06.02.1986
Sameinað þing: 42. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 2393 í B-deild Alþingistíðinda. (1996)

195. mál, menningar og fræðasetur á Skriðuklaustri

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég vil bæta örfáum orðum við ræðu hv. 1. flm.till. þessari um menningar- og fræðasetur að Skriðuklaustri.

Það er í okkar huga þungamiðja tillögugerðarinnar að skapa húsi því sem Gunnar Gunnarsson skáld gaf íslenska ríkinu, húsinu á Skriðuklaustri, verðugt hlutverk. Skáldið sjálft ætlaðist til þess að þar færi fram rannsóknarstarfsemi í landbúnaði eða einhvers konar menningarstarfsemi samkvæmt gjafabréfi því sem fylgdi þessari eign á sínum tíma.

Það verður að segja eins og er að saga Skriðuklausturs síðustu áratugina hefur hreint ekki verið að öllu leyti með þeim hætti sem skáldið ætlaðist til þó að húsið hafi verið notað fyrir Rannsóknastofnun landbúnaðarins og hún hafi rekið þar myndarlega starfsemi oft á tíðum. Húsið var lengi vel notað sem geymsla fyrir muni minjasafns Austurlands, en það hafði ekkert hlutverk í þágu íslenskra bókmennta eða íslenskra fræða að öðru leyti.

Þessi mál voru, eins og hv. flm. kom inn á áðan, í hnút, en leystust að nokkru leyti árið 1979 þegar samstarf tókst með aðilum austanlands um byggingu nýs safnahúss á Egilsstöðum. Þá var gerður samningur milli menntmrn. og landbrn. um afnot, rekstur og viðhald á húsinu á Skriðuklaustri. Samningur þessi, sem dags. er 12. okt. 1979, er undirskrifaður af Ragnari Arnalds þáv. menntmrh., Steingrími Hermannssyni þáv. landbrh. og Tómasi Árnasyni þáv. fjmrh. 2. gr. hans hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Viðhaldi húss Gunnars Gunnarssonar skal hagað með tilliti til þess að það haldi sínu upprunalega horfi og ekki verði gerðar á því breytingar né byggt við það eða næst því nema til komi samþykki þjóðminjavarðar er jafnframt skal hafður með í ráðum varðandi viðhald.

3. gr. Í húsinu skal vera herbergi eða sérstök deild, er sérstaklega verði helguð minningu frú Francisku og Gunnars skálds, og skal við nánari ákvarðanir um það haft samráð við þjóðminjavörð.“

5. gr. samningsins hljóðar svo, með leyfi forseta: „Minningarherbergi eða deild, sbr. 3. tölul., svo og húsið að öðru leyti, skal vera aðgengilegt til skoðunar fyrir almenning á þeim tíma sem þjóðminjavörður, Safnastofnun Austurlands og Rannsóknastofnun landbúnaðarins koma sér saman um.“

Undanfarin ár hefur verið unnið að viðhaldi hússins á Skriðuklaustri samkvæmt ákvæðum samningsins, en starfsemi tilraunabúsins er í lágmarki nú þannig að húsið er mjög vannýtt og stendur nánast autt.

Að mínum dómi og okkar flm. beggja væri eðlilegt að skapa húsinu hlutverk við hæfi og tengja þær framkvæmdir hundrað ára minningu Gunnars Gunnarssonar. Við horfum þá einkum til þess að gera húsið að vinnustað lista- og vísindamanna. En til þess að það megi verða þarf nokkru til að kosta og skapa því líf til þess að sá vinnustaður rísi undir nafni og þar sé lifandi og frjótt umhverfi fyrir vísindamenn og listamenn að hverfa að.

Það er sjálfsagt og nauðsynlegt að hafa gott samstarf við heimaaðila, áhugamenn og félagasamtök lista- og vísindamanna um þessi efni. Þarna kemur ýmislegt til greina og áhugamenn um þessi efni hafa haft ýmsar hugmyndir uppi í því sambandi. Þær koma fram í álitsgerð sem fylgir till. Undir það getum við tekið að mörgu leyti, einkum að æskilegt væri að búa húsið bókasafni eða öðrum gögnum sem koma að gagni í því að skapa lifandi og frjótt umhverfi. Hins vegar kemur þessi álitsgerð inn á fjölda marga þætti. En þungamiðjan í tillöguflutningi okkar er að gera húsið, gjöf skáldsins, að menningar- og fræðasetri og vinnustað lista- og vísindamanna.

Herra forseti. Ég hef ekki meiru við þetta að bæta, enda hefur 1. flm. gert grein fyrir málinu í framsöguræðu. Ég vona að þetta mál fái afgreiðslu á þessu hv. Alþingi.