23.04.1986
Neðri deild: 96. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4527 í B-deild Alþingistíðinda. (4313)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Frsm. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég tala fyrir nál. sjútvn. um frv. til l. um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins. Í nál. segir:

„Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að ekki væri ágreiningur um meginefni frv., enda um að ræða víðtækt samkomulag hagsmunaaðila innan sjávarútvegsins.

Með tillögum um hlutfall skiptaverðmætis af heildarverðmæti með 70% sem meginreglu er gert hreint borð í kjaraskiptingu milli sjómanna og útvegsmanna. Eru samningsaðilar sammála um þetta þótt auðvitað verði aldrei gert endanlegt samkomulag um tekjuskiptingu milli þeirra. Í stað flókinna tilfærslna og reiknireglna kemur eitt hlutfall, mishátt eftir því hvort landað er heima eða erlendis úr veiðiskipi eða gámi eða frystiskipi. Hins vegar er það ekki tilgangur þessara ákvæða að breyta tekjuskiptingunni í meginatriðum heldur markaðar skýrari línur fyrir kjarasamninga aðila sem fari fram á sínum rétta vettvangi.

Það hefur nokkuð verið gagnrýnt af hálfu sjómanna að 4. gr. frv., þar sem ákveðið er að skiptaverðmæti á frystiskipum skuli vera 70% af fob-verðmæti, feli í sér skerðingu á hlut sjómanna á þeim skipum. Það er rétt að samkvæmt núgildandi skiptum er sambærileg tala 72,25% þegar um botnfisk er að ræða, en aftur á móti 68,25% þegar rækja er fryst um borð. Þannig felur ákvæði 4. gr. í sér hækkun hlutar á rækjuskipum, en lækkun á öðrum veiðum frystiskipa. Algengt mun vera að sömu skipin stundi hvort tveggja.

Þá er þess að geta að 70% talan í 4. gr. er hluti af víðtæku samkomulagi fulltrúa sjómanna og útvegsmanna um ákvæðin í I. kafla frv. Sjómenn fengu því framgengt að hlutfallið í 1. gr. hækkaði úr 69,5% í 70% um leið og ákveðið var að gera þá málamiðlun sem felst í 4. gr.

Loks er rétt að benda á að hluti þess samkomulags, sem fulltrúar sjómanna og útvegsmanna í nefndinni, sem samdi frv., gerðu með sér, var viðbót við kjarasamninga þeirra um hækkun á skiptaprósentu á skipum sem eru undir 240 brúttólestir og um greiðslu fæðispeninga. Vilji sjómenn ná fram frekari leiðréttingu í einstökum greinum flotans eru kjarasamningar hinn eðlilegi vettvangur til slíkra breytinga.

Nefndin leggur á það áherslu, eins og kom fram í framsöguræðu sjútvrh. og við umræður í nefndinni, að strax í vor verði kannað í samvinnu við útvegsmenn og sjómenn hvort aðstæður séu til að taka upp einhvers konar aflatryggingu eða tekjutryggingu í framtíðinni verði aflabrestur í einstökum landshlutum eða í ákveðnum verstöðvum. Að því ætti að stefna að hugmyndir um þetta efni komi fram sem fyrst og helst á haustþingi. Hins vegar sé nú heppilegast að leggja núverandi Aflatryggingasjóð niður þar sem starfsemin hefur fjarlægst upphaflegan tilgang hans.

Við umræður í nefndinni kom fram að æskilegast væri að sérstaklega yrði athugað hvert sé heppilegasta form vaxtaákvörðunar á innstæðum útvegsmanna á stofnfjársjóðsreikningum. Ákvæðin í 12. gr. frv. um hæstu lögleyfða fasteignaveðlánavexti eru fyrst og fremst lágmarksákvæði og fela reyndar í sér hækkun vaxta frá því sem segir í gildandi lögum. Þetta er hins vegar fyrst og fremst málefni útvegsmanna og Fiskveiðasjóðs sem heppilegast virðist að verði leyst á þeim vettvangi. Líku máli gegnir um vátryggingarreikninga þá sem LÍÚ annast fyrir útvegsmenn sjálfa.

Nefndin telur æskilegt að ríkisstj, fjalli að nýju um vanda skreiðarframleiðenda, m.a. um útflutningsgjöld og gengismun af skreiðarbirgðum og ógreiddum skreiðarútflutningi af framleiðslu fyrri ára.

Nefndin bendir á að ráðstöfun fjár til öryggismála og björgunaræfinga á fiskiskipum verði að sjálfsögðu endanlega ákveðin í samvinnu við samgrn. sem skipaði öryggismálanefnd sjómanna.

Nefndin leggur til að frv. verði samþykkt eins og það er á þskj. 979. Einn nefndarmanna, Halldór Blöndal, gerði ágreining varðandi útflutningsgjaldið og greiðslu gengismunar af skreið framleiddri fyrir 31. des. 1984 og áskilur sér rétt til að flytja eða fylgja brtt. þar um. Hann skrifar því undir nál. með fyrirvara um þetta atriði frv., enda varðar það ekki það samkomulag sem varð milli hagsmunaaðila sjávarútvegsins og frv. var byggt á þegar það var lagt fram.“

Undir þetta nál. rita Stefán Guðmundsson, Halldór Blöndal með fyrirvara, Geir H. Haarde, Ingvar Gíslason, Geir Gunnarsson og Gunnar G. Schram.

Sjútvn. hefur fjallað allítarlega um þetta mál og m.a. átt sameiginlega fundi með sjútvn. Ed. Í athugasemdum við frv. segir m.a.:

„Í ársbyrjun 1985 skipaði sjútvrh. nefnd aðila samtaka sjómanna og útvegsmanna og þingflokka til að endurskoða gildandi lög og reglur um sjóði sjávarútvegsins og lögbundnar greiðslur tengdar fiskveiði. Auk þess skyldi samhengi milli þessara lagafyrirmæla og skiptaverðs sjávarafla og þar með aflahluta sjómanna tekið til rækilegrar skoðunar. Markmið þessarar endurskoðunar skyldi vera: að gera fjárstrauma og tekjuskiptingu innan sjávarútvegsins einfaldari og skýrari, að stuðla að sanngjarnri skiptingu tekna innan sjávarútvegsins, að koma í veg fyrir að sjóðakerfið og tekjuskiptingarreglur dragi úr hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri sjávarútvegsins.“

Með þessu frv. er gerð tilraun til að einfalda kerfi sjávarútvegsins. Millifærslur og greiðslur utan skipta eru lagðar af. Nú mun fiskverð sýna hið raunverulega verð sem fæst fyrir hvert kíló af fiski við löndun á afla. Það skal hér tekið fram að tilgangur þessara laga er ekki að breyta tekjuskiptingunni í meginatriðum heldur að marka skýrari línur fyrir kjarasamninga sjómanna og útvegsmanna sem fara fram á réttum vettvangi.

Herra forseti. Með þessu frv. er stigið stórt skref í málefnum sjávarútvegsins. Því fagna ég alveg sérstaklega þeirri miklu og óvenjuvíðtæku samstöðu sem náðst hefur um þetta mál, fyrst og fremst milli sjómanna og útvegsmanna sjálfra og einnig hér á hinu háa Alþingi.

Herra forseti. Sjútvn. þessarar deildar er sammála um að leggja til að málið verði samþykkt.