09.04.1986
Efri deild: 71. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3554 í B-deild Alþingistíðinda. (3219)

232. mál, talnagetraunir

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara að deila hér um það hvort umræddur aðili hafi fyrirgert rétti sínum í þessum efnum siðferðilega. Ég held að meginatriði þessa máls sé það að lagalegur réttur íþróttahreyfingarinnar til þess arna er ótvíræður. Það er ekki lagt til í nál. minni hl., sem ekki er von heldur því að það þarf lagabreytingu til, að hann sé afnuminn. Það er því alveg ljóst að ef þetta frv. nær ekki fram að ganga, þá standa lögin eftir sem heimila íþróttahreyfingunni einni að taka þetta upp og það þarf lagabreytingu á Alþingi til þess að hún nýti sér ekki þann rétt. Ef það verður ekki gert, sem ég sé ekki að sé lagt til hér og engin lagabreyting á ferðinni hvað það snertir, þá hlýtur íþróttahreyfingin að hrinda þessu í framkvæmd núna með tilliti til þess hvernig mál eru vaxin og hefur til þess fullan lagalegan rétt hvað sem siðferði líður í því efni.