10.12.1986
Efri deild: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1438 í B-deild Alþingistíðinda. (1297)

231. mál, almannatryggingar

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Frú forseti. Þetta litla frv. fjallar um að breytt verði til meiri sanngirni tilteknu ákvæði í almannatryggingalögunum sem varðar börn og maka örorkulífeyrisþega er vistast langtímum saman á sjúkrahúsi eða annarra þeirra sem svo stendur á um að þeir séu vistaðir einhvers staðar þar að bætur - örorkulífeyrir eða eftir atvikum ellilífeyrir þá sjaldan svo ber við - trygginganna falla niður til þessara aðila. Þegar svo ber við geti sá maki sem sinnir börnum innan 18 ára aldurs fengið ásamt barnalífeyri, sem greiddur er í samræmi við gildandi ákvæði tryggingalaga, einnig mæðralaun eða eftir atvikum feðralaun ef það er faðir sem á í hlut og hefur umönnun barna með höndum.

Þegar örorkulífeyrisþegi vistast á langlegusjúkrahúsi eða dvalarheimili eru lífeyrisbæturnar ekki lengur greiddar út til hans heldur til stofnunarinnar. M.ö.o. þessir peningar, sem ella hefðu fallið til heimilisins, eru ekki lengur framfærslueyrir hins sameiginlega heimilis hans, maka hans og barna. Þegar um er að ræða einstætt foreldri greiða tryggingarnar mæðralaun eða eftir atvikum sams konar fjárhæð til feðra sem hafa með höndum umönnun barnanna. En þegar svo stendur á að makinn er á lífi en bætur hans falla niður vegna langvarandi sjúkleika og vistunar í stofnun eru engin mæðralaun greidd. Þetta legg ég til að verði leiðrétt.

Það eru fáir einstaklingar sem svona stendur á um, en með þessu mæla augljós sanngirnisrök. Í þessum hópi myndu einnig vera þeir sem hefðu fengið úrskurðaðan barnalífeyri vegna þess að makinn sætir gæslu- eða refsivist sem varað hefur a.m.k. þrjá mánuði þannig að þá er ekki um neinar aðrar tekjur til heimilisins að ræða en þær sem sá maki leggur til heimilisins sem sinnir börnunum.

Þetta er breyting til samræmis við það sem viðurkennt hefur verið árum og áratugum saman, að mæðralaun eigi að ganga til einstæðra foreldra vegna þess að þar er ekki önnur fyrirvinna á heimilinu. Þess vegna er þetta frv. flutt. Ég held að það verði engin vandkvæði á því að framkvæma þetta, ef að lögum verður, því að í lögum er alveg skýrgreint við hvaða hópa fólks er átt.

Ég vonast til þess að þessi litla breyting í sanngirnisátt geti orðið til að auðvelda þeim foreldrum er annast börn sín einir af þessum ástæðum, sem hér hefur verið lýst, að sjá sæmilega fyrir þeim og halda fyrir þau heimili.

Ég vil leyfa mér, frú forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og trn.