19.06.1985
Neðri deild: 103. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6817 í B-deild Alþingistíðinda. (6120)

Um þingsköp

Forseti (Ingvar Gíslason):

Út af þessum athugasemdum vil ég taka það alveg skýrt fram að málið er í fyrsta lagi á dagskrá og það er farið að þrengjast mjög um fundartíma og það er þá ekki við forseta að sakast ef sífelli er verið að biðja um frestanir á málum. Og ég verð að segja það hér úr forsetastóli að ég tek það fremur óstinnt upp þegar hæstv. ráðh. eru ekki við þegar hér er verið að ljúka þingstörfum. Þetta er e. t. v. næstsíðasti dagur sem deildin hefur til afgreiðslu mála og þá er það satt að segja ákaflega erfitt og kemur kannske hvað harðast niður á forseta þegar þeir hæstv. ráðh. sem vissulega eru ráðamiklir um þingstörf eru ekki viðstaddir.