23.04.1986
Neðri deild: 96. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4535 í B-deild Alþingistíðinda. (4318)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa hér langt mál. Það er tekin um það ákvörðun að leggja niður Aflatryggingasjóðinn. Þeir munu e.t.v. til sem trúa því að með kvótakerfi sé hægt að koma í veg fyrir harðæri í landinu, en mér virðist samt að kvótakerfið geti fyrst og fremst komið í veg fyrir að menn njóti góðæris þegar það er.

En hvað um það. Hér er í 9. gr. gert ráð fyrir þeirri skiptingu að sjómenn fái 4% og Landssamband ísl. útvegsmanna 4% af ákveðinni upphæð sem félagsgjöld. Í lögunum er sem sagt gert ráð fyrir jafnræði á milli sjómanna og útvegsmanna. Ég lít svo á að með því að ganga þannig frá þessum málum hljóti að verða að skilja annan liðinn í 7. gr. þessara laga á þann hátt að það sé skilyrðislaus krafa að allir vextir af því fjármagni sem þar er um að ræða greiðist út en verði ekki aukafélagsiðgjald hjá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Er hugsanlegt að nokkrum manni detti í hug að setja upp þannig lög að þeim mun meir sem félagið níðist á sínum félagsmönnum og heldur fyrir þeim fjármunum lengur, þeim mun hærri tekjur eigi félagið að hafa sem iðgjöld fyrir sig? Það væri alveg fráleit lagasetning. Þá væri hagstæðast hjá Landssambandi ísl. útvegsmanna að geyma peningana í hálft ár áður en það borgaði þá til tryggingasjóðsins. Ég satt best að segja trúi því ekki að það hvarfli að mönnum að standa þannig að lagasmíði. Hér stendur í 2. lið 7. gr., með leyfi forseta: „6% af hráefnisverði greiðist inn á vátryggingarreikning skipsins hjá Landssambandi ísl. útvegsmanna, sbr. lög nr. 17/1976.“

Ef við skoðum hvaða verðmæti hér er um að ræða, það er verið að tala um 6%, hljótum við að staldra við að hér er verið að tala um slíkar risaupphæðir á ársgrundvelli að það hlýtur að skipta verulegu máli hvort vextirnir af þessum fjármunum eigi að fylgja hverju skipi eða hvort vextirnir eigi að verða eftir hjá Landssambandi ísl. útvegsmanna. Á það að verða misjafnt eftir því hvaða verðbólga er í landinu hvaða iðgjöld Landssamband ísl. útvegsmanna fær? Auðvitað væri fráleitt að standa þannig að lagasetningu þrátt fyrir að einstakir menn vilji gjarnan hafa aðstöðu til að nota þessa sjóði til að kaupa land undir sumarbústaði sem menn kannast við á Snæfellsnesi. Hvarflar að mönnum að það sé hægt að standa þannig að lagasetningu að fyrst sé gengið frá því hér, eins og er gert í 9. gr., að það eigi að skipta jafnt iðgjöldunum, sjómenn eigi að fá ákveðinn hlut og Landssamband ísl. útvegsmanna eigi að fá jafnmikið þó þeir séu mun fámennari, og svo eigi að setja upp einhverja svikamyllu sem geri það að verkum að ef þeir ekki skili peningunum inn heldur liggi með þá, þó það sé ekki nema hálfan mánuð eða mánuð, eigi Landssamband ísl. útvegsmanna að fá þessa peninga sem sína eign?

Ég vek athygli á því að í 12. gr., þegar talað er um viðskipti við Fiskveiðasjóð, er farið fram á að útgerðarmaðurinn fái hæstu lögleyfðu fasteignavexti ef fé er geymt á reikningi hjá Fiskveiðasjóði lengur en hálfan mánuð. Hvaða vexti eiga þeir að fá af þeim fjármunum sem eru inni á reikningi hjá Landssambandi ísl. útvegsmanna? Hvaða vexti eiga þeir að fá af þeim fjármunum? Hlýtur ekki að vera eðlilegt og sjálfsagt að þeir fái sömu vexti og gert er ráð fyrir að Fiskveiðasjóður þurfi að greiða? Ég óska eftir því að hæstv. sjútvrh. geri grein fyrir þessu atriði í 7. gr., hvort það sé ekki alveg á hreinu að það eigi að greiða vexti af þessu fé eða hvort það sé hugsunin að útgerðarmenn þurfi að borga þarna aukaiðgjald til Landssambands ísl. útvegsmanna og það verði þeim mun hærra sem trassaskapurinn verði meiri hjá LÍÚ. Það yrði dálagleg summa ef þeir borguðu ekki fyrr en eftir árið. Er það meiningin hjá Alþingi Íslendinga að ganga frá lögum á þann hátt að slíkt geti átt sér stað? Það vekur undrun mína ef það hvarflar að nokkrum manni að það geti verið eðlileg lagasetning.

Ég óska eftir að þetta verði útskýrt af hæstv. sjútvrh. Ég trúi hreinlega ekki öðru en ætlunin sé að halda þessu fjármagni algerlega aðskildu frá iðgjaldagreiðslum til Landssambands ísl. útvegsmanna.

Verði það aftur á móti uppi á teningnum, svo lygilegt sem það er, að hugsunin hafi verið sú að þarna fengju þeir aukagreiðslu hlýt ég að bregða á það ráð að styðja brtt. frá hv. 3. þm. Reykv. í þessu máli og reyna að vinna að því að þessir peningar fari aldrei til Landssambands ísl. útvegsmanna.