19.04.1986
Efri deild: 81. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4198 í B-deild Alþingistíðinda. (3849)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég hygg að það séu ekki nægilega margir sem gera sér grein fyrir því hversu mikil breyting er hér á ferðinni. hreinsun á því sjóðakerfi sem hefur viðgengist í sjávarútveginum og mér sýnist að fjölmiðlar gefi því allt of lítinn gaum í raun og veru og jafnvel þm. sem eru ekki margir hérna. Þegar ég ræði um hreinsun á ég við að sjávarútvegurinn hefur myndað hvers konar sjóði, reyndar oft og tíðum þannig að ríkið hefur þvingað þessum sjóðum upp á sjávarútveginn. Ástandið hefur loks orðið þannig að þetta sjóðakerfi hefur orðið eins konar frumskógur sem bæði sjómönnum og útvegsmönnum hefur gengið mjög illa að rata í gegnum. Ég tel að sú breyting, sem nú er gerð, verði til að einfalda alla hluti. Ég hygg að það hafi oft verið þannig með útvegsmenn og reyndar sjómenn líka að þeir hafi átt erfitt með að reikna út sinn hlut, ekki áttað sig á hvað kæmi í sinn hlut vegna þess að þetta kerfi hefur verið svo andstyggilega flókið.

Hitt er annað, sem ég vildi minnast á, sem er mjög útbreiddur misskilningur í þjóðfélaginu, misskilningur sem er í því fólginn að það eru margir sem ætla að þessir sjóðir séu eign ríkisins, þeir séu eign einhvers annars en sjávarútvegsins, sem er allsherjar misskilningur. Allir þessir sjóðir eru eign sjávarútvegsins sjálfs, sjómanna og útvegsmanna, og ríkissjóður á ekkert þar í. Ef svo væri væri íslenska þjóðfélagið reyndar afar illa statt. Þá lifði það ekki því lífi sem það lifir í dag. Staðreyndin er sú að Ísland er eina ríkið sem heldur uppi velferðarþjóðfélagi án þess að ríkisstyrkja sjávarútveg. Ástæðan er sú að við lifum á sjávarútvegi. Sjávarútvegur er undirstaða okkar lífskjara og ef hann er ekki í lagi er allt í ólagi í þjóðfélaginu. Svo má deila um það lengi og oft hvort grundvöllur sjávarútvegsins hafi verið slíkur að sæmandi hafi verið.

Ég tek það fram, sem allir vita hér, að þetta frv. er samið af nefnd sem í áttu sæti menn tilnefndir af þingflokkunum og hagsmunasamtökum eins og Farmanna- og fiskimannasambandinu, Sjómannasambandinu, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Sambandi fiskvinnslustöðvanna og Félagi sambandsfiskframleiðenda og sá er ritaði texta frv., Jón Sigurðsson forstjóri Þjóðhagsstofnunar, var fulltrúi sjútvrh. Ég tel að það hafi tekist merkilega vel til í starfi þessarar nefndar og satt að segja hélt ég um tíma að það væri óvinnandi vegur að komast út úr þessum frumskógi, en það ætlar að takast. A.m.k. verður gerð alvarleg tilraun til þess.

Auðvitað hafa bæði ég og aðrir ýmislegt að þessu að finna, en ég hef fallist á frv. í meginatriðum og þeim brtt. sem nefndin gerir á ég hlut að og minn flokkur. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka samnefndarmönnum mínum og þá sérstaklega formanninum fyrir lipra og góða forustu í nefndinni sem hefur miðað að því að ná samkomulagi. Ég mun því ekki gera sérstakar brtt. við þetta frv. Ég er samþykkur því í meginatriðum.

Þó eru nokkur atriði sem ég vildi svona tæpa á. Það er t.d. varðandi hlut Fiskifélagsins. Ég óttast um að hann verði ekki sem ætti að vera. Þá á ég víð 3. lið 7. gr. frv. Það er spurning, ef svokallaður greiðslumiðlunarreikningur fiskiskipa verður hjá Stofnfjársjóði fiskiskipa, hvort komið verði á nýju kerfi, en það kerfi er allt til hjá Fiskifélaginu. Það þarf að huga að því að ekki verði neitt nýtt apparat sett á fót. Tilgangur þessa frv. er að leggja niður þessi „apparöt“ eða kerfi sem í kringum þetta eru og ég vænti þess að svo verði gert einnig varðandi þetta.

Ég tel ástæðu líka til að minnast á að í 2. lið 7. gr. er sagt að 6% af hráefnisverði greiðist inn á vátryggingarreikning skipsins hjá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Það er spurning hvort þetta á að vera svona. Mér er sagt að í reikningum Landssambands ísl. útvegsmanna komi í ljós að vaxtahagnaður einn af þessari millifærslu geti hafa numið 7-8 millj. á síðasta ári. Þá er spurning hvers vegna þessi millifærsla á sér stað.

