24.03.1986
Efri deild: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3264 í B-deild Alþingistíðinda. (2855)

339. mál, sjóðir atvinnuveganna

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég heyrði það á hæstv. forsrh. í lok máls hans að hann gerði ekki frekar ráð fyrir því að þetta frv. yrði afgreitt á þessu þingi, svona seint fram komið. Skil ég það auðvitað mætavel og þykir það ágæt tillitssemi við þingið miðað við það hvað skammur tími lifir þings eftir því sem áætlað er og er ólíkt um það nú samanborið við það þegar hæstv. ráðh. flutti framsögu fyrir þessu máli í fyrra og óskaði eftir að menn afgreiddu það þá á enn skemmri tíma. Hitt er svo annað mál að þær grunsemdir, sem hæstv. forsrh. hafði um það að mönnum þætti kannske ekki mikið nýjungakennt í þessu frv. eða mikið sem kallaði á það, eru réttar þó að hann segði svo á eftir að þegar betur væri að gáð leyndist ýmislegt í þessu, þrátt fyrir allt, að mér skildist.

En auðvitað vekur þetta ótal spurningar. Ég segi bara það eitt í sambandi við þann þátt sem hæstv. forsrh. gerði hvað mest úr, þ.e. að gera sem allra mest af nýsköpun í okkar atvinnulífi mögulega, að ég tel það mögulegt innan þess kerfis sem við höfum í dag, hjá hverjum þeirra sjóða sem í dag eru starfandi. Ef þeim eru falin þau verkefni og til þess séð að þeir hafi fjármagn til að sinna þeirri nýsköpun. Það er vitanlega augljóst að með auknu fjármagni til þessara sjóða, og kannske ákveðnum lagabreytingum einnig, er auðvitað mögulegt að sinna miklu betur nýsköpun í íslensku atvinnulífi og þarf ekki sérlög til þess út af fyrir sig. Ég hélt sannast sagna að þetta mál væri úr sögunni. Við þekkjum þetta og það hefur verið haft að nokkrum gamanmálum að forsaga þessa máls væri úr síðsumarvöku þeirra fóstbræðra eða úr fóstbræðrasögu þeirra hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. og var eitt af því sem þeir komu sér saman um hér á síðsumri 1984 að skyldi ná fram að ganga. Það er greinilegt, eins og hæstv. forsrh. kom inn á, að jafnvel í nefndinni, sem þarna fjallaði um, hefur alls ekki verið einhugur um það hvernig að skyldi staðið og menn eru enn þá að velkjast í nokkrum vafa um hvernig með skuli farið. Ég held t.d. að það sé kannske ekki hrifning hjá öllum stjórnarsinnum af þessu frv., jafnvel eins og það lítur út í breyttri mynd í dag. Mér þætti t.d. forvitnilegt, og því verður ekki svarað hér í þessari hv. deild, hver afstaða hv. 3. þm. Norðurl. e., Stefáns Valgeirssonar, til Búnaðarsjóðsins er, svo dæmi sé tekið. Ég er ekki viss um að þar sé um mikla hrifningu að ræða.

Ég sé ekki nauðsyn á þessu frv. umfram þá sérlög fyrir hvern sjóð, ef menn mundu breyta því eitthvað sérstaklega. Við sjáum það glöggt á hinum sameiginlegu ákvæðum, hvað þau eru í raun og veru veigalítil, fá og fátækleg, þó ég vanmeti ekki ákveðin nýmæli, sem hæstv. forsrh. benti sérstaklega á, í þessum sameiginlegu ákvæðum sem auðvitað gætu komið inn í og farið inn í lög um þessa stofnlánasjóði nú þegar. Öll aðalatriði varðandi hvern sjóð eru, eins og ég sagði áður og allir sjá auðvitað á frv., í sérkafla um hvern þessara þriggja sjóða. Sameiginleg ákvæði og gildistökuákvæði eru svo bara svona eins og hverjir aðrir viðaukar.

