20.11.1984
Sameinað þing: 23. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1104 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti.

Mér þykir rétt að svara spurningum hv. þm. með því að fara yfir greinargerð Seðlabanka Íslands með tillögu hans um gengisbreytingu.

Í 1. kafla þeirrar grg. er greint frá því að Seðlabankinn geri tillögu um að gengi krónunnar verði fellt um 12% og það til viðbótar þeirri 4.4% lækkun sem orðin var með gengissigi á undanförnum tveimur vikum. Nemur þessi lækkun samtals 15.9%. Einnig er upplýst í 1. kafla grg. að hækkun erlendra gjaldmiðla nam 6% frá 27. maí 1983 og þar til gengið tók að síga aftur í kjölfar kjarasamninganna. Ég hygg að þetta svari þeirri fullyrðingu hv. þm. að gengið hafi breyst mjög mikið á þessu tímabili. Seðlabankinn upplýsir að frá 27. maí 1983 breyttist gengi um 6% og er það mjög í samræmi við þá stefnu sem ríkisstj. boðaði í upphafi og nefnd hefur verið stefna fasts gengis.

Þá vil ég, með leyfi hæstv. forseta, lesa úr grg. II. kafli fjallar um gengistilefni. Þar segir:

„Hinar miklu launahækkanir, sem samið hefur verið um að undanförnu, hafa gjörsamlega sprengt þann ramma sem yfirlýstri gengisstefnu var ætlað að vera um þróun framleiðslukostnaðar í landinu, er því óhjákvæmilegt að taka gengið til endurmats út frá sömu grundvallarforsendum og áður, en óháð þeim stefnuyfirlýsingum sem gefnar hafa verið. Eðlilegt er í því sambandi að byggja á þróun framleiðslukostnaðar frá árinu 1983, þegar afstaða gengisins til framleiðslukostnaðar var tekin til gagngerðs endurmats, m.a. í ljósi þeirra áfalla sem sjávarútvegurinn hafði orðið fyrir fram til þess tíma. Í formlegum útreikningum er gengistilefnið því metið nú til jafnstöðu við árið 1983 í heild, þ.e. við afstöðu gengisins til almenns framleiðslukostnaðar á því ári, að teknu tilliti til þróunar framleiðni og afurðaverðs frá þeim tíma. Álitamál er þó hvort með þessu sé nægilegt tillit tekið til rekstrarskilyrða atvinnuveganna þar sem veruleg ófullnægð gengislækkunarþörf ríkti á þennan kvarða fyrstu mánuði 1983. Miðað við 2.–4. ársfjórðung ársins má meta gengislækkunarþörfina rúmum 2% meiri en miðað við árið í heild. Styðst sú viðmiðun m.a. við það að viðskiptahallinn hefur reynst óviðunandi bæði árin 1983 og 1984 og horfur á framhaldi hans á næsta ári þrátt fyrir háa raunvexti.

Þar sem aðlögun verðlags að breytingum launa og gengis er snar þáttur gengistilefnisins og óvíst hve ör sú aðlögun verður er örðugt að tímasetja nauðsynlega gengisaðlögun nákvæmlega. Mjög miklar launahækkanir í upphafi samningstímans leiða til þess að meginhluti hækkunarinnar verði þegar kominn fram hinn 1. jan. eða 18.4% á kvarða fiskvinnslutaxta samkv. ASÍ-samningunum, en nokkru meiri samkv. samningum Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Enn fremur er nauðsynlegt að taka tillit til áforma ríkisstj. um tafarlausa upptöku fiskverðs er þá gildi út vetrarvertíðina til maíloka. Til lausnar þeim vanda sem felst í ákvörðun fiskverðs og rekstrargrundvallar sjávarútvegsins er æskilegt að ná meginhluta gengisaðlögunar fram þegar í upphafi. Á það því fremur við sem fiskvinnslulaun munu hinn 1. jan. n.k. hafa því sem næst náð meðaltali þeirra á tímabilinu 6. nóv.–31. maí.

