22.04.1986
Neðri deild: 93. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4338 í B-deild Alþingistíðinda. (4096)

442. mál, Húsnæðisstofnun ríkisins

Frsm. minni hl. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Við 1. umr. um þetta mál ræddi ég ítarlega um frv. og ýmsa ágalla sem á því má finna. Við meðferð málsins í nefnd hefur nefndin tekið upp nokkrar brtt. og leiðrétt suma þá ágalla sem nauðsynlegt var að lagfæra og fram komu í mínu máli við 1. umr. Nefndin hefur m.a. leiðrétt það að ekki komi til lækkunar á lánum til einstaklinga með sérþarfir sem hætta var á eins og það ákvæði var í frv. Einnig ber að fagna því að samstaða er um að þeim sem vegna fötlunar eða örorku standa utan vinnumarkaðarins verði tryggður hámarksréttur.

Enn er það svo að ýmsir ágallar standa eftir á þessu frv. og vil ég aðeins stikla á þeim helstu.

Í fyrsta lagi er um að ræða að aukinn lánsrétt á að fjármagna með lánsfé úr lífeyrissjóðunum og er ljóst að gífurlega mikið fjármagn þarf til að standa undir vaxtamismun á teknum lánum og veittum. Hversu mikið það framlag verður ræðst af samningum við lífeyrissjóðina um vaxtakjör. Miðað við 9% vexti til lífeyrissjóða er fjárþörf vegna vaxtamismunar 12,4 milljarðar á næstu tíu árum, en 5,6 milljarðar á næstu tíu árum ef miðað er við 6% vexti. Ekkert liggur enn fyrir um vaxtakjör og er því alger óvissa um hve miklar fjárskuldbindingar ríkissjóður verður að taka á sig vegna ákvæða þessa frv.

Í öðru lagi liggur ekki enn fyrir heildarsamkomulag við lífeyrissjóðina og formaður Landssambands lífeyrissjóða, Pétur Blöndal, lýsti því yfir við meðferð málsins í nefnd að ekki hefði á neinu stigi málsins verið leitað til stjórnar Landssambands lífeyrissjóða um þetta mál. Óvissa ríkir því enn um afstöðu flestra sjóða innan Landssambands lífeyrissjóða til skuldabréfakaupanna eins og frv. þetta gerir ráð fyrir.

Í þriðja lagi má benda á að þar sem lánsréttur húsbyggjenda og kaupenda ákvarðast af skuldabréfakaupum þess lífeyrissjóðs sem viðkomandi er sjóðfélagi í getur það leitt til mikillar mismununar og óréttlætis að því er lánsrétt varðar. Einnig er hætta á því að einhverjir sem utan lífeyrissjóða standa fái engan lánsrétt skv. þessu fiv. Var það í reynd viðurkennt af fulltrúum úr þeirri nefnd sem forsrh. skipaði til að undirbúa þetta frv. Komi sú staða upp er það óviðunandi að þeir sem áður höfðu lánsrétt úr opinbera húsnæðislánakerfinu fái hann nú ekki vegna þeirra breytinga sem hér eru gerðar og menn séu þannig ekki jafnir fyrir lögum.

Einnig er mjög vafasamt að lögfesta ákvæði þar sem hjúskaparstaða hefur áhrif á lánsréttinn og verður að teljast óeðlilegt að Alþingi lögfesti ákvæði sem skert geta lánsrétt um mörg hundruð þús. kr. ef gengið er í hjónaband og aukið hann að sama skapi við hjónaskilnað, enda hefur verið nefnt að þetta ákvæði geti stuðlað að því að fólk kjósi að búa í óvígðri sambúð.

Þá varaði ég í 1. umr. um þetta mál við þeim auknu stærðarmörkum á íbúðarhúsnæði frá því sem áður var og sem lánafyrirgreiðslu er hægt að fá til af niðurgreiddu fé úr húsnæðislánakerfinu. Ég tel þetta óviðunandi ákvæði, en nefndin treysti sér ekki til að taka ákvæðið upp sérstaklega og vísaði því til úrlausnar hjá milliþinganefnd eins og reyndar fleiri atriðum sem ekki náðist samstaða um að breyta í þessu frv. Þegar úr takmörkuðu fjármagni er að spila er óeðlilegt að veita full lán til þeirra sem eru að byggja eða kaupa svo stórt húsnæði sem hér er gert ráð fyrir.

