19.06.1985
Efri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6859 í B-deild Alþingistíðinda. (6174)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Frsm. meiri hl. (Egill Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nál. meiri hl. landbn. Ed. um frv. til l. um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Auk mín undirrita þetta nál. Eyjólfur Konráð Jónsson, Þorv. Garðar Kristjánsson og Davíð Aðalsteinsson.

Ég átti þess ekki kost að vera við fyrri umr. málsins. Mér er hins vegar fullljóst að þá var málið skýrt hér í þessari virðulegu deild m. a. af hæstv. landbrh. og auk þess hefur farið fram um málið ítarleg umfjöllun hér í þingflokkum. Þar af leiðandi sé ég ekki ástæðu til að fara nákvæmlega niður í hin einstöku atriði frv.

Með því að þetta mál er nú komið á lokastig hér á Alþingi finnst mér ástæða til að færa þeim þakkir sem að gerð frv. hafa unnið. Í því sambandi er mér sérstaklega ljúft að minnast starfa formanns nefndarinnar sem samdi þetta frv., Bjarna Guðmundssonar aðstoðarmanns ráðherra, sem skilaði þar miklu verki vel af hendi leystu. Eins finnst mér vert að geta þess að Tryggvi Gunnarsson hæstaréttarritari aðstoðaði við uppsetningu á frv. og leiðbeindi að sjálfsögðu með margháttaða lagalega framsetningu í því.

Ég vil líka, þótt hæstv. landbrh. sé hér ekki viðstaddur þessa umr., færa honum þakkir fyrir ljúft og ánægjulegt samstarf við mótun þessa frv. Þá þykir mér ekki síður ástæða til að færa nm. í landbn. Ed. Alþingis þakkir fyrir störfin í þeirri hv. nefnd, en ég hefði að sjálfsögðu kosið að þau hefðu getað orðið fyllri og ítarlegri en tími leyfði. Enda þótt augljós pólitísk skil væru í þessu máli þá hefði eigi að síður verið mikilvægt að umræður í landbn. Ed. hefðu getað orðið fyllri og ítarlegri. En hér rekum við okkur á það eins og svo oft áður að tíminn er naumt skammtaður í þinglok og að stór mál, sem búin eru að fá umfjöllun í fyrri deild, verða að hafa hraðan gang í gegnum þá síðari. Hitt liggur fyrir, að þetta frv. hefði ekki náð fram að ganga nema með góðu samstarfi og góðum vilja til að greiða fyrir för þess hér í gegnum þessa virðulegu deild.

Eins og ég gat um hér áðan ætla ég ekki að fara ítarlega yfir frv. sem slíkt. Í því felst mikil breyting frá fyrri löggjöf um sama eða svipað efni. Ef litið er yfir löggjöf er varðar íslenskan landbúnað hygg ég að telja megi merkustu áfanga í þeim efnum jarðræktarlögin frá 1923, lögin frá 1934 um afurðasölu, framleiðsluráðslögin árið 1947 og svo þessa löggjöf sem nú er að komast á lokastig afgreiðslu hér á Alþingi. Um öll þau lög sem ég hef nú tilgreint og sköpuðu hver um sig tímamót í íslenskum landbúnaði var ágreiningur, meira að segja mjög harðvítugur ágreiningur um mörg þeirra. Sagan hefur nú fellt sinn dóm um þá löggjöf, en vissulega er hér að hefjast saga sem er bundin þessu frv. og þessari löggjöf og það er fjarri því að ég ætli að ráða í hana við þetta tækifæri.

Það sem ég tel þó langsamlega þýðingarmest í þessum efnum eru þrjú atriði. Þau koma fram í VI. kafla frv., um greiðslu afurðaverðs í 28. og 29. gr. og í VIII. kafla frv. í öllum greinum þess kafla, 36., 37. og 38. gr. frv. Ég lít svo á að í þessum greinum séu hinar stóru ákvarðanir þessa frv. teknar. Hins vegar eru að sjálfsögðu mjög margar aðrar ákvarðanir teknar í frv., sem eru bæði til hagræðis fyrir bændur og neytendur, fyrir alla Íslendinga, og hver um sig er út af fyrir sig mikilvæg.