Ég hlýt að einskorða mig að nokkru leyti við landbúnaðinn í þessu efni og skal ekki hafa um það langt mál frekar en ég gerði í fyrra. Ég heyrði það á hæstv. forsrh. þegar hann var að lýsa viðhorfum í þeirri nefnd sem fjallaði um þetta mál að þar hefðu menn hreinlega ekki verið á einu máli, og það skil ég vel, um ákveðinn samruna Framleiðnisjóðs annars vegar, sem sjóðs sem beitir sér fyrir nýsköpun í íslenskum landbúnaði og ákveðnum styrkjum til nýsköpunar og breytinga í landbúnaði, og á Stofnlánadeild landbúnaðarins hins vegar og sumir nefndarmenn, eins og hæstv. forsrh. tók fram, alls ekki sammála um að svo skyldi vera. Ég sé ekki neitt hagræði að því, enda sérstaklega tekið fram af hæstv. forsrh. til þess að forðast allan misskilning, að Framleiðnisjóðurinn yrði alger sérdeild í Búnaðarsjóðnum og þá erum við ekki komnir langt frá því fyrirkomulagi sem við höfum einmitt í dag með Stofnlánadeildina annars vegar sem lánasjóð og hins vegar Framleiðnisjóð sem þann styrktaraðila í landbúnaðinum sem hann er í dag. Ég tel að þarna sé að nokkru leyti um ólík hlutverk að ræða. Það þarf að samræma þau vissulega en það er um margt gott að þau séu aðskilin og ég heyri það að sumir af þeim nefndarmönnum sem ríkisstj. hefur sett í þetta hafa verið sama sinnis. Það væri að mörgu leyti betra að hafa annars vegar hreinar lánveitingar og hins vegar beina styrki, beina aðstoð við atvinnugreinina.

Ég skal ekki út af fyrir sig fara að taka Stofnlánadeild landbúnaðarins í forsvar. Ég hef verið þar í 12 ár í stjórn og þar hefur eflaust margt umdeilanlegt verið gert. Þó bendi ég á það að ég held að gagnrýni bænda á Stofnlánadeild landbúnaðarins hafi fyrst og fremst snúið að of litlu fjármagni sem deildin hefur haft til umráða og auðvitað of dýru fjármagni nú síðari átin eins og reyndar annars staðar í þjóðfélaginu.

Það hafa verið deilur hér á Alþingi t.d. um það hvernig Stofnlánadeildin verði sínum fjármunum, m.a. varðandi uppbyggingu í hefðbundnum búgreinum annars vegar og hins vegar í nýbúgreinunum og þar hefur þótt of mikið skipulagsleysi á ferðinni. Það hefur verið talað um að of mikið og of stórt hafi verið byggt ennþá í tengslum við hinn hefðbundna búskap. Ég bendi á að á sínum tíma setti Stofnlánadeildarstjórnin ákveðin stærðarmörk til þess að hamla þar nokkuð á móti og eins og engum er betur ljóst en hæstv. forsrh., sem var landbrh. á þeim tímum sem staða deildarinnar var allra verst, vita menn að þarna voru auðvitað miklar þrengingar. En einmitt hæstv. núv. forsrh., sem þá var landbrh., hann rétti það mjög af þannig að staða deildarinnar í dag er mjög góð. Það má kannske segja að eina breytingin á tekjum deildarinnar sé sú, eins og kemur réttilega fram í athugasemdunum núna, að ríkisframlögin falli niður. En öllum hinum gjöldunum er haldið inni, þ.e. neytendagjaldinu, framleiðendagjaldinu og jöfnunargjaldinu. Öllum þeim gjöldum er haldið inni og var það þó á sínum tíma vissum skilyrðum háð að ríkisframlög yrðu einmitt nokkur á móti því að framleiðendur og neytendur tækju á sig þessi gjöld til Stofnlánadeildar.

Hæstv. ráðherra kom inn á að þarna væru verkefni ákveðin sem gerði Stofnlánadeildina nokkuð sérstæða, þ.e. varðandi Lífeyrissjóð bænda, eftirlaun til aldraðra bænda sem Stofnlánadeildin stendur undir að hluta til. En það er annað mál sem mér dettur í hug í sambandi við þetta, enn frekar, og það er sú aðgerð sem við stóðum frammi fyrir hér rétt fyrir jól við afgreiðslu fjárlaga þegar út var tekin upphæðin sem átti að fara í forfalla- og afleysingaþjónustu bænda, þennan eina félagsmálapakka virkilega sem bændur fengu á sínum tíma, og í stað þess var þessum pósti vísað alfarið á Stofnlánadeild landbúnaðarins. Þar af leiðandi hlýtur það að vera meiningin, eða ég skil það a.m.k. svo, að þá hljóti þessi búnaðarsjóður, hvenær sem hann tekur gildi, að eiga að standa undir þessum greiðslum til forfalla- og afleysingaþjónustu bænda, svo fráleitt sem það er í raun og veru að þessi félagsmálapakki bænda skuli vera borgaður af þeim sjálfum því vitanlega er þessu vísað á Stofnlánadeildina vegna þess að þar greiða bændur ákveðið framleiðendagjald inn í og eru þess vegna að borga þennan félagsmálapakka sinn sjálfir.

