03.12.1986
Efri deild: 16. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1318 í B-deild Alþingistíðinda. (1157)

209. mál, sjómannadagur

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegi forseti. Ég fagna þeim undirtektum sem þetta frv. hefur fengið. Ég held það megi ráða af því að það ætti að reynast auðvelt að ljúka því tiltölulega fljótt hér í þinginu. En ég vildi minnast á nokkur þeirra efnisatriða sem hér hefur verið komið inn á. Það hefur nú þegar komið fram að samstaða er um að vísa málinu til sjútvn., enda er hér um málefni að ræða sem snertir ýmislegt í sjávarútveginum og hlýtur því að teljast eðlilegt.

Að því er 1. gr. varðar, það sem hv. 4. þm. Vesturl. tók fram, að það væri eðlilegra að það væri síðasta helgi í maí ef hvítasunnuhelgi ber upp á fyrsta sunnudag í júní, þá er fyrst og fremst fylgt þeirri hefð sem ríkt hefur varðandi sjómannadaginn, þeirri hefð sem hefur verið svo lengi sem hann hefur verið haldinn. Hvort það er rík ástæða til að breyta þeirri hefð, m.a. út af 17. júní eða af öðrum ástæðum, skal ég ekki fullyrða um, en það er vissulega rétt hjá hv. þm. að þegar tveir hátíðisdagar eru svo nálægt hvor öðrum getur það dregið nokkuð úr gildi daganna. Þó leyfi ég mér að efast um að það skipti verulegu máli. Ég tel þó rétt að þetta atriði sé rætt við sjómannasamtökin. En það kom engin athugasemd fram af þeirra hálfu að því er þetta atriði varðar.

Að því er varðar 4. gr., um Hafrannsóknastofnun, kemur hér fram að hún skuli leitast við að skipuleggja rannsóknaleiðangra þannig að skip geti leitað hafnar eigi síðar en kl. 12 á laugardegi. Það þykir ekki rétt að gera þetta að algjörri skyldu þannig að það sé engin leið að víkja þar frá. Ástæðan er sú að það kemur fyrir að Hafrannsóknastofnunin tekur þátt í rannsóknaleiðöngrum ásamt skipum annarra þjóða. Þar af leiðandi getur hún verið bundin slíkum leiðöngrum. En það er mjög afdráttarlaust að hún skuli leitast við að gera þetta þannig að þessir sjómenn eigi sem næst undantekningarlaust frí eins og aðrir sjómenn. Þó geta verið ástæður sem kalla á að þarna sé erfitt að víkjast undan. Ég vil t.d. taka fram að það á að fara fram mjög víðtæk talning á hvölum á öllu Norður-Atlantshafi á næsta ári, sem í munu taka þátt skip frá öðrum þjóðum, og það getur verið erfitt að leita samræmis við slíka aðila. En að sjálfsögðu mun Hafrannsóknastofnunin gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að slíkt sé hægt, enda eru fyrirmæli um það í þessari lagagrein.

Að því er varðar orðalagið í 5. gr., kl. 12 á laugardegi fyrir sjómannadag og kl. 12 á mánudagsmorgni, þá tel ég að það skipti ekki mjög miklu máli. Mér sýnist að menn hljóti að skilja þetta rétt. En ástæðan er einfaldlega sú að í upphaflegum drögum stóð kl. 14 á laugardegi og síðan kom fram í tillögum Sjómannasambands Íslands að þessu skyldi breytt úr kl. 14 í kl. 12. Ég sé að það orðalag hefur verið tekið upp og fyrra orðalagi ekki breytt þó að tímasetningunni kl. 14 hafi verið breytt í kl. 12. Ég sé ekki að það skipti neinu máli hvort þetta stendur með þessum hætti eða er breytt í það horf sem hér hefur komið fram.

Að því er varðar undanþáguákvæðin er ljóst að það eru aðilar sem telja afar mikilvægt að slíkar undanþágur geti átt sér stað. Ég vil hins vegar benda á að frídagur sjómanna hefur verið að þróast í gegnum áratugina og það er miklu minna um undantekningar frá því að sjómenn séu í landi en áður var. Það er eins með þessi atriði eins og öll önnur að eðlilegt er að þessi þróun haldi áfram og reynt sé að hafa sem besta samstöðu meðal hagsmunaaðila í sjávarútvegi um að halda þennan dag hátíðlegan. Auðvitað verður hátíð ekki haldin vegna þess að það stendur í lögum og lífinu verður ekki lifað alltaf betur þó að um það séu lagafyrirmæli. Ég skildi orð hv. 5. þm. Norðurl. e. þannig en ekki á þann hátt að hann væri á móti því að þessi lög yrðu sett. Auðvitað höfum við mörg dæmi þess að það getur verið varasamt að hafa lög svo fortakslaus að aldrei sé hægt að gera neina undantekningu þar á.

Ég tel langeðlilegast að nefndin kynni sér sjónarmið þessara aðila, sem við höfum reynt að kynna okkur sem best, og fari þar bil beggja. Ég tek fram að ég tel það þýðingarmeira að lögin séu sett. Það er rík krafa um það víðast hvar í sjávarbyggðarlögum eftir því sem ég kemst næst. En síðan má breyta þeim lögum síðar meir eftir því sem til tekst. Ég tel það mikilvægara. Hafa má einhver undanþáguákvæði sem megi þá breyta síðar meir ef samkomulag næst um og menn telja ástæðu til.