19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2108 í B-deild Alþingistíðinda. (1986)

1. mál, fjárlög 1987

Tryggvi Gunnarsson:

Herra forseti. Fyrr í þessari umræðu í kvöld var ég hikandi við að biðja um orðið, vildi sem sé ekki tefja umræður eða þingstörf með mínum örfáu orðum. Nú sýnist mér komin af stað sú orðaelfur að ekki muni muna um smásprænu mína í því efni.

Nú er illt í efni, herra forseti. Nú vantar manninn sem ég ætla að svara, en ég ætla ekki að gera neina rekistefnu út af því. (GJG: Talaðu bara við hann á eftir. )

Fyrr í þessari umræðu í kvöld vék hv. 5. þm. Austurl. nokkuð að mér í ræðu sinni. Það kann að hafa verið af því að ég mun hafa verið einn í þingsalnum ásamt hæstv. forseta þannig að ég lá vel til höggsins eins og smámenni forðum sem Þorgeir Hávarsson skipti fljótt við. Ekki get ég þó sagt að hv. þm. hafi talað til mín með neikvæðum hætti, öðru nær. Lyftist ég allur í sæti mínu, sem ég sit þó allfast, við orð hv. þm.

Eftir því sem mér skildist taldi hv. þm. víst að ef ég vildi beita mér af mínum alkunna krafti gæti ég byggt upp flugvöllinn á Egilsstöðum einn og óstuddur. (GJG: Fyrir eigið fé.) Ég vildi gjarnan að svo væri, hv. 7. þm. Reykv. Hv. þm. veit vel og betur en ég hvernig unnið er að þessum málum í hv. fjvn. En ég minni hv. þm. á að ekki er langt síðan hann sat í ríkisstjórn sem ráðherra og það með miklu meira afl en hann telur mig hafa nú. Hvað dvaldi orminn langa þá?