29.11.1984
Sameinað þing: 27. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 1451 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

137. mál, fjárframlög til níunda bekkjar grunnskóla

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka þessar undirtektir, sérstaklega vegna þess að þær gefa betra tilefni til að ræða það sem ég tel vera höfuðatriði þessa máls, þ.e. spurninguna um hugmyndir. Ég vil benda á til upplýsingar að við fjárlagaumr. í fyrra lögðum við fram bandorm af brtt. við fjárlagafrv. sem lutu flestar að mjög svipuðum aðgerðum og hér er verið að tala um. Við hugsuðum síðan í framhaldandi tillögugerð að nota mætti þá fjármuni, sem þar losnuðu, til að leggja grundvöll að atvinnuuppbyggingu í hinum dreifðu byggðum.

Það er kannske hart að segja það, að ég hafi ekki haft ýkjamikinn áhuga á því hverjar eignir Síldarverksmiðja ríkisins voru. Það sem liggur að baki þessari þáltill. er ekki hugmynd útsölunnar, eins og hv. 2. þm. Vesturl. spurði mig um, heldur fyrst og fremst spurningin um hvert sé verkefni ríkisins og hvert eigi að vera verkefni einstaklinga í ljósi þess hvernig hægt er að gæta ábyrgðar og sækja ábyrgð, gæta ábyrgðar með þeim hætti að menn geti kallað þá aðila til ábyrgðar sem ekki hafa nógu vel farið með opinbera fjármuni og þá hugsanlega kallað þá líka til ábyrgðar þegar vel gengur. Hins vegar þegar um einkaaðila er að ræða skýrast þó línur ábyrgðarinnar með þeim hætti að ekki er nokkur vafi á því hver ber ábyrgð á hverju. Ég nefni það dæmi sem hv. 2. þm. Austurl. nefndi um einkaaðila á Austurl. sem nú rekur svipaðan rekstur sem þungan bagga. Á meðan þessi þungi baggi hvílir á honum getum við þó verið viss um, að hann lendir ekki á alþjóð allri. Það getur allavega ekki gerst nema fyrir fyrirgreiðslu stjórnmálamanna.

Það kom í ljós í máli hv. 5. þm. Norðurl. e. að náverandi verðlagsákvörðun á loðnu nánast útilokar rekstur einstaklinga á þeim verksmiðjum sem nú eru fyrir hendi. Þetta þýðir m.ö.o. að sjómenn eru að niðurgreiða loðnuna. Þetta þýðir þá líka að samkeppnisaðstaða okkar á mörkuðum væri nánast töpuð ef þetta væri ekki gert með þessum hætti.

Þetta segir okkur, án þess að við þurfum að rekja það, afskaplega mikilvæga sögu. Þetta segir okkur að í síharðnandi samkeppnisaðstöðu hefur ríkið í raun o veru tekið að sér að bjarga því sem bjargað varð. Í eðlilegri samkeppni hefði þurft að endurnýja þessar verksmiðjur með sama hraði og endurnýjun verksmiðja nágranna okkar fór fram til þess að þær framleiddu af sömu gæðum og með sama tilkostnaði eða lægri en keppinautar okkar. (Gripið fram í.) Ég er ekki að segja að einkaaðilar hefðu frekar gert það, þeir hefðu kannske alls ekki gert það, en þá værum við bara að gera eitthvað allt annað.

Málið er það að við höfum viðhaldið þessari atvinnustarfsemi með því að greiða hana niður. Og hver er árangurinn? Árangurinn er m.a. sá að við höfum frá Skagaströnd til Reyðarfjarðar mjög einhæft atvinnulíf á fjölmörgum plássum. Þar hefur einfaldlega verið haldið úti atvinnu með því að halda úti rekstri m.a. þessara verksmiðja. Það hefur verið notað sem afsökun fyrir því að gera í raun og veru ekki neitt annað til bóta í atvinnulífinu. Á meðan hægt er að halda tiltölulega stórum fjölda íbúa viðkomandi byggðarlags í vinnu hjá fyrirtæki sem þessu skapast engin pólitísk nauðsyn fyrir því að gera eitthvað annað fyrir atvinnulíf staðarins. Á meðan menn eru alltaf að tala um að renna nýjum stoðum undir atvinnulífið meina þeir allavega ekki neitt með því á þeim stöðum þar sem þeir halda úti niðurgreiddum rekstri verksmiðja sem þessara.