Útreikningur gengistilefnis staðfestir þessa aðlögunarþörf í meginatriðum. Með því að setja orðið gengissig og þá 12% gengislækkun sem nú er gerð tillaga um inn í feril gengis og kostnaðartilefna þess næst að heita má jafnstaða við 1983 eða síðari þrjá fjórðungana fram eftir árinu 1985, enda gerist ekkert óvænt svo verulegu nemi frá þeim forsendum sem þar er reiknað með. Aðlögun með gengissigi á komandi ári má svo haga innan settra marka með hliðsjón af breytilegum skilyrðum og öðrum hagstjórnarþáttum sem enn eru í deiglunni.“

Þá kemur kafli sem fjallar um raungengi:

„Áhrif þessa ferils á raungengi krónunnar yrðu þau að lækka það á ný til 1983–84 stigs, nokkuð mismunandi eftir mælikvörðum þess. Miðað við 100 árið 1978, en þá varð jákvæður viðskiptajöfnuður, yrði raungengi á verðkvarða 86.3 aðeins um 1% hærri en 1983. Á launakvarða verður raungengið nokkuð lægra en meðaltalið 1983. Ættu þessar afstöður að endurreisa þá hvatningu sem þörf er á til þess að vinna rauntekjur af útflutningi upp úr stöðnun þeirra frá árinu 1978.“ Staða atvinnuveganna:

„Sem fyrr segir var raungengi breytt verulega 1983 til þess að koma til móts við grundvallarskilyrði sjávarútvegsins og framleiðsluatvinnuveganna í heild. Eigi að síður var eftir skilinn allmikill sérstakur aðlögunarvandi í sjávarútvegi sem ráða yrði bót með sérstökum aðgerðum og eigin ráðstöfun fyrirtækja og hagsmunaaðila þess atvinnuvegar. Var hér einkum um að ræða verulega umframafkastagetu og uppsafnaðar skuldir af völdum rekstrarhalla undanfarandi ára og óhagstæðrar gengisþróunar lántökugjaldmiðla. Sú gengisfelling, sem nú er ráðgerð, megnar ekki að leysa úr þessum sérstaka vanda og þyrfti að vera langtum meiri til þess að úr greiddist á skömmum tíma. samkv. lauslegum áætlunum Þjóðhagsstofnunar mun rekstur sjávarútvegsins enn verða mjög örðugur þrátt fyrir aðgerðirnar og ekki er heldur með þeim ráðið fram úr vanda sjóðakerfis sjávarútvegsins. Enda þótt ekki sé ráðið fram úr slíkum vanda með gengisfellingu er afar brýnt að hún veiti svigrúm fyrir þá rekstrarafkomu sem til lengri tíma litið gerir sjávarútveginum kleift að vinna sig fram úr vandanum með því skipulags- og hagræðingarátaki sem í mesta lagi verði af honum vænst.“

Viðskiptahallinn: „Þjóðhagsáætlun fyrir árið 1985 kemur út með viðskiptahalla sem nemi 4.4% þjóðarframleiðslu í framhaldi af 5.2% halla á þessu ári. Hækkun peningalauna, sem ekki væri vegin upp af gengis- og verðaðlögun. mundi leiða til nálægt því samsvarandi hækkunar einkaneyslu og að nokkru einnig fjárfestingar. Þar með mundi innflutningur og viðskiptahalli stóraukast svo að stefndi í greiðsluþrot þjóðarbúsins. Hið eina sem hamlað gæti slíkri þróun væri rekstrarstöðvun atvinnuveganna sem stæðu engan veginn undir slíkri tekjumyndun.

Þrátt fyrir þá gengisbreytingu, sem hér er til meðferðar ásamt meðfylgjandi aðlögun, munu venjubundnar tafir verðaðlögunar væntanlega skila launafólki nokkurra prósentustiga kjarabótum næsta misserið frá því sem orðið hefði samkv. fyrri forsendum. Þetta veikir enn viðskiptajöfnuðinn. Heildarniðurstaða ársins mun nokkuð háð því hvort sams konar framvinda mun endurtaka sig með upptöku kjarasamninga á síðasta fjórðungi næsta árs. Virðist af þessum sökum mega búast við a.m.k. 1% aukningu viðskiptahallans að tiltölu við þjóðarframleiðslu. Er það raunar meira en við verði unað og kallar á allt það aðhald í fjármálum og peningamálum sem við verði komið.“

Ríkisstj. fjallaði að sjálfsögðu ítarlega um grg. þessa og að vandlega athuguðu máli, og þá sérstaklega með tilliti til stöðu sjávarútvegsins, taldi ríkisstj. óhjákvæmilegt að fallast á tillögu Seðlabankans.

Ég vil geta þess að gengismunur verður ekki tekinn af fiskvinnslunni, enda er það rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. gat um, að viðbótarlánum, afurðalánum hefur nú verið breytt í gengistryggð lán og því að sjálfsögðu ekki svigrúm fyrir upptöku gengismunar. Þessi lán nema þó ekki nema 75% af verðmæti afurðanna og fiskvinnslan heldur því eftir gengismun sem nemur fjórðungi af verðmæti birgða.

