23.10.1985
Neðri deild: 7. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (117)

70. mál, kjaradómur í deilu Flugfreyjufélags Íslands og Flugleiða hf.

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Nú er undarlega komið fyrir launasamningamálum þessarar þjóðar. Kannske má segja að samningar við opinbera starfsmenn komi alþm. eitthvað við. Það er skylda alþm. að sjá svo um að sú starfsemi, sem fer fram af hálfu hins opinbera, eins og á spítölum og í skólum og víðar, sé vel af hendi leyst og að sú þjónusta sé þar veitt sem á að veita. Hluti af því er að fólkið búi við þau kjör að það tolli í vinnunni. En samningar við slíka opinbera starfsmenn tóku tvær klukkustundir um daginn af því að hæstv. þáv. fjmrh. var í vondu skapi og móðgaður. Það kom aldrei til umræðu á Alþingi og hefur ekkert verið rætt á Alþingi.

Nú er hins vegar um það að ræða að verið er að semja um laun hjá einhverju fyrirtæki úti í bæ og þá allt í einu er löggjafarsamkunda þjóðarinnar orðin eins og samningafundur í Flugfreyjufélaginu. Alþingi stendur á öndinni og hérna tala menn um vaktaálög og prósentur. Það er alls ekki okkar hlutverk. Þetta ætti mönnum að vera umhugsunarefni, hvaða ábyrgð löggjafinn ber í þessum málum. Ég held að menn verði að hugsa sig ofurlítið aftur á bak og reyna að finna hvar þeim brást bogalistin.

Ég vil í fyrsta lagi segja um þetta mál að það er rangt að mínu mati að veita afbrigði. Alþingi er ekki stimpilstofnun eða afgreiðslustofnun fyrir fólk úti í bæ sem getur ekki komið sér saman í frjálsum samningum. Ef Alþingi tekur málið upp á það að láta það ganga eðlilega leið. Það á að fá þinglega meðferð án afbrigða. Það er Alþingi ekki til sóma að láta rúlla yfir sig eina ferðina enn í byrjun þings. Þess vegna er ég algerlega á móti því að veitt séu afbrigði til að meðhöndla þetta mál.

Síðan vildi ég segja það um málið sjálft að afskipti ríkisstjórnar af kjaradeilum, eins og verið hafa hér á undanförnum árum, er marklaus. Menn eru algerlega sviptir ábyrgð. Málsaðilar geta haldið fram óbilgjörnum kröfum og geta haldið fram óbilgjarnri stöðu, hvergi slakað til vegna þess að þeir vita að þegar í harðbakkann slær kemur ríkisstjórnin til bjargar og setur lög. Menn bera enga ábyrgð. Menn geta haldið fram hvaða fjandans vitleysu sem þeir vilja og þeir vita að ríkisstjórnin bjargar þeim út úr þessu. Það verða sett lög og málið fer fyrir gerðardóm. Þeir geta síðan, hvort sem þeir eru stjórnarmenn í Flugleiðum eða samningamenn fyrir flugfreyjur eða flugmenn, farið hreyknir inn á sína stjórnarfundi og sagt: Við vorum harðir, við gáfum ekkert eftir. Svo kom stjórnin og eyðilagði þetta fyrir okkur. Þarna er algerlega rangt að farið. Ef menn setja fram þær kröfur í kjarasamningum að illa stendur verða þeir að standa við þær, enda er niðurstaðan af þessu skv. fregnum sem hafa borist að s.l. nótt var fundur hjá ríkissáttasemjara og svo langt á milli deiluaðila nóttina fyrir verkfall að ríkissáttasemjari gat ekki einu sinni lagt fram sáttatillögu. Hvers vegna? Vegna þess að menn vita að það verða sett um þetta lög og þeir eru bara í leik, algerlega marklausum leik, og það er verið að gera grín að því sem heitir samningar og það er verið að gera grín að því sem heitir verkfallsréttur og það er verið að gera grín að áratuga baráttu fólks í þessum efnum. Menn setja mál sín þannig fram að það er tekin af þeim ábyrgðin, það er tekin ábyrgðin af kröfugerð og það er tekin ábyrgðin af tilboðum, og þetta gildir um menn hvoru megin borðsins sem þeir sitja. Þess vegna lýsi ég algerri vanþóknun minni og að ég er algerlega ósammála því að fara inn í þessi mál á þennan hátt. Ef ríkisstj. vildi eitthvað skipta sér af þessum málum átti hún að lýsa því yfir fyrir mánuði að það yrðu ekki sett lög þannig að bæði Flugleiðir, flugfreyjur og flugþjónar sætu með sín mál og vissu að þeim bæri sú ábyrgð að semja.

Því næst vildi ég gera að umræðuefni annað, sem kemur inn í þessi mál, en það er það sem ég vil kalla hentistefna um rök sem menn leggja fram. Menn tala um þjóðhagslegt mikilvægi. Nú er á ferðinni kjaradeila sem er sérstaklega þjóðhagslega mikilvæg og þess vegna áskilur ríkisstj. sér rétt til að setja um það lög. Hvenær eru háðar kjaradeilur sem eru þjóðhagslega ómikilvægar? Allar kjaradeilur eru þjóðhagslega mikilvægar. Og síðan ríkir um það hentistefna og ríkisstj. hefur í hendi sér að ákveða hvenær hún vill grípa inn í með lögum og hvenær ekki og getur þá dregið alls konar rök upp úr pússi sínu. Auðvitað er þetta rugl.

