27.11.1986
Sameinað þing: 22. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

Greiðslur afurðastöðva til bænda

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það var gott að fá yfirlýsingu frá hæstv, landbrh. hér um það hvernig að þessum málum hefur verið staðið í ríkisstjórn og við skulum vænta þess að það sé innistæða fyrir orðum ráðherrans. í rauninni greindi hæstv. landbrh. okkur frá að málið væri nú í höndum viðskrh. og hann hefði falið viðskrh. að tryggja að við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar verði staðið. Hæstv. landbrh. telur það sem sagt á valdsviði viðskrh. að leysa úr þeim hnút sem hér er til umræðu.

Það hefur einnig verið vakin athygli á því að niðurgreiðsluþátturinn kemur inn í þetta dæmi. Þannig er það hæstv. fjmrh. sem einnig hlýtur að koma við sögu í sambandi við úrlausn á þessu efni þannig að afurðastöðvunum verði gert kleift að standa við sínar lagalegu skuldbindingar.

Ég tek undir að það er nauðsynlegt að afurðasölufyrirtækin hafi aðstöðu til að standa við þessar skuldbindingar og mörg þeirra glíma nú við mjög þungt og erfitt fjárhagsdæmi þannig að það gengur auðvitað ekki að bankakerfið í landinu komist upp með að standa þarna ekki við sinn hlut. Hitt er jafnljóst, eins og ég hef vakið athygli á, að vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar í bankamálum er þetta mál nú erfiðara viðfangs og slungnara en áður þar sem viðskiptabankarnir gera kröfu til Seðlabanka sem hins vegar hefur gefið yfirlýsingar, einn bankastjóra hans, um að hann telji sig ekki skuldbundinn í þessum efnum á sama hátt og áður þar sem viðskiptabankarnir hafi fengið innlánsaukningu í sinn hlut. En meginatriði málsins er að við yfirlýsingar um þetta og lagafyrirmæli verði staðið.

Hv. þm. Egill Jónsson kom hér og býsnaðist yfir því að það væri minnt á lagafyrirmæli í þessum málum (EgJ: Sem þú varst á móti.) og hann er að greina frá atkvæðagreiðslu í þessum efnum. Ég held að hann ætti að lesa þingtíðindin, sá góði þm. Ég held að honum væri hollt að gera það, ætti kannske að gera það oftar þegar hann er með fullyrðingar í þessum stóli.

Herra forseti. Ég ætla ekki að ganga á tímamörk, en ég tel að það væri æskilegt að fá hér skýlausar yfirlýsingar landbrh. um að við skuldbindingar gagnvart afurðastöðvum verði staðið þannig að þær geti reitt af höndum greiðslur til bænda á tilsettum tíma.