19.04.1986
Neðri deild: 90. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4243 í B-deild Alþingistíðinda. (3946)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Núverandi skipulag í fjármálum sjávarútvegsins er ákaflega flókið. Af þessum sökum er fjárstreymi og tekjuskipting innan hans afar óskýr sem í fjölmörgum tilvikum hefur óheppileg áhrif á ákvarðanir manna og dregur úr verðmætasköpun.

Með frv. því sem er til umræðu eru gerðar róttækar tillögur til einföldunar á þessu kerfi. Í stað flókinna reglna um útflutningsgjöld, sjóði, millifærslur og bótagreiðslur er lagt til að lögleiddar verði einfaldar reglur um skiptaverðmæti sjávarafla. Til marks um þetta má nefna að þegar tillit er tekið til allra greiðslna skv. núgildandi kerfi, beinna og óbeinna, kemur í ljós að raunverulegt fiskverð er 63% hærra en sýnist í verðtilkynningum verðlagsráðs. Sjóðakerfið leynir því hvað fæst í reynd fyrir fiskinn innanlands í samanburði við fiskverð erlendis og stuðlar þannig í heild sinni að auknum útflutningi óunninnar vöru. Með frv. er lagt til að komið sé framan að hlutunum og þeir nefndir réttum nöfnum.

Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem einföldun á sjóðakerfinu á sér stað. Í ársbyrjun 1976 var gerð mikil uppstokkun á sjóðum sjávarútvegsins. Voru útflutningsgjöld þá einfölduð og lækkuð stórlega.

Á undanförnum erfiðleikaárum hefur þó sótt í sama farið. Margs konar lögbundnar greiðslur og bætur úr sjóðum flækja nú verulega tekjuskiptinguna innan sjávarútvegsins. Í ársbyrjun 1985 skipaði sjútvrh. nefnd með aðild samtaka sjómanna, útvegsmanna og þingflokka til að endurskoða gildandi lög og reglugerðir um sjóði sjávarútvegsins og lögbundnar greiðslur tengdar fiskverði. Nefndin starfaði undir forustu Jóns Sigurðssonar forstjóra Þjóðhagsstofnunar.

Í þessu nefndarstarfi skyldi samhengið milli lagafyrirmæla og skiptaverðs sjávarafla, þar með afla til sjómanna, tekið til rækilegrar skoðunar. Markmið þessarar endurskoðunar skyldi vera að gera fjárstrauma og tekjuskiptingu innan sjávarútvegsins einfaldari og skýrari, að stuðla að sanngjarnri skiptingu tekna innan sjávarútvegsins, að koma í veg fyrir að sjóðakerfið og tekjuskiptingarreglur dragi úr hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri sjávarútvegsins.

Í ársbyrjun 1986 var svo ákveðið að nefndin skyldi einnig fjalla sérstaklega um hlut fiskvinnslunnar í skiptum við sjóði sjávarútvegsins, þar með Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, og var þá bætt í nefndina fulltrúum frá samtökum fiskvinnslunnar.

Hinn 4. apríl s.l. skilaði nefndin tillögum sínum til sjútvrh. og taldi sig þar með hafa lokið verkefni sínu að öðru leyti en því að síðar yrði fjallað um starfsemi Verðjöfnunarsjóðs.

Frv. þetta er samið af nefndinni og flutt efnislega óbreytt frá þeim tillögum sem nefndin gerði og var sammála um. Tilgangur frv. þessa er að einfalda allt greiðsluflæði innan sjávarútvegsins. Tillögurnar fela í sér róttækar breytingar á fjárhagslegu skipulagi atvinnugreinarinnar. Eins og ég hef áður sagt eru allir millifærslusjóðir og greiðslur utan skipta við fiskkaup skv. þessu frv. lögð niður.

Ég mun nú víkja að einstökum þáttum frv. og þá fyrst og fremst þeim sem lúta að afnámi sjóðakerfisins. Þessi ákvæði eru í 17. gr. frv. um gildistöku þess. Hornsteinn núgildandi sjóðakerfis eru lögin um útflutningsgjald af sjávarafurðum frá 1983. Þetta gjald á sér yfir 100 ára samfellda sögu. Með afnámi þess verður að telja að sagt sé skilið við ákveðið þróunarstig í skattheimtu hér á landi og niðurfelling þess markar því þáttaskil í hagþróun. Útflutningsgjöld sem leggjast sem föst prósenta á verðmæti útflutningsvöru eru almennt séð mest íþyngjandi fyrir þær greinar sem auka mest verðmæti framleiðslunnar með úrvinnslu innanlands. Þau stuðla því almennt að útflutningi óunninnar eða lítt unninnar vöru og eru því hemill á innlenda hagþróun.

Enda þótt núgildandi útflutningsgjald sé ekki ýkja hátt eða 5,5% hefur það óneitanlega haft þessi áhrif. Við afnám þess væri því að fullu horfið hið sérstaka óhagræði sem innlend fullvinnsla á sjávarafurðum hefur mátt búa við. Með afnámi útflutningsgjaldalaganna sem skiluðu tæplega 1300 millj. kr. gjaldi á árinu 1985 falla niður tekjustofnar Tryggingasjóðs fiskiskipa og Úreldingarsjóðs fiskiskipa.

