19.12.1986
Sameinað þing: 35. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2163 í B-deild Alþingistíðinda. (2005)

1. mál, fjárlög 1987

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Það er ágætt hjá hv. forseta Sþ. og þingflokksformanni Sjálfstfl. að taka nú til að ræða kl. þrjú um nótt og ég vil allt að því segja halda uppi málþófi um þessa till. sína um byggingu þessa hrófatildurs út við Austurvöll, í Kirkjustræti.

Ég get upplýst hér að það er mikil andstaða í þingflokki Sjálfstfl. gegn þessari till., en hún var engu að síður lögð fram. Það á ekki að koma neinum á óvart, og allra síst formanni þingflokks, hv. þm. Ólafi Einarssyni, að menn séu á móti þessu og mæli á móti því. Það er sjálfsagt að halda uppi umræðum um þetta mál á þessum tíma sólarhrings. Það er líka ágætt hjá honum að halda því fram að þeir tali hæst sem enga þekkingu hafa á málinu. (Gripið fram í: Var það ekki?) Það var boðið upp á skoðun, ég man ekki nákvæmlega, kl. 10 eða 11 á mánudagsmorgni einn dag í sumar þegar flestir þm. voru út um hvippinn og hvappinn og þeir sem ekki höfðu þá tækifæri til þess að koma eru dæmdir menn sem ekki höfðu áhuga á málinu og nenntu ekki einu sinni að skoða málið. Mér finnst líka harla einkennilegt ef þessi glerhöll upp á milljarð eða svo er eina lausnin. Mér finnst þetta ljótt hús að auki og skoðaði það á teikningum og módelum eftir minni bestu vitund. Auk þess hef ég fengið fagmenn til að segja mér til, aðra fagmenn en þessa fjóra eða fimm sem hv. nefnd hefur haft tal af.

Við getum haldið þessum umræðum áfram lengi. Það er allt í lagi með það. Mér finnst það líka fyrir neðan allar hellur ef menn halda því fram að aðstaða starfsfólks batni ekki nema þessi milljarðahöll verði byggð, engin leið sé að bæta aðstöðu starfsfólks á annan hátt. Það tel ég fyrir neðan virðingu hv. þm. að taka þannig til orða.