Mér þykir einnig rétt að hér komi fram að í endurmati Þjóðhagsstofnunar á þjóðarframleiðslu, miðað við breyttar aðstæður, dregur Þjóðhagsstofnun mjög úr spá sinni um aukningu þjóðarframleiðslu á næsta ári, því miður, og telur að þjóðarframleiðsla á næsta ári verði rúml. 1/2 í stað 2% sem áður var talið. Þetta dregur að sjálfsögðu mjög úr því svigrúmi sem talið var bæði til þess að bæta stöðu atvinnuveganna og til þess að styrkja kaupmáttinn að einhverju leyti.

Hv. þm. ræddi um hliðarráðstafanir. Þær verða gerðar. Eins og kom réttilega fram í ræðu hans, að mér heyrðist, hljóta þær að tengjast afgreiðslu fjárlaga. Fjárlagadæmið er allt til meðferðar. Það hefur verið endurreiknað af fjmrh. og mönnum hans og er til meðferðar í ríkisstj., en verður kynnt í fjárlagaræðu eftir viku. Ég ætla ekki að rekja hér þær ráðstafanir sem þar eru til umræðu. Þær eru allmargar og hljóta að verða metnar með tilliti til þess hvaða áhrif þær hafa til kjarabóta og til að draga úr áhrifum verðhækkana á kjör almennings og sömuleiðis með hliðsjón af því svigrúmi sem er hjá ríkissjóði. En ég get fullvissað hv. þm. um að greiðslur úr almannatryggingum verða -ríflega hækkaðar og geri ég ráð fyrir því að tillögur þar að lútandi muni liggja fyrir frá hæstv. heilbr.- og trmrh. í lok þessarar viku.

Ekki er hægt að nota svokallaða 30%-reglu við álagningu þar sem verðlag hefur að verulegu leyti verið gefið frjálst og því ekki fyrir hendi það verðlagseftirlit sem að nokkru leyti tryggir framkvæmd slíkrar reglu. Hins vegar mun verða lögð áhersla á að heimildir til hækkana verði takmarkaðar sem frekast má vera á þeim vörum sem verðlagseftirlit er með og er í höndum Verðlagsráðs. Sýnist mér skynsamlegt að takmarka jafnframt heimildir á hækkun opinberrar þjónustu ýmiss konar við það að viðkomandi fyrirtæki þurfi ekki að taka erlend lán, eins og því miður var allt of mikið um á fyrri árum, til reksturs.

Hv. þm. spyr um kaupmátt launa. Að sjálfsögðu skerðist sá reiknaði kaupmáttarauki sem launasamningar gáfu. Hann var hins vegar aldrei raunhæfur. Kaupmáttur launa ræðst ekki eingöngu af verðlagi, heldur einnig af þeim ráðstöfunum sem ég hef nefnt og því ekki unnt að gefa hér upp kaupmátt launa fyrr en þær eru ákveðnar. En ég geri mér fastlega vonir um að það takist að standa við það markmið ríkisstj. að lífskjörin versni ekki á næsta ári.

Hv. þm. ræddi um það sem ég hef kallað skipbrot. Því verður alls ekki neitað að sú stefna ríkisstj. að verðbólga færi jafnt og þétt hjaðnandi og yrði komin niður fyrir 10% í lok næsta árs hefur beðið verulegan hnekki um sinn. Því miður hygg ég að að það verði ekki þjóðarbúi eða launþegum til góðs. Verðbólga mun taka mikið stökk upp á við. Hjá því verður alls ekki komist. Jafnvel þótt menn hefðu ákveðið að fella ekki gengið er ljóst að verðbólga hefði vaxið mikið af innlendum hækkunum, vegna áhrifa hærri launa á framleiðslukostnað innanlands, vegna áhrifa á byggingarkostnað o.s.frv. Þannig mætti lengi rekja.

Verðbólga mun að öllum líkindum á þriggja mánaða tímabili verða í kringum 30–35%, en líklega frá upphafi til loka ársins um 20–25%. Það er hins vegar gert ráð fyrir að hún fari mjög hjaðnandi aftur á næsta ári. Ríkisstj. stefnir að því með þessum og öðrum aðgerðum, sem hún mun kynna á næstunni, að rétta við þjóðarskútuna, gera við brotið þannig að við getum aftur tekið upp feril gengisfestu og hjaðnandi verðbólgu. Eitt af því allra mikilvægasta sem ríkisstjórnar og Alþingis og þjóðarinnar bíður er að koma sér saman um slíka stefnu sem geti svo orðið grundvöllur skynsamlegri kjarasamninga að ári.