06.11.1985
Efri deild: 12. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (376)

108. mál, Jarðboranir hf.

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ef ég væri iðnrh. og fengi svo mikið hrós frá Alþb. fyrir frv. sem ég hefði lagt fram mundi ég fara að hugsa mitt ráð.

Mín fyrsta spurning til hæstv. iðnrh. er ekki flókin. Hvers vegna var þetta fyrirtæki ekki selt á opinberum markaði? Þegar menn hlusta á loforð manna um að draga úr umsvifum ríkisins skoðað í ljósi máls eins og þessa sjá þeir það, að því er ég trúi, þannig fyrir sér að ríkið losi sig undan þeim ábyrgðum sem fólgnar eru í því að standa undir fjárfestingu og rekstri fyrirtækja sem hugsanlega eru ákveðinn baggi þó að þau geti komið að gagni inn í milli, en sinni þeim verkefnum eða því verkefnasviði sem hér er um að ræða með þeim hætti að bjóða út þau verk sem til falla hverju sinni og geti þá tekið lægsta tilboði í þau verk og stuðlað þannig að sem minnstum tilkostnaði í framkvæmdum hins opinbera.

Þegar menn föluðu um að draga úr umsvifum ríkisins, þegar menn töluðu um að selja ríkisfyrirtæki held ég að fólk hafi almennt séð þessa hluti einhvern veginn þannig fyrir sér. Ekki þannig að ríkið sameinaðist Reykjavíkurborg til að breyta á einhvern hátt rekstrargrundvelli þessa fyrirtækis sem í sjálfu sér gerir ekkert annað en að breyta að einhverju leyti eignahlutföllum í þeim eignum sem þarna er um að ræða og ábyrgð í rekstri. Ég held að ef menn skoða þetta mál t.d. í ljósi þess dóms sem störf okkar á Alþingi hafa nýlega fengið í fjölmiðlum, þ.e. að það sé ekkert að marka það sem stjórnmálamenn segja, sé ekki annað hægt en að skilja þá niðurstöðu almennings.

Ég tel ekki að þetta frv. t.d. sé í neinu samræmi við það loforð að draga úr ríkisumsvifum og selja ríkisfyrirtæki. Ég held að við höfum fengið mjög rækilega sönnun þess áðan þegar hv. 4. þm. Vesturl. var hér í stól. Hrifning hans af þessu frv. stóð náttúrlega í beinum tengslum við að það á ekki að breyta neinu í raun og veru. Þetta verður allt saman áfram inni í kerfinu.

Ég fæ nú tækifæri til að skoða þetta frv. í framhjáhlaupi þannig að ég mun kannske koma inn í þessa umræðu seinna, en hefði gjarnan þó viljað fá svar frá hæstv. iðnrh. við því hvers vegna þetta fyrirtæki var ekki selt á opinberum markaði.