16.04.1986
Neðri deild: 81. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 3976 í B-deild Alþingistíðinda. (3637)

431. mál, Rannsóknadeild fiskisjúkdóma

Frsm. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Á þskj. 857 er nál. frá landbn. um þetta frv. Þar kemur fram að til viðræðu við nefndina komu Páll Agnar Pálsson yfirdýralæknir, Sigurður Helgason fisksjúkdómafræðingur, Jón Sveinsson, formaður Félags eldis- og hafbeitarstöðva, og Tryggvi Gunnarsson lögfræðingur.

Nefndin mælir með samþykkt frv. með nokkrum breytingum sem ég mun nú greina frá. Undir það skrifa allir þeir nefndarmenn sem voru á fundinum, en hv. alþm. Halldór Blöndal var ekki við lokaafgreiðslu málsins.

Brtt. eru í fyrsta lagi við 2. gr. 2. mgr. orðist svo:

Deildin lætur fiskeldisstöðvum í té vottorð um heilsufar fisks í stöðinni eftir því sem reglubundið eftirlit, sbr. lög nr. 76/1970 og lög nr. 61/1985, og rannsóknir og önnur starfsemi deildarinnar skv. lögum þessum gefa tilefni til.

2. brtt. er við 3. gr. Síðasti málsl. greinarinnar orðist svo: Hann annast gerð starfs- og fjárhagsáætlunar og ber ábyrgð á fjárhag deildarinnar.

3. brtt. er við 4. gr. Greinin orðist svo:

Deildin hefur sjálfstæðan fjárhag og lýtur yfirstjórn forstöðumanns Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði.

4. brtt. er við 5. gr.

a. 4. tölul. fyrri málsgr. orðist svo:

Að veita fiskeldisstöðvum hvers konar aðstoð og ráðgjöf er að gagni má koma til varnar útbreiðslu sjúkdóma og til að tryggja heilbrigði fiska.

b. Síðari málsgr. falli brott.

5. brtt. er við 6. gr. Síðari málsgr. orðist svo: Rannsóknadeildin getur samið við aðrar rannsóknastofnanir um að annast tiltekna þætti rannsókna vegna fisksjúkdóma í landinu.

6. brtt. er við 9. gr. Greinin orðist svo:

Menntmrh. setur Rannsóknadeild fisksjúkdóma starfsreglur og staðfestir gjaldskrá fyrir þá þjónustu, sem hún veitir, með reglugerð.

7. brtt. er við 10. gr.

a. Síðasti málsl. 1. málsgr. orðist svo:

Þegar um sýnatöku vegna fyrirhugaðs útflutnings er að ræða skal rannsóknadeildin ganga úr skugga um að sýnatökur og úrvinnsla séu í samræmi við reglur um þau atriði í viðkomandi landi.

b. Í stað orðanna „sem og önnur fyrirmæli“ í 2. málsgr. komi: sem og fyrirmæli.

8. brtt. er við 11. gr. 1. málsgr. orðist svo: Rannsóknadeild fisksjúkdóma skal rannsaka sýni frá fiskeldisstöðvum með viðurkenndum aðferðum. Finnist ekkert athugavert við rannsókn er sú niðurstaða skráð í skýrslur um viðkomandi stöð. Þær niðurstöður, ásamt reglubundnu eftirliti, eru grundvöllur útgáfu heilbrigðisvottorða, sbr. 14. gr.

9. brtt. er við 14. gr. Í stað orðsins „fiski“ í síðari málsl. komi: alifiski.

Þetta eru þær brtt. sem nefndin varð sammála um að flytja hér og leggur hún til að frv. verði samþykkt með þeim.