04.12.1986
Sameinað þing: 25. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1357 í B-deild Alþingistíðinda. (1195)

Afstaða til stöðvunar kjarnorkuvígbúnaðar

Haraldur Ólafsson:

Herra forseti. Ég verð að lýsa undrun minni á því að tillaga Mexíkó og Svíþjóðar skuli vera orðin að slíku hitamáli hér. Ég get alls ekki litið á það sem einhvern endanlegan mælikvarða á afstöðu manna til afvopnunar eða kjarnorkuvopna í heiminum hvort Alþingi reynir að knýja utanrrh. til að skipta um skoðun á milli atkvæðagreiðslna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Ég held að það væri nær að við tækjum upp umræður um að halda fram þeirri stefnu sem mótuð var með þáltill. 23. maí 1985 og reyndum að fylgjast með því sem er að gerast í þeim efnum núna í veröldinni og í samskiptum risaveldanna.

Ég er í sjálfu sér algerlega samþykkur því að Ísland hefði átt að greiða atkvæði með þessari tillögu, en ég lít ekki svo á að það sé eitthvert stórmál hvort Íslendingar fylgja slíkri tillögu eða ekki núna á þessum haustdögum þegar alveg ný sjónarmið hafa komið upp í sambandi við afvopnunarmál og kjarnorkumál í heiminum.

Við áttum þess kost í gær, hv. formaður utanrmn. og ég, að ræða við sérstakan sendimann Sovétstjórnarinnar sem kominn er hingað til lands til að kynna viðhorf, sjónarmið, niðurstöður og væntanlegar samningaviðræður um þessi efni í Genf. Það er augljóst mál að það er ekki lengur um að ræða frystingu kjarnavopna (Forseti: Hv. þm. er áminntur um að halda sig við umræður um þingsköp.) heldur stórfellda fækkun kjarnavopna og væntanlega útrýmingu þeirra, bæði strategískra og taktískra, ekki síðar en um næstu aldamót. Ísland á vissulega að láta til sín heyra á þessum vettvangi og styðja viðleitni risaveldanna til að ná samkomulagi um mál sem er miklu brýnna og miklu stærra en sú núlllausn sem við höfum verið flæktir í.