18.12.1985
Neðri deild: 35. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 1859 í B-deild Alþingistíðinda. (1553)

182. mál, málefni aldraðra

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Hér er talað um að veita í kringum 100 millj. í Framkvæmdasjóð aldraðra á næsta ári til þeirra mikilvægu verkefna sem sjóðurinn hefur að sinna og við erum öll sammála um. Ég er alveg sammála síðustu ræðu hæstv. heilbr.- og trmrh. í þeim efnum.

Ég vil hins vegar vekja athygli á því að hv. 5. þm. Vestf. talaði áðan um ráðstöfun á einhverjum 110 millj. úti í bæ, ráðstöfun sem hvergi hefur verið ákveðin og hvergi samþykkt af fjárveitingavaldinu og engar heimildir væru fyrir í fjárlögum ársins 1985. Hann gagnrýndi þá málsmeðferð sem hér er um að ræða. Hérna mun hv. þm. eiga við hið nýja Víðishús, þ.e. Mjólkursamsöluna, sem ríkið var að kaupa af eigendum núna síðustu daga án þess að það hafi nokkurn tíma verið rætt hér á hv. Alþingi. Ég vil nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. menntmrh., ef hann er ekki víðs fjarri, ellegar hv. varaformann fjvn., sem hér stendur, hvaða ákvarðanir voru teknar í fjvn. um kaup á húsi Mjólkursamsölunnar fyrir ríkið.

Ég geri mér ljóst, herra forseti, að þetta er ekki alveg náskylt málefnum aldraðra. En ástæðan fyrir því að ég tek málið til umræðu er sú að hv. skrifari deildarinnar, einn af forustumönnum okkar hér og sá sem við eigum gjarnan að hafa að fyrirmynd, hefur nefnt málið. Ég tel því ekki óeðlilegt að við hinir minni spámenn fetum í fótspor hans og innum nánar eftir þessu.

Hér er kominn hæstv. menntmrh. og ég vil spyrja hann: Hvaða heimildir lágu fyrir af hálfu fjvn. eða annarra aðila um kaup ríkisins á húsi Mjólkursamsölunnar? Spurt er um hið nýja Víðismál núv. ríkisstj.