrgðum. Hér er um að ræða breytingu sem Nd. gerði á frv.

Þá er gert ráð fyrir því, til þess að styrkja allt eftirlit, að auk þingkjörinna endurskoðenda skipi viðskrh. löggiltan endurskoðanda fyrir hvern banka.

Síðan er í frv. gert ráð fyrir hvaða reglur skuli gilda um meðferð við slit og við samruna viðskiptabanka. Ég hef hér vikið að helstu atriðum sem eru í því frv. sem hér er til umræðu.

Enn fremur er hér á dagskrá í dag frv. til l. um sparisjóði og eru þar gerðar fjölmargar breytingar, kannske töluvert miklu meiri breytingar, en allar til samræmis við að þessar stofnanir geti starfað hlið við hlið með svipuðum starfsskilyrðum.

Í hv. Nd. voru gerðar á þessu frv. um viðskiptabankana nokkrar breytingar sem meiri hl. n. flutti og eru á sérstöku þskj. Þær tillögur voru allar samþykktar auk viðbótartill. sem ég flutti á þskj. 1320. Frv. er því hér til meðferðar eins og það lítur út á þskj. 1337.

Eins og ég sagði áðan gerði ég ítarlega grein fyrir þessu máli við 1. umr. í Nd. og ég leyfi mér að vísa til þeirrar ræðu svo og grg. sem með frv. fylgir, auk þess sem ég hef vakið athygli á helstu breytingum á þessum málum, þ. e. málefnum viðskiptabanka, frá því sem er í dag og til þess sem ætlað er, verði þetta frv: að lögum, sem ég vænti, og leyfi ég mér að vonast til þess að hv. fjh.- og viðskn., sem fær þetta mál til meðferðar, sjái sér fært að afgreiða það þannig að það geti orðið að lögum fyrir þinglok.

Ég mun að sjálfsögðu sjá um að þeir aðilar sem unnið hafa mest við frumvarpsgerðina mæti á fundi nefndarinnar eftir því sem óskað verður til þess að gera þar nánari grein fyrir atriðum sem nm. kynnu að óska eftir að fá upplýst.

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meir um frv. Ég leyfi mér með skírskotun til greinargerðarinnar og, eins og ég vék að hér áðan. þeirrar ræðu sem ég flutti við 1. umr. frv. í Nd. og þess sem ég hér hef sagt að leggja til að frv. verið vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.