22.04.1986
Sameinað þing: 80. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4430 í B-deild Alþingistíðinda. (4190)

377. mál, áhrif lögbundinna forréttinda til atvinnurekstrar

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að verða langorð um þetta málefni í þetta sinn, enda búin að ræða það oft og mikið bæði utan þings og innan, nú síðast í útvarpsumræðum s.l. fimmtudagskvöld.

Samkvæmt hefðum og venjum vil ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir að gera þó tilraun til að skilja ekki svo við okkur á þessu þingi að við hefðum ekki minnstu glóru um fyrirætlanir hans í sambandi við Lánasjóð ísl. námsmanna, en þakkir mínar eru trega og jafnvel hneykslun blandnar og ekki get ég sagt að þessi skýrsla hans eyði kvíða og áhyggjum um málefni Lánasjóðs ísl. námsmanna í höndum hæstv. ráðh. og ráðgjafa hans.

Ég verð að segja alveg eins og er að ekki er þm. sýnd mikil tillitssemi né málefninu virðing við hæfi að standa svona að málum. Skýrsla hæstv. menntmrh. liggur hér á borðum í dag og nú örfáum tímum síðar, eftir miklar annir og inn á milli mikilla anna, eigum við að ræða hana. Og er nú hægt að ætlast til þess að það geti orðið af miklu viti? Ég endurtek að mér finnst þetta vera óvirðing við málefnið og hefði kosið að hér hefði öðruvísi verið staðið að. Hv. þm. eru að vísu orðnir ýmsu vanir, en þetta finnst mér keyra úr öllu hófi. Og ég hlýt að mótmæla þessum vinnubrögðum harðlega.

Ég vil þó fagna yfirlýsingu hæstv. ráðh. áðan um aukafjárveitingu til sjóðsins. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér í dag ætti sú fjárveiting nokkurn veginn að duga til þess að hagur námsmanna versni a.m.k. ekki á þessu ári frá því sem nú er.

Ég ætla ekki að fara að rifja upp lið fyrir lið samskipti hæstv. menntmrh. og námsmanna og afskipti hans af málefnum lánasjóðsins. Þau eru hins vegar geymd en ekki gleymd. Það versta við þau er lítilsvirðandi framkoma hæstv. ráðh. í garð námsmanna sjálfra og vanhugsaðar yfirlýsingar og fullyrðingar um ókosti þessa lánakerfis, en þessi framkoma hefur haft þær afleiðingar að magna óvild og tortryggni í garð námsmanna og lánasjóðsins þeirra og einnig að magna áhyggjur námsmanna sjálfra og grafa undan því öryggi sem lánasjóðnum er ætlað að veita. Því miður er ekki að sjá við mjög snöggt yfirlit yfir þessa skýrslu menntmrh. að hann sé neitt að snúa við blaðinu í þeim efnum. - Þar sem hæstv. ráðh. kvartaði áðan undan því að hann heyrði ekki mál mitt vil ég endurtaka það, sem ég sagði hér áðan, að ég fagna yfirlýsingu hans um að séð verði til þess að útvega nægilegt fé í lánasjóðinn eða vonandi nægilegt fé á þessu ári.

Ég veit ekki hvort það þjónar tilgangi að fara mjög mörgum orðum um þessa skýrslu. Umræður um skýrslu, sem enginn tími hefur verið til að athuga og gera sér grein fyrir, eru í rauninni algerlega út í bláinn. Hún er greinilega stútfull af hinum verstu hugmyndum til breytinga á þessu lánakerfi sem flestar virðast því marki brenndar að miða að því að bæta hag sjóðsins. Hagur námsmanna sjálfra er augljóslega minna virtur. Þannig finnst mér menn nálgast málið frá öfugum enda og ég vil minna á það, sem ég hef reyndar margsagt áður, að ef farið verður út í einhverjar breytingar er algjör nauðsyn, ekki bara kurteisi og tillitssemi, heldur algjör nauðsyn að hafa um slíkar breytingar fullt samráð við fulltrúa námsmanna sjálfra. Því miður virðist mér skorta á vilja hæstv. menntmrh. hvað það varðar.