Það hefur verið deiluefni allt frá setningu framleiðsluráðslaganna árið 1947 hvort greiða bæri bændum fullt verð eða hvort verslunin með landbúnaðarafurðirnar væri að einhverjum hluta á þeirra ábyrgð. Og sú hefur raunin verið að afurðastöðvar hafa ekki þurft að standa full skil til bænda á verði afurða sem þær hafa veitt móttöku, hvorki með tilliti til tímasetningar né heldur heildaruppgjörs. Í þessu frv. eru tekin af öll tvímæli í þessum efnum og það víðar en á einum stað. Ég vitna sérstaklega í þær tvær greinar sem ég tilgreindi áðan, 28. og 29. gr. og af því að 28. gr. er bæði skýr og stutt ætla ég, með leyfi forseta, að leyfa mér að lesa hana hér:

„Afurðastöð er skylt að haga greiðslum til framleiðenda fyrir innlagðar búvörur í samræmi við ákvæði þessara laga og þeirra samninga og ákvarðana sem teknar eru með heimild í þeim.“ Þetta er svo í næstu grein, 29. gr., tilgreint nákvæmlega. Ég vek athygli á því, herra forseti, að það eru einmitt þessar greinar sem kveða á um það sem við höfum kallað staðgreiðslu.

Þá vil ég einnig, eins og ég áðan gerði, minnast á þær ákvarðanir sem teknar eru í VIII. kafla frv., um aðlögun búvöruframleiðslunnar. Þar er lagt til, og raunar ákveðið, að á næstu árum skuti útflutningsbætur lækka stig af stigi og skuli þær árið 1990 nema 4% af heildarverðmætum búvöruframleiðslunnar. Eins og við öll vitum hafa staðið miklar þrætur í þjóðfélaginu um útflutningsbæturnar. Og það verður að viðurkennast að upp úr miðjum síðasta áratug fór mjög að fjara undan öllum rökum sem áður voru fyrir hendi um að útflutningsbætur ættu í jafnríkum mæli rétt á sér og áður hafði verið. Ástæðan fyrir þessu var sú, að allt frá því að sú skipun mála var tekin upp árið 1959 og fram yfir miðjan síðasta áratug greiddi þó erlendi markaðurinn allan kostnað við búvöruframleiðsluna annan en launakostnaðinn, og það eru viss rök fyrir því að flytja út búvörur, ef fyrir kemur full greiðsla á öllu öðru en vinnulaunum, því að þar erum við að sjálfsögðu að skipta við okkur sjálfa, og það eru viss verðmæti sem skapast með þessum útflutningi og þau skulum við ekki vanmeta. En síðan hefur þessi þróun gengið svo mjög niður að á seinni árum hefur erlendi markaðurinn ekki gefið nema sölu- og dreifingarkostnað og stundum ekki einu sinni það. Og það sér hver maður, sem vill viðurkenna það, að þá er það sannarlega orðið lítið sem kemur í hlut íslenska bóndans af því fjármagni sem fer í útflutningsbætur.

Árið 1979 var lögunum um Framleiðsluráð landbúnaðarins breytt lítillega og ég vek athygli á því að það var gott samkomulag um þá breytingu, t. d. við landbúnaðinn. Þá voru líka gerðar aðrar breytingar, líka í góðu samkomulagi, t. d. í sambandi við jarðræktarlögin. Þá var sagt og við það miðað að nú skyldi verða skipt á framleiðslu í hefðbundnum búgreinum og í hinum svokölluðu nýbúgreinum sem hægt væri að flytja afurðir frá á erlendan markað. Ekki verður hjá því komist að sýna fram á það í örfáum orðum, m. a. vegna þess hvaða ákvarðanir eru teknar í sambandi við niðurtalningu á útflutningsbótum núna, hvernig þetta dæmi hefur gengið upp. Þá legg ég til grundvallar viðmiðunarárin, kvótaárin 1976, 1977 og 1978. Ég vek athygli á því að það er önnur viðmiðun en t. d. bændasamtökin hafa, sem miða gjarnan við árið 1978 eitt, en það er mesta framleiðsluár í sögu íslensks landbúnaðar.