Ekki skal ég hafa langt mál heldur um það að nú eru tengsl rofin við þann banka sem Stofnlánadeildin hefur verið tengd býsna sterkum böndum og hafa verið dýrmæt að mínu viti. Það er auðvitað rétt, sem hæstv. ráðh. kom inn á, að vissulega er sá möguleiki fyrir hendi áfram að Búnaðarsjóður verði í nánum tengslum við Búnaðarbankann, en ég tel að þessi tengsl hafi verið nauðsynleg, fyrir það fyrsta vegna þess að þetta hafi þó tengt bankann betur við landbúnaðinn en annars hefði verið og hins vegar, þegar Stofnlánadeildin hefur verið í knappri stöðu, hefur það verið mjög dýrmætt að Búnaðarbankinn hefur hlaupið undir bagga varðandi lánveitingar og þakkar auðvitað enginn bankanum að hafa gert það en engu að síður hefur verið dýrmætt að þessi tengsl hafa verið slík að sama stjórnin hefur um vélt í hvoru tveggja tilfellinu.

Ég skal ekki heldur tala um þá stjórn sem er fyrir þessum búnaðarsjóði. Ég held því fram að stjórn Stofnlánadeildar hafi gefist býsna vel, þ.e. stjórn hennar er í raun og veru bankaráð Búnaðarbankans auk tveggja bændafulltrúa, fulltrúa frá Búnaðarfélagi Íslands og Stéttarsambandi bænda. Þannig hefur það þá verið að fulltrúar frá fjórum flokkum hafa átt sæti í stjórn Stofnlánadeildar. Ef, sem ég hygg að verði kannske ekki lengi, helmingaskiptareglan í Búnaðarfélaginu og Stéttarsambandinu heldur áfram milli Framsfl. og Sjálfstfl. verður þetta auðvitað þannig að þeir skipta þessari stjórn algjörlega á milli sín en á því getur orðið blessunarleg breyting auðvitað fyrr en síðar. Mér sýnist þessi ríkisstj. vera á góðri leið með að koma í veg fyrir að hægt verði að nota þá helmingaskiptareglu mikið lengur. Ég held að það hafi gefist býsna vel að fulltrúar fleiri aðila hafi komið að þessum lánveitingum þó umdeilanlegar hafi verið.

Ég bendi svo á í lokin, af því að mikið er talað um að hér þurfi að breyta til og m.a. þurfi að breyta áherslum í lánveitingum í landbúnaði - menn segja jafnvel að á síðasta ári, eða síðustu árum, hafi Stofnlánadeildin enn haldið sig við það að lána til hinna hefðbundnu búgreina langt umfram nýbúgreinar. Ég vil þá bara í því sambandi upplýsa að í fyrra var næsthæsti lánaflokkur Stofnlánadeildarinnar til loðdýraræktar - næsthæsti flokkurinn. Sá hæsti voru vinnslustöðvarnar. Þær voru býsna þungar á fóðrum eins og þær hafa reyndar oftar verið hjá Stofnlánadeildinni. Þar á eftir, nokkru neðar koma svo loðdýrin, sem eru með um 19% af lánveitingu Stofnlánadeildar, fjósin aftur um 13% og fjárhúsin ekki nema 4,5%. Þetta held ég að sé rétt að athuga einmitt í ljósi þess sem hefur verið sagt um það hvað áherslurnar hafa breyst því að nú er þessi nýbúgrein orðin til hins almenna bónda hæsti lánaflokkurinn og það er rétt þróun.

Ég held, eins og ég sagði áðan, að ekki þurfi heldur nein sérlög eða sérstaka umsköpun á heildarsjóðum atvinnuveganna, þar sem hver þeirra er þó sérgreindur, til þess að stuðla að því að bæði Stofnlánadeild landbúnaðarins og aðrir lánasjóðir, sem nú eru þegar fyrir hendi, láni til þeirra hluta í hverri atvinnugrein sem eru arðbærastir og hagkvæmastir hverju sinni og skapa hvað mestan arð í atvinnugreininni.