Tillagan um afnám útflutningsgjalds felur því einnig í sér tillögu um að starfsemi þessara sjóða verði hætt. Tryggingasjóður hefur staðið undir greiðslu á 40% af vátryggingariðgjöldum fiskiskipa. Er við það miðað að fyrir þessum þörfum verði framvegis séð með ákvæðum II. kafla um greiðslumiðlun er ég kem að á eftir.

Þær eignir Tryggingasjóðs sem eftir standa, þegar starfsemi hans lýkur, munu renna til Fiskveiðasjóðs Íslands en þó er lagt til í ákvæði til bráðabirgða að nokkur fjárhæð af fé sjóðsins fari til öryggismála sjómanna og björgunaræfinga á fiskiskipum og einnig renni ákveðin fjárhæð til undirbúnings byggingar sjávarútvegshúss.

Óhætt er að fullyrða að starfsemi þeirra sjóða sem fengist hafa við greiðslur vegna úreldingar fiskiskipa hafi ekki verið nógu markviss til þessa. Á ég við Úreldingarsjóð fiskiskipa og Aldurslagasjóð fiskiskipa. Þannig hafa greiðslur úr Úreldingarsjóði oftar en ekki auðveldað mönnum kaup nýrra skipa með aukinni afkastagetu í stað hinna eldri. Þetta verður að telja andstætt þeim megintilgangi hans að auðvelda þeim er gömul skip eiga og óhagkvæm að hætta í útgerð og draga þar með úr afkastagetu skipastólsins.

Í frv. er gert ráð fyrir að starfsemi Úreldingarsjóðs verði hætt og þær eignir hans sem eftir standa, þegar skuldbreytingum hans er lokið, verði varðveittar og ávaxtaðar á bestu kjörum þar til honum hefur verið fengið hlutverk að nýju. Ég tel fulla þörf á að kanna með hvaða hætti þessum málum verði best komið fyrir í framtíðinni og mun strax í vor, verði frv. þetta að lögum, beita mér fyrir að vinna við það hefjist. Til þess að skapa öllum útgerðarmönnum jöfn tækifæri til úreldingarstyrkja úr sjóðnum áður en starfsemi hans lýkur mun ég beita mér fyrir því að stjórn sjóðsins auglýsi eftir umsóknum um styrki fyrir 1. maí n. k. þannig að skipin geti horfið varanlega úr rekstri t.d. fyrir 15. maí n.k., en þá á starfsemi Úreldingarsjóðs að leggjast niður.

Herra forseti. Ég flutti um þetta mál allefnismikla framsöguræðu þegar málið var til umræðu í Ed. og þetta mál hefur verið til umfjöllunar í þeirri nefnd sem ég vitnaði áður til, í þingflokkum og um það hefur verið góð samstaða sem m.a. kemur fram í því að hv. Ed. afgreiddi mál þetta samhljóða fyrr í dag.

Í stuttu máli er ávinningur að þessari breytingu, sem hér birtist í frv., þríþættur.

Í fyrsta lagi er í frv. gert ráð fyrir að raunverulegt fiskverð, sem vinnslustöðvar greiða, komi fram á skýran hátt í einni tölu þannig að augljóst verði hvaða verð er í raun og veru greitt. Opinbert fiskverð hér á landi hefur oft verið innan við 60% af raunverulegu verði sem útgerðin fær greitt. Þetta lága verð hefur síðan verið borið saman við brúttóverð á ferskum fiski á erlendum markaði. Með þessu hefur orðið til algjörlega óraunhæfur samanburður sem aftur hefur hvatt til sölu á óunnum fiski á erlendum markaði eins og ég hef áður komið að.

Í öðru lagi hefur núverandi sjóðakerfi haft í för með sér óeðlilegar millifærslur: Einhver millifærsla hefur átt sér stað á milli verðmeiri framleiðslu og verðminni framleiðslu þannig að hin verðminni hefur fengið styrk frá hinni verðmeiri. Þetta er óeðlilegt. Rétt er að hver vörutegund fái notið síns raunverulega verðs eins og gert er ráð fyrir í frv. Sjóðakerfið hefur einnig valdið millifærslu innan útgerðarinnar þannig að fjárstraumar hafa verið teknir frá aflasælum skipum til hinna sem verr hefur gengið að reka. Þetta hefur viðhaldið óhagkvæmri útgerð og dregið úr hámarksafrakstri fiskiskipastólsins. Úr þessu er bætt með frv. þessu og með því tel ég heilbrigðan rekstur sjávarútvegsins í framtíðinni best tryggðan.

Í þriðja lagi sparast nokkur vinna við útreikning á aflaverðmæti og þeirri skýrslugjöf er því fylgir. Jafnhliða sparast kostnaður sem fylgt hefur því að greiða hluta af tekjum sjávarútvegsins í sérstaka sjóði og endurgreiða þá síðan eftir mismunandi flóknum reglum. Frv. hefur því í för með sér beinan kostnaðarsparnað fyrir sjávarútveginn í heild og einnig fyrir ríkissjóð því tollheimtumenn hér í landinu þurfa að sjá um innheimtu á útflutningsgjaldinu og eru við það starfandi nokkrir menn.

Herra forseti. Ég vil að öðru leyti vitna til ítarlegrar ræðu minnar í Ed. til að flýta fyrir umræðum hér en ég veit að mörg mál eru á dagskrá sem þarf að ljúka í dag. Ég vil að lokum leggja til að þessu frv. verði vísað til hv. sjútvn. og til 2. umr.

Umr. frestað.