02.12.1986
Sameinað þing: 24. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í B-deild Alþingistíðinda. (1127)

131. mál, heimilisfræðsla

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég þakka fyrir góðar undirtektir við þáltill. Hv. síðasti ræðumaður ræddi hér um og lýsti hvernig þetta væri á Austurlandi. Þetta var í svipuðu horfi á Laugum fram að þessum vetri. En þá var lokað fyrir.

Ég held að það sé alveg rétt, sem hefur komið fram í máli bæði hv. síðasta ræðumanns og annarra sem hér hafa tekið til máls, að aðalástæðan fyrir því að það er minni sókn í þessa skóla sé að námið nýtist ekki áfram eins og vera þyrfti. Hitt er ekki nokkur vafi um að slík fræðsla, sem við erum hér að ræða um, kemur fólki að miklu gagni þegar það stofnar heimili og er nauðsynleg til þess að vel fari á fyrstu árum sambúðar. Það er hvorki meira né minna. Stundum, þegar lítil kunnátta er hjá báðum aðilum í heimilishaldi, fer margt í handaskolum og nýtast ekki þeir fjármunir sem menn hafa handa á milli nema kunna þar til verka eins og í öðrum störfum í okkar þjóðfélagi. (HG: Það er á seinni árum líka.) Já, já, en þetta lærist nú hv. þm. Þetta er verst fyrst. Grauturinn vill brenna við o.s.frv. meira á fyrstu árunum en þegar menn fara að venjast þessu.

Í sambandi við grunnskólann. Það er út af fyrir sig ágætt að byrja að kenna þessi heimilisstörf þar, sérstaklega þeim unglingum sem eru notaðir til þess heima fyrir að hjálpa til á heimilinu. En ungum krökkum sem eru ekki látnir gera heimilisstörf heima fyrir nýtist þessi kennsla ekki mikið, því miður. Þannig held ég að það séu full rök fyrir því og sé brýn þörf að skipuleggja þessa kennslu og till. eigi fullan rétt á sér.

En herra forseti. Ég sakna þess mjög að hæstv. menntmrh. skuli ekki vera hér til að taka þátt í þessari umræðu og ég mælist til þess að það verði ekki lokið umræðunni þannig að við gætum átt við hann orðastað þótt síðar verði í sambandi við þessi mál því að eins og ég sagði er það ekki einungis þessi till. sem ber að líta á heldur eru skólar víðs vegar um landið að verða verkefnalausir og þarf að athuga með hvaða hætti er hægt að nýta þá aðstöðu sem þar er fyrir hendi. (Forseti: Má forseti spyrja ræðumann áður en hann gengur úr stólnum hvort það sé réttur skilningur hjá honum að það sé fullnægjandi að menntmrh. verði við þegar þetta mál komi aftur á dagskrá eftir meðferð í nefnd?) Já, herra forseti. Það gæti farið dálítið eftir því hvernig till. kæmi úr nefnd ef búið væri að eiga orðastað við ráðherrann áður.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.