24.03.1986
Efri deild: 64. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3272 í B-deild Alþingistíðinda. (2864)

341. mál, sala jarðarinnar Streitis

Flm. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til að selja jörðina Streiti í Breiðdal í Suður-Múlasýslu. Flm. að því ásamt mér er hv. 11. landsk. þm. Egill Jónsson.

Frv. hljóðar á þá leið að ríkisstj. sé heimilt að selja Magnúsi Þorleifssyni eyðijörðina Streiti í Breiðdalshreppi. Við sölu jarðarinnar skuli fylgja ákvæðum 3.-5. málsgr. 38. gr. jarðalaga, nr. 65/1976, og skuli við söluna undanskilja nauðsynlegt land vegna vegagerðar í landi jarðarinnar, svo og land undir vita í Streitishorni.

Eins og fram kemur í grg. er þetta frv. lagt fram að beiðni Magnúsar Þorleifssonar, Mávanesi 21, Garðabæ, og hafa þegar borist meðmæli hreppsnefndar Breiðdalshrepps sem fylgja frv. sem fylgiskjal.

Eins og fram hefur komið er jörðin Streiti nú í eyði og hyggst Magnús nýta hana fyrir æðarrækt, angórakanínur, garðrækt o.fl., en það hefur komið fram í viðtölum að Magnús hyggst flytja á jörðina og teljum við að það sé fengur að því þar sem þessi jörð er nú í eyði og hefur ekki verið búið á henni um skeið. Þess má geta að jörðin hefur verið nytjuð fyrir lausagöngu nautgripa og mun landbrn. nú nýverið hafa borist erindi frá þeim aðilum að fá jörðina keypta, en þeir aðilar munu ekki hafa í huga búsetu á jörðinni. Mér þykir skylt að það komi fram við þessa umræðu að þetta erindi hefur borist ráðuneytinu. Mér finnst skylt að geta þess, en sá aðili mun ekki hafa í huga að búa á jörðinni heldur nytja hana til beitar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja um þetta mál, það liggur nokkuð ljóst fyrir. Fylgiskjal III með frv. er umsögn jarðanefndar Suður-Múlasýslu, sem mælir með þessu erindi með ákveðnum skilyrðum: að Magnús Þorleifsson „skuldbindi sig til að lána eða leigja Einari Árnasyni í Felli eða öðrum, eftir tillögum hreppsnefndar Breiðdalshrepps, þær landsnytjar sem hann þarf ekki að nota til eigin búrekstrar og gefi skriflegt loforð eða yfirlýsingu um það mál.“ Það er nú tæplega hægt að gefa slík loforð í sambandi við slíka sölu, en þetta kemur fram hér í umsögn jarðanefndar Suður-Múlasýslu. Að öðru leyti liggur þetta mál ljóst fyrir. Hreppsnefnd Breiðdalshrepps hefur mælt með þessu erindi.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. landbn. og vonast til þess að þetta frv. fái hér greiða meðferð.