Ég ítreka það, sem ég sagði við 1. umr., að í skýrslu nefndar sem félmrh. skipaði og kannaði fasteignamarkaðinn kemur fram að nýting þess fjár sem veitt er úr hinu opinbera lánakerfi hefur ekki verið nægilega góð, of mikið fé fer til byggingar á stóru húsnæði og einnig kemur það fram að um 20% lánsfjár fór til nýbygginga á árinu 1983 til fjölskyldna sem byggðu hátt í 60 m2 að gólffleti á fjölskyldumeðlim eða stærra. Bent er einnig á í skýrslunni sem dæmi um áhrif þess sem kallað er nýbyggingarstefna að á árunum 1979-1983 hafi fjárfesting í stækkun húsnæðis á hvern Íslending numið meira en 15 milljörðum kr. Mikill hluti af hinu opinbera fé fari þannig til byggingar eða kaupa á stóru húsnæði. Þegar slíkar upplýsingar liggja fyrir tel ég vægast sagt mjög óeðlilegt að samþykkja aukin stærðarmörk frá því sem nú er eða úr 130-150 m2 í 170 m2 sem heimilt er að veita til full lán. Um þetta flyt ég brtt., að þessi stærðarmörk verði lækkuð úr 170 m2 í 140 m2.

Í athugasemdum sem Stefán Ingólfsson verkfræðingur sendi félmn. kemur fram ýmislegt áhugavert sem full ástæða hefði verið að taka tillit til. Stefán Ingólfsson heldur því m.a. fram að aukning fjármagns til húsnæðismála í heild verði minni en haldið er fram að verði miðað við ákvæði þessa frv. Vil ég, með leyfi forseta, vitna í þessa athugasemd Stefáns Ingólfssonar, en þar kemur eftirfarandi fram:

„Frv. mun ekki auka fjármagn á fasteignamarkaði eins mikið og gefið hefur verið til kynna. Kannanir félmrn. sýna að lífeyrissjóðslán, sem sjóðirnir veita beint til íbúðakaupenda, eru nú jafnhá og G-lánin. Bankalán, sem látið er liggja að í grg. að verði óþörf, nema um 60% af G-lánum. Með hinu nýja fyrirkomulagi mun draga úr lánum lífeyrissjóðanna beint til kaupenda og e.t.v. bankalánum einnig. Mesta nettóaukning á lánsfé sem sýnilegt er að lögin hafi í för með sér er um 4% af veltu fasteignamarkaðarins.“

Hér heldur Stefán Ingólfsson því fram að þessi aukning á fjármagni sé ekki eins mikil og haldið hefur verið fram og er um að ræða. Ef miðað er við það sem hann leggur til grundvallar er aðeins um að ræða 350 millj. kr. aukningu. Stefán Ingólfsson telur einnig í sínum athugasemdum að ekki sé tekið á helstu vandamálum fasteignamarkaðarins og um það segir Stefán Ingólfsson, með leyfi forseta:

„Helstu vandamál fasteignamarkaðarins eru mikil fjárþörf og þung greiðslubyrði kaupenda. Báðir þessir þættir eru aðallega til komnir vegna þátta sem frv. tekur ekki til. Mjög óhagkvæm greiðslukjör eru aðalorsök þess hversu mikið reiðufé fasteignakaupendur hérlendis þurfa að hafa handbært við kaupin. Til þess að jafnlítil nettóaukning á heildarfjármagni á markaðnum geti haft varanleg áhrif verður útborgun að lækka. Til þess að útskýra hversu sterk áhrif hér er um að ræða má nefna að ef útborgun í fasteignaviðskiptum lækkaði niður í 50% mundi sú breyting jafngilda 1200 millj. kr. láni til fasteignakaupenda. Það er a.m.k. þrefalt meira en þessi lagabreyting hefur í för með sér.“

Einnig kemur fram hjá Stefáni Ingólfssyni að hann telur að í forsendu frv. sé byggingarþörf á Íslandi sennilega áætluð fjórðungi of lítil, en um það segir hann, með leyfi forseta:

„Forsendur frv. fyrir útreikningi á byggingarþörf hér á landi næstu árin eru byggðar á veikum grunni. Hér á landi eru fáar íbúðir á hverja 1000 íbúa og t.d. nokkru færri en á hinum Norðurlöndunum. Gólfflötur er hins vegar næststærstur eða stærstur. Þó að ætla megi að þörf fyrir nýbyggðan gólfflöt muni dragast saman um 25-30% er fátt sem bendir til annars en útvega þurfi 1800-2200 íbúðir á ári næstu árin. Þær eru hins vegar talsvert minni en það húsnæði sem byggt hefur verið á síðasta áratug.“

