03.12.1986
Efri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1148)

209. mál, sjómannadagur

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð um frv. Ég fagna því að það skuli vera komið fram sem stjfrv. og vona að hægt sé að koma því sem fyrst áfram í nefnd. Það vill þannig til að ég er formaður sjútvn. Ed. sem frv. er vísað til. Tækifæri gefst til að ræða það þar ítarlega og kalla fyrir þá aðila sem þess óska að láta álit sitt í ljós þar. Auðvitað verða þar skiptar skoðanir eins og vill verða um slík mál. Þó held ég að það verði ekki eins mikið og mætti halda í upphafi.

En ég tel að það hafi verið okkur til vansa, Íslendingum, hvað við höfum dregið lengi að lögfesta slíkan dag fyrir íslenska sjómenn. Ég er alls ekki sammála hv. 5. þm. Norðurl. e. í því að þetta sé hættuleg viðbót við þá mörgu frídaga sem þegar eru fyrir í okkar ágæta landi. Það má deila um hvort þeir eru of margir, en þessi stétt á skilið að hafa sinn frídag. Það þarf aðeins að finna leiðir til þess hvernig er best að koma því við þannig að það verði sem minnst um árekstra. Það verður að segja eins og er að síðustu ár hefur það mjög færst í vöxt að flestar útgerðir hafa reynt að haga málum þannig til að hægt væri að lofa mönnum að vera heima á þessum hátíðisdegi. Þetta er þó mjög misjafnt.

Eins og ræðumenn hafa komið inn á fjallar 5. gr. nokkuð mikið um þetta. Það skal verða skoðað vel hvað hægt er að gera í þeim efnum. En ég held að það séu svo miklar breytingar sem orðið hafa að það verði ekki talin höfuðsynd þó að skip sé komið í höfn á hádegi á laugardegi og sé ekki landað úr því fyrr en á mánudagsmorgni. Það fer eftir aldri fisksins sem í skipinu er hvernig því er hagrætt. Þannig er hægt að koma slíkum málum þokkalega fyrir ef vel er að staðið. Við eigum ekki að láta það verða okkur fjötur um fót í þessum efnum.

Eins er orðalagið í 5. gr. þar sem talað er um kl. 12 á mánudagsmorgni. Mér finnst alveg eins hægt að segja kl. 12 á hádegi. Það er kannske skýrara mál. Það þarf ekkert að fara milli mála eða gera því skóna að það sé verið að blekkja einn eða neinn með því. Það er ætlast til þess að fríið sé tveir sólarhringar, það sé komið í höfn kl. 12 á hádegi á laugardegi og það sé ekki látið úr höfn fyrr en kl. 12 á hádegi á mánudegi.

Um þær undanþágur sem 5. gr. býður upp á eða þá túlkun sem þar má hafa mun nefndin ræða ítarlega og kynna sér hvernig menn líta á það. En í heild tel ég að það sé vel að stjórnvöld skuli koma með slíkt frv. og það sé heiður fyrir íslenska sjómenn. Það er búið að dragast of lengi að gera það. Ég vona að við getum náð sem mestri og bestri samstöðu um þetta mál.