12.12.1985
Neðri deild: 27. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1485 í B-deild Alþingistíðinda. (1166)

182. mál, málefni aldraðra

Heilbr.- og trmrh. (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Frá því er Framkvæmdasjóður aldraðra var stofnaður hafa umsóknir um styrki úr sjóðnum numið upphæðum sem eru mun hærri en það fé sem sjóðurinn hefur haft til ráðstöfunar. Það þarf ekki að tíunda fyrir hv. þm. hve öldruðu fólki, sem þarf á þjónustu að halda vegna elli sinnar, hefur fjölgað. Þetta er samtímis því að hér er um gleðilegan árangur heilbrigðiskerfisins að ræða. Með hærri aldri manna fellir það auðvitað þá skyldu á okkur hin líka að sjá til þess að bæta nokkuð þjónustu við þennan aldursflokk. Því fer svo fjarri að þar sé gert allt sem þarf og vissulega erum við að fjalla um stærsta vandann í heilbrigðiskerfinu, sem er þjónusta við hina öldruðu.

Sú hugmynd kom fram í nefnd þeirri sem hefur stjórn Framkvæmdasjóðs aldraðra með höndum að lagt yrði til að gjaldið, sem lagt er á menn til að efla þennan sjóð, verði hækkað úr 580 kr., eins og það er á yfirstandandi ári, í 1000 kr. Það var raunar gert ráð fyrir því að á fjárlagaárinu næsta yrði þessi fjárhæð á milli 650 og 700 kr. En ég hygg að um þetta gjald megi það segja að það sé eini skatturinn í þjóðfélaginu sem fólk greiði með glöðu geði.

Ég hef leitað samstöðu með þm. ýmissa flokka um þetta mál og hef orðið þess vör að þetta mál mætir skilningi. Þess vegna er það að ég leyfi mér að fara fram á að hv. heilbr.- og trn. afgreiði þetta mál þannig að það komist í gegnum báðar deildir fyrir þinghlé. Með þessu móti yrðu tekjur sjóðsins um 100 millj. kr. og víst er um það að ekki veitir þeim sjóði af til að bæta þjónustu við aldraða víðs vegar um landið.

Ég leyfi mér að leggja til, hæstv. forseti, að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.