Ég taldi rétt, herra forseti, að þessar upplýsingar kæmu fram hér við 2. umr. málsins því að þær eru um margt athyglisverðar og full ástæða að gefa því gaum sem fram kemur í þessum athugasemdum. Ég tel einnig ástæðu til að benda á að Stefán Ingólfsson hefur gert veigamiklar athugasemdir um það ákvæði sem fram kemur í 12. gr. frv. og fjallar um veðhæfni eigna, en þar segir að jafnframt megi ákveða að veitt lán og áhvílandi megi ekki fara fram úr tilteknu hlutfalli af kaupverði, fasteignamati og brunabótamati. Hér er um að ræða að í mörgum tilfellum sé svo mikið áhvílandi á eignum að með ákvæði frv. sé ekki svigrúm til þeirrar veðsetningar sem aukinn lánsréttur veitir. Orðrétt segir Stefán Ingólfsson um þetta atriði í athugasemdum sínum, með leyfi forseta:

„Mat á veðhæfni er með þeim hætti í dag að reglurnar skapa fólki misrétti eftir eignum og landshlutum. Oft eru vandamál varðandi veð leyst á þann hátt að veð eru fengin að láni þegar um lífeyrissjóðslán og bankalán er að ræða. Það er ekki unnt með G-lánin. Þær reglur sem eru í frv. gætu hugsanlega brugðið fæti fyrir 5%-15% af ungu fólki á höfuðborgarsvæðinu.“

Ég tel að full ástæða sé til að taka alvarlega þær ábendingar sem hér koma fram þannig að lánin komi þeim að fullum notum sem til er ætlast með þessu frv.

Þm. Alþfl. styðja það frv. sem hér er til umræðu, en flytja við það nokkrar brtt. Ég vil, með leyfi forseta, hér í lokin lesa nál. minni hl. sem skýrir afstöðu þm. Alþfl. og þær brtt. sem við leggjum til. Með leyfi forseta kemur fram í áliti minni hl. félmn.:

„Meginatriði þessa frv. eru ákvæði um verulega hækkun lána og lengingu lánstíma og að til þess verði varið stórauknu fjármagni frá lífeyrissjóðunum. Hækkun lána og lenging lánstíma eru til verulegra bóta frá því sem nú er þar sem þau tryggja lægri greiðslubyrði og auðvelda þar með mörgum húsnæðisöflun. Þessi niðurstaða er í samræmi við samkomulag aðila vinnumarkaðarins í nýgerðum kjarasamningum sem tekið hafa frumkvæði af ríkisstj. við mótun húsnæðisstefnu. Það sem á skortir er þó að aukið verði verulega fjármagn til félagslegra íbúðabygginga og opnaðar verði fleiri leiðir í húsnæðismálum til að auðvelda þeim húsnæðisöflun sem við lakastar aðstæður búa, að staðið verði við fyrirheit um viðunandi lausn á greiðsluvanda þeirra sem byggðu eða keyptu á árunum 1980-1985.

Þó að nokkrir ágallar séu á frv. að því er takmörkun á lánsrétti varðar sem og að fjármögnunarþáttur ríkissjóðs til að tryggja að við ákvæði frv. verði hægt að standa eru í mikilli óvissu styður Alþfl. frv. og þar með það samkomulag sem gert var í nýgerðum kjarasamningum um húsnæðismál. Alþfl. telur þó rétt að flytja brtt. um eftirfarandi atriði:

1. Lánafyrirgreiðsla verði tryggð úr Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna til kaupleiguíbúða.

2. Endurgreiðsla komi á hluta af kostnaði við öflun íbúðarhúsnæðis til þeirra sem keyptu eða byggðu á árunum 1980-1985.

3. Takmörkun verði á stærð húsnæðis sem lán verða veitt til af niðurgreiddu fjármagni úr húsnæðislánakerfinu.

Alþfl. leggur áherslu á að þessar tillögur nái fram að ganga, en þær munu einkum nýtast þeim sem lakast eru settir, en styður að öðru leyti það samkomulag sem gert var í húsnæðismálum í nýgerðum kjarasamningum.“

Ég tel, herra forseti, að í þessu nál. komi skýrt fram afstaða Alþfl. til þessa máls og sé ég raunar ekki ástæðu til að fara ítarlega út í þær brtt. sem fram koma á þskj. 1002, en þær fjalla um það að opna fyrir lagaheimild til að veita lán til sveitarfélaga eða félagasamtaka til byggingar kaupleiguíbúða og er bæði um að ræða að opna fyrir lánveitingar til kaupleiguíbúða úr Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna.

Að öðru leyti fjallar brtt. um það, eins og ég gat um áðan, að lækka þau stærðarmörk sem kveðið er á um í frv.

Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, að fara ítarlegar út í þær brtt. en ég hef hér gert og ég hef lokið máli mínu.