19.06.1985
Efri deild: 104. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 6882 í B-deild Alþingistíðinda. (6180)

491. mál, framleiðsla og sala á búvörum o.fl.

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Það má vera að ég hafi talað eitthvað óskýrt hér áðan. En mér er það vissulega ljóst að hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson er hatrammasti andstæðingur núverandi kerfis innan alls ríkisstjórnarliðsins. Það sem ég vildi sagt hafa áðan og hefur sjálfsagt misskilist er það að flokkur hans er að innsigla þetta kerfi Sambandsins að mínu mati. Mér dettur aldrei í hug að hann gerist hér talsmaður auðhringsins mikla sem á upphaf sitt að rekja til þingeyskra bænda en starfar nú undir allt öðrum formerkjum. Það dettur mér aldrei í hug og það vil ég líka að sé leiðrétt og standi ekki þannig í þingtíðindum þó svo að vera megi að ég hafi komist þannig að orði, eða orð mín hafi mátt skilja þannig, en það var alls ekki mín meining, langur vegur frá. Ég veit að hv. þm. á í harðri baráttu við framsóknarmenn, ekki bara í Framsfl. í þessu stjórnarsamstarfi heldur í Sjálfstfl. ekki síður. Þetta hefur verið mætavel ljóst hér lengi og ætti enginn að þurfa að velkjast í vafa þar um. En ég er hins vegar ekki jafnbjartsýnn á það og hann að þeir búvöruframleiðendur sem nú eru utan kerfisins muni hafa þar veruleg áhrif. Ég held því miður að þeir muni verða reyrðir í viðjar þessa kerfis og fái þar ekki rönd við reist. Þó skulum við sjá til. Það getur vel verið að eitthvað gerist og það er líka rétt. sem hann sagði, að það eru farin að sjást þreytumerki á kerfinu. Kartöflubardaginn í fyrra hafði sín áhrif þó að kerfið hryndi ekki. Það breyttist ýmislegt.

En ég skal ekki lengja þessar umr. frekar. Ég veit að við hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson erum í stórum dráttum sammála um þessa hluti og hann hefur allra manna lengst, allra manna harðast og allra manna ötullegast unnið að því að brjóta þetta kerfi niður og fyrir það á hann bæði hrós og heiður skilið. En ég vildi aðeins koma þessum orðum á framfæri. Ef orð mín hafa skilist á þann veg sem hann skildi þau, þá var það hreint ekki ætlunin.