15.10.1984
Neðri deild: 3. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

Umræður utan dagskrár

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Svo einkennilega vildi til að á meðan hæstv. fjmrh. hélt sína dæmalausu ræðu hér s.l. fimmtudagskvöld var verið að dreifa hér þáltill. okkar Kvennalistakvenna um endurmat á störfum kennara. Betri rök hefðum við ekki getað fengið til stuðnings þessari till. heldur en vanhugsuð orð hæstv. fjmrh., sem hann hefur nú beðist afsökunar á, þótt hann um leið reyndi að varpa af sér ábyrgð á þessum orðum með því að kenna þm. um að hafa truflað hann í ræðu sinni sem reyndar tók nú býsna langan tíma. Tilefni frammíkallanna verður þó algerlega að skrifast á reikning hæstv. ráðh. En það er rétt, sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði hér áðan, að þessi viðhorf þurftu að koma fram í dagsljósið og hafa kannske gert sitt gagn. En því skal ekki heldur gleymt að hæstv. menntmrh. hefur viðhaft allt önnur ummæli um störf kennara og kjör og sýnu skilningsríkari og fjölmargir þm. látið sömu viðhorf í ljós. Ég kvíði því ekki meðferð þingsins á þáltill. okkar um endurmat á störfum kennara, en geymi mér frekari umr. um þetta efni þangað til sú till. kemst á dagskrá.

En það er býsna alvarlegt mál hvernig hæstv. ríkisstj. heldur á málum í þeirri kjaradeilu sem nú skekur þetta litla þjóðfélag. Það er býsna alvarlegt að hér skuli reka hvert dæmið annað um það hvernig veifað er rauðri dulu framan í það fólk sem berst nú fyrir betri kjörum. Ég hlýt að lýsa fullri ábyrgð á hendur ríkisstj. vegna þess ástands sem nú ríkir og þeirrar úlfúðar sem hún hefur vakið með vanhugsuðum yfirlýsingum einstakra ráðh. og ósæmilegum bréfum sem eru til þess eins falinn að vekja reiði og stífni. Brýnna og sæmra væri að sýna stillingu og vinna af sanngirni að lausn kjaradeilunnar.