En annað er enn þá vinsælla. Það er kallað öryggissjónarmið. Það er dregið upp í hvert sinn sem verkföll verða í flugbransanum. Þá er talað um að samgöngur og flug séu svo mikilvæg fyrir öryggi þjóðarinnar að auðvitað verði að setja lög sem banni verkfall. Ég held að það sé kominn tími til þess að Alþingi fjalli um hvort flugfólk yfirleitt, hvort sem það eru flugmenn, flugfreyjur, flugþjónar, flugvirkjar eða flug-eitthvað, ætti ekki yfirleitt að hafa skertan verkfallsrétt svo að menn séu lausir við svona bull í hvert skipti sem verða deilur um kjör.

Þetta er annars það sem ég kalla hentistefnu um rök. Er ekki þjóðhagslega mikilvægt ef fiskvinnslufólk fer í verkfall? Og hvað með öryggissjónarmið? Varla getur það verið gott fyrir öryggi þjóðarinnar ef verkafólk almennt er í verkfalli. Þetta eru alls ekki rök sem skipta máli. En ég er til í að fara að taka þátt í umræðum um hvort starfsfólk við samgöngur gegni yfirleitt svo mikilvægum þáttum í þessu samfélagi að það eigi að hafa skertan verkfallsrétt eins og fólk sem vinnur á spítölum eða þess háttar. Við skulum þá bara hafa umræðuna þannig en ekki grípa þetta upp í hvert skipti sem á bjátar.

Eitt vildi ég enn gera að umræðuefni og það er þetta: Að mínu mati skiptir engu máli í þessari umræðu hvort laun flugfreyja eru lág eða há, alveg eins og það skipti ekki máli þegar kjaradeila flugmanna var til umræðu. Alþingi gerir ekki upp sinn hug í svona málum eftir því hvort launin hjá viðkomandi starfsstéttum eru há eða lág og Alþingi gerir ekki upp hug sinn í þessum efnum eftir því hvort um er að ræða kvennastarfsstétt eða karlastarfsstétt. Það hljóta að vera einhver grundvallaratriði sem menn eru að spyrja um en ekki hvort fólk hafi 30 þús. kr. á mánuði eða 60 þús. kr. á mánuði og sé með vaktaálag og dagpeninga eða ekki. Það kemur Alþingi ekkert við, alls ekki. Ég trúi því ekki að þm. muni gera upp hug sinn á þessum grundvelli í sambandi við þetta mál. Það verður fróðlegt að sjá muninn á afstöðu manna, hvernig þeir greiddu atkvæði við sömu aðstæður þegar var verkfall flugmanna og nú þegar er verkfall flugfreyja. Það verður fróðlegt að sjá hvort stjórnmálamenn, hvort þm., sem greiddu atkvæði með verkfalli flugmanna, ætla nú að greiða atkvæði gegn verkfalli flugfreyja. Ef svo er, ef það er kynið eða launin sem skipta máli eru þeir þm. á algerlega röngu róli og eru með allt önnur sjónarmið en eiga að gilda í þessum stól og þessum sölum. Þetta er ekki spurning um há eða lág laun eða kyn. Þetta er spurning um hvaða hlutverk Alþingi hefur í sambandi við launamál í landinu.

Ég vildi að síðustu minna á að nú er upp komið eitt mjög gott dæmi til stuðnings stefnumálum Bandalags jafnaðarmanna um vinnustaðasamninga. Á vinnustað eins og Flugleiðum á eitt félag að fara með samningsrétt fyrir alla starfsmenn og það á að semja fyrir alla starfsmenn í einum samningum, hvort sem það eru flugmenn, flugfreyjur, flugvirkjar, flughleðslumenn eða hvað sem er. Það á að vera starfandi félag á þessum vinnustað sem fer með fullan samningsrétt fyrir alla sem vinna hjá félaginu og semur fyrir þá alla í einu. Þetta mál er í hnotskurn rökstuðningur fyrir því að svo eigi að vera.

Ég ætla ekki að gera þessa umræðu öllu lengri. Ég lofaði forseta því að tefja menn ekki frá málsverði. En þetta er svo rangt, eins og málið kemur hér fyrir, að raunverulega ætti maður að sitja hjá og taka ekki þátt í svona skrípaleik. En ég ætla þó að taka þátt. Ég er andvígur þessu frv. af þeim meginástæðum, sem ég rakti hér að framan, að Alþingi á ekki að vera að ala upp í fólki og fyrirtækjum ábyrgðarleysi. Fólk á að taka, eins og fyrirtækin, ábyrgð á sínum kröfum og ábyrgð á sínum samningamálum. Þess vegna er ég algerlega andvígur þessu frv. Og ég er andvígur þeim vinnubrögðum að keyra málið hér í gegn með afbrigðum. Ef það er ekki líðandi að fólk sem vinnur við samgöngur geri verkfall á að taka upp umræður um skertan verkfallsrétt fólks sem vinnur við samgöngumál. Ég held að það sé kominn tími til þess.