16.10.1984
Sameinað þing: 5. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

44. mál, Ljósmæðraskóli Íslands

Fyrirspyrjandi (Guðrún Agnarsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbr.- og trmrh. fyrir svör hans og það var fjarri lagi að ég ætlaði að skattyrðast nokkuð við hæstv. ráðh. Öllu heldur þakka ég honum velvilja hans til málsins. Það er ekki hans sök að málið er ágreiningsmál. En ég vil samt undirstrika að þetta var samdóma álit allrar nefndarinnar. Það voru ekki bara þeir tveir þm. sem hér hafa tekið til máls heldur var það samdóma álit. Það komu líka skýrt fram í máli þeirra þm. sem ræddu frv. áhyggjur yfir því að lengja námið svo.

Ég tel nauðsynlegt að málið verði ekki tafið og það var aldrei ætlunin að svæfa það heldur að betrumbæta það þannig að allir aðilar mættu una vel við sitt. Og því skora ég á hæstv. heilbrmrh. að beita sér fyrir því að hinir ýmsu málsaðilar komi saman og ræði um mögulegar betrumbætur á þessu máli.