17.12.1986
Efri deild: 23. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1863 í B-deild Alþingistíðinda. (1689)

24. mál, lánsfjárlög 1987

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. vék að því ákvæði sem fjallar um heimild til að gera samninga um ráðstafanir vegna fjárhagsvanda nokkurra hitaveitna sem hér hafa verið til umræðu. Ég þarf ekki að rekja hér að fyrir ekki löngu fóru fulltrúar hitaveitna sem hér um ræðir þess á leit við ríkisstjórnina að efnt yrði til viðræðna í því skyni að finna lausn á fjárhagsvanda þeirra. Ríkisstjórnin skipaði þessa viðræðunefnd. Í henni áttu sæti fulltrúar frá iðnrn. og aðstoðarmaður iðnrh. var formaður og er formaður nefndarinnar. Auk þess sátu í nefndinni fulltrúar fjmrn. og forsrn.

Það liggur fyrir á þessu stigi málsins að viðræður þessar hafa ekki leitt til endanlegrar niðurstöðu og það hefur ekki orðið á þessu stigi málsins samkomulag um hverjar þessar ráðstafanir eru. Því er óskað eftir heimild af þessu tagi. Ef niðurstaða væri fengin væri hægt að gera nánari grein fyrir því í hverju ráðstafanir í þágu þessara hitaveitna gætu falist, en með því að niðurstaðan er ekki fengin er af augljósum ástæðum ekki unnt að greina frá niðurstöðunni. Það er ástæðan fyrir því að þessi almenna heimild er sett hér fram. Ég vænti þess að þessar viðræður haldi áfram og þess verði freistað að finna þá lausn sem báðir aðilar málsins geta sætt sig við.