13.11.1984
Sameinað þing: 19. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

91. mál, launakjör kvenna og karla

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. þm. og fyrirspyrjanda urðu hér umr. um þetta mál á Alþingi á s.l. vetri eða vori og ég játaði því þá að slík athugun yrði gerð. Ég fól síðan aðstoðarmanni mínum að undirbúa þá athugun og munu hv. fyrirspyrjandi og Helga Jónsdóttir, aðstoðarmaður minn, hafa rætt þessi mál.

Bréf kom frá hv. fyrirspyrjanda, Jóhönnu sigurðardóttur, fyrir hönd framkvæmdanefndar um launamál kvenna, dagsett 7. maí. Var því síðan komið á framfæri við Þjóðhagsstofnun sem hefur unnið að þessu máli. Þjóðhagsstofnun upplýsir að málið sé mjög viðamikið og skal ég aðeins nefna atriði því máli til stuðnings.

Í bréfi hv. fyrirspyrjanda, sem var skrifað fyrir hönd framkvæmdanefndar, er óskað eftir því að leitað verði eftir upplýsingum um aldur einstaklinga, hjúskaparstöðu, sambúðarstöðu, börn á framfæri innan 16 ára, skólagöngu, lögheimili eða búsetu, fullt starf eða hlutastarf, stéttarfélag, atvinnugrein, heildarlaun, samsetningu launa, þar með talið fyrir dagvinnu, fyrir yfirvinnu, fyrir vaktavinnu, fyrir bónus, premíu eða aðra kaupauka, fyrir bílastyrk og önnur hlunnindi, fyrir álag umfram samningsbundinn taxta. Einnig eru nefnd nokkur fleiri atriði, sem fróðlegt væri, eins og segir í bréfinu, að fá upplýsingar um. Ég er því sammála að ef þessi samanburður á að vera vel marktækur þarf að fá upplýsingar um þetta allt saman og jafnvel fleira.

Í svari Þjóðhagsstofnunar segir að Þjóðhagsstofnun hafi haft erindi þetta til umfjöllunar. Eru athuganir hennar reistar á skattframtölum og launamiðum og felast í úrvinnslu tekna eftir starfsstéttum, kyni, hjúskaparstétt, landshlutum og atvinnuþátttöku. Þessum athugunum verður lokið á næstu vikum, en ýmis atriði um málið liggja þegar ljós fyrir.

Upplýsingar úr skattframtölum eða tiltækum tekjuskýrslum nægja ekki til samanburðarkönnunar af því tagi sem hér er stefnt að. Ástæðan er fyrst og fremst skortur á upplýsingum um vinnutíma og um að störf og starfsskilyrði séu sambærileg. Könnun af því tagi sem framkvæmdanefnd um launamál kvenna hefur gert tillögu um yrði ákaflega yfirgripsmikil og að líkindum mjög kostnaðarsöm. Að auki virðist sýnt að það yrði mjög erfitt að afla marktækra upplýsinga frá hópum kvenna og karla sem væru nákvæmlega sambærilegar hvað varðar alla þá þætti starfs, skilyrði til starfa og einkahagi sem ofangreind tillaga gerir ráð fyrir.

Að áliti Þjóðhagsstofnunar kæmi helst til greina að reisa þessa könnun á tekjudreifðri úrtaksathugun úr skattframtölum eftir starfsstéttum, sem síðan yrði fylgt eftir með viðbótarupplýsingum, sem m.a. yrði aflað beint frá launþegum. Þannig mætti fá ýmsar grunnupplýsingar með einföldum og öruggum hætti frá öllum tekjuhópum. Þjóðhagsstofnun kveðst á næstunni geta gefið ákveðnar ábendingar um hvernig að þessu megi standa og hvaða aðilum ætti að fela slíkt verk, segir í þeirri samantekt sem aðstoðarmaður minn hefur tekið saman, að höfðu samráði við Þjóðhagsstofnun og byggt á upplýsingum þaðan.

Svarið er sem sagt að þessi vinna er í gangi. Mér þykir hún hafa tekið nokkuð langan tíma og ástæða til að reka þarna á eftir. En hún er í fullum gangi og verkið er ansi viðamikið, en á næstu vikum, eins og þarna segir, eru væntanlegar upplýsingar sem vonandi verða nokkurs virði, og þá er hægt að ákveða hvernig starfinu verður haldið áfram og hvernig það verður kostað. Ég tel sjálfsagt að ljúka þessu verki og mun ganga eftir því að til þess fáist fjárveiting.