Miðað við þær framleiðsluforsendur sem hér eru lagðar til grundvallar hefur landbúnaðarframleiðslan dregist saman á þessum árum um 12%. Hún hefur dregist saman um 17% í sauðfjárrækt en u. þ. b. 6.8% í nautgriparækt. Er þá miðað við 104 millj. kg mjólkurframleiðslu. Þessi samdráttur nemur framleiðslu 440 verðlagsgrundvallarbúa og samsvarar því að 725 ársverk hafi horfið úr atvinnulífi í sveitum landsins á þessum árum. Á ég þá við hefðbundnar búgreinar. Á móti hefur hins vegar komið nokkuð aukin atvinna í loðdýrarækt sem nemur í kringum 16% af þessum samdrætti. 84% eru óbætt og eru nettósamdráttur í atvinnulífi sveitanna á þessum árum.

Fimm ár eru nú liðin, aðlögunartímabilið er liðið sem vinstri menn lögðu upp með árið 1979 með þessum árangri. Af þessari ástæðu ber nú brýna nauðsyn til að taka tillit til þessara viðhorfa þegar framleiðslumarkmið eru ákveðin að þessu sinni. Og það er með tilliti til þess sem við gerð þessa frv. er ekki gert ráð fyrir því að neinn samdráttur eigi sér stað í sauðfjárræktinni miðað við sömu útflutningsforsendur og verðlagsforsendur hér innanlands og eru nú í dag. Núna er útflutningsþörfin umfram innanlandsneysluna 2 þús. tonn og það er gert ráð fyrir því í frv. að þá framleiðslu verði hægt að flytja út á öllu þessu tímabili. Miðað við þessar forsendur er ekki gert ráð fyrir neinum samdrætti í sauðfjárframleiðslunni hér á landi.

Það er vissulega dálítið aðra sögu að segja um þróun í mjólkurframleiðslu og nautgripaafurðum, eins og ég hef reyndar áður sagt, t. d. hefur mjólkurframleiðslan verið að aukast núna á seinni árum. Hún hefur verið að aukast ár frá ári og þar af leiðandi er gert ráð fyrir því að hún færist niður í hliðstæða framleiðslu og var á árunum 1981–1982, hún verði ca. 103–104 millj. kg. Miðað við þann samdrátt er gert ráð fyrir að tvö ár, árin 1986 og 1987, skili meiri útflutningsbótum en árin á eftir til ess að þessum jöfnuði verði náð.

Ég vil vekja athygli á því, herra forseti, að að baki þeim tölum sem birtar eru í 36. gr. liggja þau markmið sem ég hef hér frá skýrt.

Þá er það að sjálfsögðu engu þýðingarminna sem fram kemur í 37. gr. frv. þar sem lagður er grundvöllur að stórfelldu átaki í atvinnuuppbyggingu í sveitum landsins. Og ég vek athygli á að hún er í raun og veru nú þegar hafin. Í lánsfjárlögum er kveðið svo á að 60 millj. eigi að renna í Framleiðnisjóð landbúnaðarins til eflingar nýrra viðfangsefna í sveitum landsins. Það er kveðið svo á að 50 millj./eigi að fara inn í Stofnlánadeild landbúnaðarins til eflingar nýrra búgreina. Við vorum að ljúka við hér á Alþingi að breyta jarðræktarlögunum þar sem enn fremur er fært fjármagn frá hefðbundnum viðfangsefnum til nýrra viðfangsefna í sveitum landsins. Auk þess er líka í 37. gr. skýrt kveðið á um það að annar hluti þessa fjármagns á að fara til endurskipulagningar í búrekstri í sveitum landsins, m. a. til að mæta þeim áföllum sem fólkið þar hefur orðið fyrir vegna þess samdráttar sem ég hef áður lýst, og enn fremur verði nú leitast við að gera skipulagt og öflugt átak til markaðsöflunar.