Varðandi 10. gr. ber nefndin fram brtt.brtt. er nokkurs konar skýringartillaga, eins og formaður nefndarinnar skýrði áðan, og skýrir að það er ekki meiningin að það fé sem safnast í lífeyrissjóði sjómanna verði geymt í Reykjavík og forvaltað þar með tilheyrandi kostnaði heldur renni það beint til viðkomandi sjóða.

Ég geri líkt og síðasti ræðumaður fyrirvara varðandi tekjustofn til útflutningsráðs. Ég tel að það sé vont mál að samþykkja í þessum lögum að útflutningsráð eigi að þiggja tekjur af þessum vettvangi heldur eigi fyrirtækin sjálf að ákveða það þegar til kemur. En það virðist vera um heimilisvandamál hjá stjórnarliðinu að ræða hvað varðar þetta útflutningsráð og þess vegna mun þetta vera inn tekið.

Ég vil og minnast á að í brtt. við 17. gr. er rætt um skreiðina. Það segir í niðurlagi greinarinnar:

„Enn fremur skal ekki innheimta útflutningsgjald af þeirri skreið sem flutt er út. eftir 1. jan. 1986 en framleidd var fyrir 31. des. 1984.“

Ég tel að þetta ætti að ná til þeirra sem hafa þegar flutt út skreið og ekki fengið hana greidda. Ég veit að hagur þeirra sem hafa orðið fyrir því, ef ég mætti segja svo, að flytja út skreið og ekki fengið hana greidda er mjög slæmur og menn vita ekki hvenær þeir fá þessa peninga. Horfur eru allar lakari núna í Nígeríu en áður. Mér er sagt að það sé verið að semja um það nú að menn fái ekki nema 25% af söluverðmæti greitt þegar allt kemur til alls. Af þessu ættar ríkissjóður að taka gengismun og líka útflutningsgjald sem er með ólíkindum og mikið óréttlæti. Ég átta mig eiginlega ekki á því hvaða hugarfar liggur að baki því að vilja ekki láta þetta ákvæði ná aftur í tímann. Ég tel ekki ástæðu á þessu stigi málsins, í framhaldi af viðræðum við sjútvrh. sem hefur reyndar sagt að það væru uppi tilraunir til að laga þetta, að flytja brtt., en mér finnst að það hefði átt að vera alveg skýrt að þetta yrði ekki gert.

Annað atriði er það sem mér finnst afar mikilsvert og óska eftir að við 3. umr. gefi sjútvrh. ótvíræða yfirlýsingu um hvernig með skuli fara. Það er varðandi aflabrest. Ef aflabrestur verður í verstöð, ef aflabrestur verður í ákveðnu sjávarplássi skapast mikil vandræði. Menn geta að vísu selt sinn kvóta til annarra byggðarlaga sem betur gengur, en eftir situr fólkið atvinnulaust og atvinnulífið í rúst ef svo kemur upp. En við vitum það, Íslendingar, að aflabrestur kemur alltaf annað slagið og getur bitnað verr á einu byggðarlagi en öðru. Ég vænti þess og vil óska eftir því að sjútvrh. skýri hvernig hann hyggst með fara ef slíkt tilvik kemur upp að eitt byggðarlag lendir í aflabresti, neyðarástandi, hvað fyrir honum vakir í þeim efnum. Það er afar mikilsvert að vita hvernig með skuli fara. Ég er út af fyrir sig samþykkur því að leggja niður Aflatryggingasjóð í því formi sem hann hefur verið og tel hann hafa verið skrípamynd af því sem ætlað hafði verið, en eftir stendur það að menn geta lent í mjög erfiðum málum ef aflabrestur einstakra byggðarlaga á sér stað.

Ég tel ástæðulaust að fjalla frekar um einstök atriði þessa frv., en ég tel, eins og ég hef áður sagt, frv. vera mikla hreinsum og til mikilla bóta og þeim til sóma sem hafa að því unnið. Ég leyfi mér að horfa fram til betri tíma, bjartari framtíðar, ef það verður að lögum á þessu þingi. Mér er sagt reyndar að í Nd. séu uppi ráðagerðir um að hafa uppi hinar ýmsu ýfingar varðandi frv., jafnvel ráðherrar, aðrir en sjútvrh. reyndar, en ég vona sjómanna vegna og útvegsmanna líka að þetta frv. nái fram að ganga.

Ég ítreka að lokum þetta síðasta atriði sem ég nefndi. Hvað er fyrirhugað að gera ef byggðarlag lendir í alvarlegum aflabresti og atvinnulífið er í hættu? Hvað er fyrirhugað að gera af hendi hins opinbera?