23.04.1986
Neðri deild: 96. fundur, 108. löggjafarþing.
Sjá dálk 4536 í B-deild Alþingistíðinda. (4319)

415. mál, skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég baðst áðan afsökunar á því að ég skyldi fara út fyrir efni frv. lítillega, en vakti ekki athygli forseta á því að ég hefði ekki farið út yfir það efni sem sérstaklega er fjallað um í grg. frv. Ég þekki það ekki af stjórn í þessari deild áður að þm. sé óheimilt að tala um það efni sem fitjað er upp á í nál. sameiginlegrar nefndar og hygg ég að það sé einsdæmi. Í grg. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin leggur á það áherslu, eins og kom fram í framsöguræðu sjútvrh. og við umræður í nefndinni, að strax í vor verði kannað í samvinnu við útvegsmenn og sjómenn hvort aðstæður séu til að taka upp einhvers konar aflatryggingu eða tekjutryggingu í framtíðinni verði aflabrestur í einstökum landshlutum eða verstöðvum. Að því ætti að stefna að hugmyndir um þetta efni komi fram sem fyrst og helst á haustþinginu. Hins vegar sé nú heppilegast að leggja núverandi Aflatryggingasjóð niður þar sem starfsemin hefur fjarlægst upphaflegan tilgang hans.“

Það sem ég spurði hæstv. sjútvrh. að var það í fyrsta lagi hvort hann mundi í sambandi við skyndilokanir á svæðum eftirleiðis hafa samband við Hafrannsóknastofnun. Nú skilst mér að hæstv. forseti telji það utan við það efni sem hér stendur. Þó liggur ljóst fyrir að mjög hefur dregið úr afla í einni verstöð, Þórshöfn, eins og hæstv. forseta er kunnugt, vegna skyndilokunar hæstv. sjútvrh. á Finnafirði og er afli miklu rýrari en áður. Það var vegna þess hvernig að því máli var staðið af hálfu ráðuneytisins sem mín spurning kom fram og líka vegna þess að nú er ákveðið að leggja Aflatryggingasjóðinn niður, en við vitum báðir hvernig hann hefur verkað. Nú skilst mér að það sé úrskurður hæstv. forseta að þetta sé utan við það efni sem við séum hér að tala um og megi ekki ræðast og væri þá kannske rétt að hann útskýrði í sínum úrskurði hvernig það megi vera að þessi spurning mín falli utan við þá grein í grg. sem samkomulag varð um í nefndinni að ræða sérstaklega um.

(Forseti: Það er kannske eðlilegt að forseti grípi á þessu stigi inn í þessa umræðu. Forseti var ekki með neinar stórvítur á hv. ræðumann. Það er síður en svo. Forseti hefur aðeins bent á að við höfum nauman tíma hér og því sé eðlilegt að menn ræði um dagskrárefnið og fari ekki út fyrir það. Það er alveg hiklaust skoðun forseta og þeirri skoðun verður ekki breytt, og verður hver að hafa þann skilning á sem honum sýnist, að hv. ræðumaður fór út fyrir efnið þegar hann í lok ræðu sinnar áðan fór að beina fyrirspurnum til hæstv. ráðh. um algjörlega óskylt efni þess sem hér er til umræðu. Þetta er skilningur forseta og hv. ræðumaður má hafa sinn skilning á því máli.) Ég ítreka minn fyrri skilning og mér er ekki kunnugt um að úrskurður af þessu tagi hafi áður fallið frá forseta hér í deildinni, að ekki megi ræða beint um þau atriði sem minnst er á í grg. (Forseti: Hv. ræðumaður kann auðvitað miklu betur sögu en forseti sem hér stendur. Um það verða engar deilur. Þetta eru þau orð sem falla af munni þess forseta sem hér stendur. Að öðru leyti held ég að það sé ekki heppilegt að munnhöggvast mikið um þetta efni og ég vænti þess að hv. þm. taki orð forseta til hugleiðingar og virði þau.) Það skal ekki standa á mér að reyna að virða orð forseta eftir því sem ég framast get.

Varðandi þá athugasemd hæstv. sjútvrh. að ég hafi gert honum aðvart um að um málið yrði talað utan dagskrár vil ég aðeins segja að hæstv. forseti Sþ., Þorv. Garðar Kristjánsson, kallaði mig á sinn fund og sagði að ef ég mundi halda minni beiðni til streitu gæti hann ekki heimilað hv. 3. þm. Norðurl. e., Stefáni Valgeirssyni, að tala utan dagskrár um það efni sem honum var hugleikið. Ef ég hefði haldið þeirri beiðni til streitu að fá að taka málið upp utan dagskrár var ég með því að spilla fyrir því að hv. 3. þm. Norðurl. e. gæti gert jafnrösklega grein fyrir sínu máli og hann gerði á fundi Sþ. í gær.

Ég vil út af því sem hæstv. sjútvrh. sagði að öðru leyti um mitt mál lýsa yfir undrun minni á þeirri niðurstöðu hans að það mundi rugla framkvæmd alls þess sem hæstv. ríkisstj. hefði í huga að gera fyrir skreiðarframleiðendur ef Alþingi hefði skoðun á einhverjum einstökum litlum þáttum þess máls. Ég vek athygli á því að á fundi ríkisstj. 18. febr. s.l. var gerð eftirfarandi samþykkt:

„Eigi verði innheimtur gengismunur af skreið sem framleidd var fyrir 1. júní 1983 en hefur ekki verið flutt út fyrir árslok 1985.“

Þarna ríður sjálf ríkisstj. á vaðið. Mín till. er um að þingið láti þetta ekki allt saman í hendur manna utan þingsins að ákveða hvernig lög verði framkvæmd í landinu. Mér finnst miklu einfaldara og skýrara að Alþingi taki sjálft af skarið. Hæstv. ráðh. sagði áðan að hagsmunasamtök skreiðarframleiðenda hefðu verið sammála um að miða við síðustu áramót, en það fylgdi ekki hans máli hvað hagsmunasamtök skreiðarframleiðenda fóru fram á. Ég hef í mínum till. miðað við áramót eins og hagsmunasamtök skreiðarframleiðenda töldu að skynsamlegt væri. Munurinn er eingöngu sá að ég vil ganga ívið lengra í eftirgjöf á framkvæmd laganna en felst í samþykkt ríkisstj. og ég tel líka að það geti með engum hætti bundið stjórn Seðlabanka eða einstakra viðskiptabanka þótt Alþingi taki afstöðu til þessa afmarkaða máls varðandi skreiðarframleiðsluna. Mér skildist líka á hæstv. sjútvrh. að það skipti svo sem engu hvort mínar brtt. yrðu samþykktar eða felldar. Þær væru einskis virði og skiptu engu máli. Ef það skiptir engu máli, hvorki fyrir ríkissjóð né skreiðarframleiðendur, að samþykkja þessar till. held ég að það ætti að vera útlátalaust, en hitt get ég ekki skilið, því að lög hafa verið sett í landinu, að Alþingi megi ekki sjálft taka af skarið um það ef það á að gefa undanþágur frá því að standa við lögin. Um það fjallar mín till. varðandi gengismuninn að Alþingi sjálft gefi eftir skv. þeim lögum sem Alþingi sjálft hefur sett, en sendi það ekki inn á borð ríkisstj. til þess að hún geti þar innan fjögurra veggja gert bókanir og samþykktir um hvernig eigi að framfylgja lögum í landinu.