Þetta er hið eiginlega tímabil búháttabreytinga sem þetta frv. gerir ráð fyrir og í 38. gr. er kveðið á um að fyrir lok þessa tímabils skuli enn farið yfir þessi mál og þá skuli það vera metið með hvaða hætti hefur til tekist við þessa búháttabreytingu. Þá er að sjálfsögðu nauðsynlegt að taka nýjar ákvarðanir.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fjalla frekar um frv. sem slíkt. Þó þykir mér ástæða til að geta hér í örfáum orðum um þær breytingar sem orðið hafa á frv. í meðförum Alþingis. Það gleður mig mikið að varðandi þessi meginmarkmið, sem ég legg mest upp úr, hefur hvergi verið spillt. (Gripið fram í.) Það er skotið inn í 36. gr. einni setningu sem á engu að spilla. Og það á reyndar við um allar þær ákaflega víðfeðmu breytingar sem voru gerðar í hv. landbn. Nd. og sögulegar þrætur standa nú um í þjóðfélaginu hvort hafi verið miklar eða litlar, góðar eða vondar, að ég mundi gefa þeim mjög háa einkunn vegna þess að þær eru allar saklausar og meinlausar. Eftir því sem ég kemst næst við samanburð á frv. fyrir og eftir meðferð í Nd. Alþingis sýnist mér efnisbreytingarnar einkum vera þessar:

Verðjöfnunargjald eða heimild til verðjöfnunargjalds er færð úr 3% upp í 5.5%. Það er að sjálfsögðu hættulaust. Þó að við eigum að vera íhaldssöm á verðmiðlunargjöld, þá verður að hafa það í huga að eftir breytinguna er ekki hægt að beita verðjöfnunargjöldum nema með samþykki landbrh. og það er ekki annars að vænta en stjórnvöld sýni nokkra íhaldssemi í þeim efnum.

Í öðru lagi er breytt ákvæðum um tilfærslu á verði, og þá innan hverrar og einnar afurðastöðvar eftir árstímum, þannig að heimildin er færð úr 30% niður í 15%. Þetta eru nú þörf efnisatriði.

Síðan hef ég getið um breytingu varðandi 36. gr. þar sem kveðið er á um að ef endurskoðun hafi ekki átt sér stað eins og 38. gr. kveður á um eigi útflutningsbótarétturinn, 4%, að haldast áfram.

Síðan er breyting á 40. gr. þar sem kveðið er á um að við löggildingu sláturhúsa skuli, auk þess sem þar er að sjálfsögðu lagt til grundvallar heilbrigðisvottorð, gæta þess að einnig sé í þeim efnum tekið tillit til skipulags á afurðastöðvunum.

Það er afar þýðingarmikið að þessar breytingar hafi ekki orðið fleiri en hér hefur verið frá greint. Aðrar breytingar eru einvörðungu tæknilegs eðlis og m. a. bundnar við það hvenær frv. er samþykkt. Ýmsum tímasetningum hefur verið breytt og einnig er um að ræða nokkur tæknileg atriði varðandi þær breytingar sem gerðar eru á heildarskipulagningu þessara mála. Ýmsar tæknilegar ákvarðanir eru settar inn af þeirri ástæðu. Það er því sannarlega með ákaflega ljúfum og góðum vilja hægt að fallast á breytingar Nd. Alþingis.

Virðulegi forseti. Ég hef þá skýrt hér meginsjónarmið mín og meiri hl. landbn. Ed. á þessu frv. og veit reyndar að það muni fá hér greiðan framgang það sem það á ófarið af leið sinni í gegnum þessa virðulegu deild.