Ég minni líka á að við umræður utan dagskrár á Alþingi í lok janúar á þessu ári hafði hæstv. ráðh. góð orð um það að fulltrúar stjórnarandstöðu fengju eitthvað um málið að segja áður en það kæmist á ákvörðunarstig, eða eins og hann orðaði það, að hann skyldi gjarnan beita sér fyrir því að leita lags við aðra flokka á Alþingi um framkvæmdir í þessum efnum.

Herra forseti. Ég vil ítreka það, sem margsinnis hefur komið fram, að Kvennalistinn telur lögin um Lánasjóð ísl. námsmanna góð lög vegna þess að þau koma hinum efnaminnstu best og tryggja það nokkurn veginn að enginn þurfi að láta slæman efnahag eða aðra þröskulda hindra sig á menntaveginum. Þetta lánakerfi kostar okkur mikið fé nú um skeið en þörfin fyrir háar fjárveitingar úr ríkissjóði munu fara ört minnkandi innan fárra ára og við megum ekki líða skammsýninni að ná yfirhöndinni hvað varðar uppbyggingu sjóðsins.

Hæstv. ráðh. og ráðgjafar hans gleyma því gjarnan að námsmenn eru nú úr óvenju fjölmennum aldursárgöngum og munu innan tiltölulega fárra ára standa að mestu undir lánakerfi sinna eigin barna. Og sjaldan verður sú vísa of oft kveðin að lausnin á vanda lánasjóðsins væri vitanlega fyrst og fremst fólgin í því að hverfa frá láglaunastefnunni sem er í raun og veru að sliga þetta þjóðfélag og skekkja allar áætlanir á nánast öllum sviðum. En það virðast því miður fæstir stjórnmálamenn skilja og viðurkenna.

Ég vil svo vara hæstv. menntmrh. við því að breyta því lánakerfi sem við búum við í dag. Ég held einfaldlega að þær breytingar, sem menn hafa hæst um, eins og niðurfelling tekjutillitsins, hrein skipting kerfisins í lán og styrki og þar fram eftir götunum, skili ekki hinum minnsta sparnaði inn í kerfið og væri til óþurftar. Það hefur margsinnis komið fram að Kvennalistinn er ákaflega mótfallinn þeim hugmyndum um breytingar á lögum og reglum um Lánasjóð ísl. námsmanna sem mest hafa verið ræddar. Við vörum sérstaklega við vaxtaálagningu samfara hertum innheimtureglum sem mundu tvímælalaust bitna harðast á þeim sem síst skyldi.

Við vörum við öllum breytingum í þessa átt og mótmælum þeim og þá með hag námsmanna í huga. En vegna þess að hæstv. ráðh. og ráðgjafar hans byrja yfirleitt á hinum endanum og bera hag sjóðsins sjálfs mest fyrir brjósti, þá verða þeir að reikna dæmið til enda því þessar breytingar munu að öllum líkindum koma út á eitt fyrir sjóðinn.

Ég held ég hafi þessi orð ekki fleiri, enda vænti ég að hv. þm. og aðrir áheyrendur bíði nú með nokkurri eftirvæntingu eftir að heyra hvað fulltrúar samstarfsflokks hæstv. menntmrh. hafa um þessa skýrslu að segja. Og ég vænti þess að þessari umræðu ljúki ekki áður en sjónarmið framsóknarmanna hafa komið fram. Það er vikið hlýlega að þeim hér í þessari skýrslu eða eins og hæstv. menntmrh. segir hér á fyrstu bls.: „Ég tek það fram að ég álít að flokkana skilji ekki mjög mikið að um afstöðu í máli þessu," og er ég nú ekki alveg tilbúin að trúa þessu eftir allt sem á undan er gengið.

En hæstv. ráðh., nú verður þessari endalausu baráttu um Lánasjóð ísl. námsmanna að fara að linna. Ég sé svo sem ekkert eftir mér eða öðrum hv. þm. til þess að ræða málefni sjóðsins nokkrum sinnum á hverju ári og leggja mitt af mörkum til að halda aftur af ráðherrum í tilraunum þeirra til að brjóta þetta kerfi niður. En óvissu námsmanna verður að linna. Það nær ekki nokkurri átt að setja þá í þá aðstöðu, jafnvel oft á ári, að þeir viti ekki hvernig þeir geta brauðfætt sig næstu mánuði.