23.04.1986
Efri deild: 89. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4518 í B-deild Alþingistíðinda. (4290)

431. mál, Rannsóknadeild fiskisjúkdóma

Frsm. (Egill Jónsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. landbn. Ed., sem lagt er fram á þskj. 1062, um frv. til l. um rannsóknadeild fisksjúkdóma. Ég gat þess við umræður um annað mál að okkur bærist mál af þeim toga sem tæplega teldist eðlilegt að afgreiða og með hógværu orðalagi í nál. er frá því sagt að nefndin mæli með samþykkt frv. þrátt fyrir að þar mætti ýmislegt betur fara. Að því er sjálfan mig varðar er þetta gert meira af vilja en mætti.

En m.a. af þessari ástæðu vil ég fara örfáum orðum um heilbrigðiseftirlit, lækningar svo og rannsókn á fisksjúkdómum.

Við Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum hefur frá árinu 1977 verið starfað að rannsóknum fisksjúkdóma og fisksjúkdómasérfræðingur, sem þar hefur verið skipaður, hefur verið þar við störf. Það hefur orðið mikilvægur árangur af þessari starfsemi, en eins og kunnugt er hefur hann starfað skv. lögum um fisksjúkdómanefnd. Skv. lögum frá árinu 1970, um lax og silungsveiði, hefur verið í gildi reglugerð um heilbrigðiseftirlit í klak- og eldisstöðvum um töku sýnishorna og um sóttvarnaraðgerðir. En héraðsdýralæknar hafa haft þetta eftirlit með höndum og frá því á s.l. ári undir samræmdri stjórn, með aðstoð og eftirliti dýralæknis fisksjúkdóma.

Lög um það embætti voru samþykkt á Alþingi á s.l. ári og má ég til með að minna á að að því leyti er mér þetta mál nokkuð skylt að ég flutti ásamt fleiri mönnum frv. um það á Alþingi. Í framhaldi af þeirri lagasetningu var skipaður dýralæknir, sérmenntaður í fisksjúkdómum, til þessa embættis. Sú ákvörðun sem Alþingi tók fyrir einu ári hefur þannig orðið að miklu gagni og ég hygg að út af fyrir sig sé þar m.a. að finna skýringu á því að umræða um fisksjúkdóma er ekki eins útbreidd nú og þá var.

Í frv. er leitast við að samræma starfsemi þessara sérfræðinga, þ.e. yfirstjórnin er áfram hjá fisksjúkdómanefnd og yfirdýralækni. Hann er einmitt formaður nefndarinnar, en í nefndinni eiga sæti auk hans forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskólans í meinafræði að Keldum og veiðimálastjóri. Á einum og sama stað er þannig fyrir hendi þekking og reynsla til ákvörðunartöku í svo þýðingarmiklum málum sem fisksjúkdómamálin eru, en hitt er augljóst mál að landbrh. er í þessum efnum úrskurðaraðilinn ef til þess þarf að koma.

Í lögum um lax- og silungsveiði og lögum um Tilraunastöð Háskólans í meinafræði eru ákvæði sem veita stjórnvöldum heimild til að auka og efla heilbrigðiseftirlit og allar rannsóknir í þessum efnum. Þess vegna var út af fyrir sig ástæðulaust að grípa til þeirrar lagasetningar sem ég var hér að ræða um.

Mér er ekki ljóst hvað það er í frv. sem ekki er í lögum eða reglugerðum og sem stjórnvöld geta ekki beitt þótt frv. hefði ekki orðið að lögum. Kannske er hér um að ræða eina merkinguna til viðbótar við það sem ég hef sagt hér fyrr í umræðum á þessum degi að í þeim efnum varðar menn meira um ráðuneyti en málefni.

Sú hugmynd, sem fram kemur í grg. með frv., að færa saman í eina stofnun heilbrigðiseftirlit, lækningar svo og rannsóknir á fisksjúkdómum er að mínum dómi fráleit og alveg augljóst að eins og frv. er núna er þeirri skipan mála hafnað. Það hlýtur ævinlega að vera best trygging fyrir hlutlausri rannsókn að sá aðili hafi hvorki haft með höndum heilbrigðiseftirlit né lækningar fisksjúkdóma. Lækningar verða auðvitað ekki greindar frá öðrum dýralækningum. Það skulu menn athuga. Vottorðagjöf byggð á reglubundnu eftirliti dýralækna og rannsóknum sýna skv. tillögum fisksjúkdómanefndar er besta trygging fyrir því að þannig verði staðið að fiskeldismálum almennt sem gera verður kröfu til og nauðsynlegt er ef fyrir hendi á að vera nauðsynleg heilbrigði í þessari nýju búgrein sem er trúlega einn allra þýðingarmesti þátturinn til að þar megi vel farnast.