20.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2390 í B-deild Alþingistíðinda. (2272)

Brottvikning fræðslustjóra í Norðurlandsumd. e.

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Hæstv. menntmrh. dáir fornbókmenntir okkar og var, ef ég man rétt, staddur í Víga-Glúms sögu miðri þegar honum var trúað fyrir ráðherraembætti fyrir tæpum fjórum árum. E.t.v. er hann enn á valdi Víga-Glúms sögu, hefur ekki mátt vera að því að hvíla æstan hugann við rólyndislegri lesningu. Hann ætti að gefa sér tíma til að líta í Bókina um veginn eftir spekinginn Lao Tse sem geymir mörg hollráð handa þeim sem fá stjórnartauma í hendur. Sem dæmi má nefna kaflann um hógværð og friðsemi sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Duglegur herforingi lætur ekki ófriðlega. Sá sem vopnfimastur er gengur ekki berserksgang. Mikill sigurvegari er ekki áleitinn. Góður foringi kemur sínu fram með hægð. Þannig er styrkurinn fólginn í því að deila ekki. Þannig verður mönnum stjórnað. Þetta er að fara veg himnanna, en það var æðsta takmark fornvitringanna.“

Slíkan texta þyrftu valdsmenn að lesa helst daglega. Líklega á hæstv. menntmrh. ekki þessa litlu bók, Bókina um veginn. Hans fyrirmyndir eru kappar fornsagnanna sem hjuggu mann og annan.

Það er nú orðinn árviss viðburður að hér fari fram umræður utan dagskrár um vinnubrögð hæstv. ráðh. Sverris Hermannssonar. Hann virðist eiga sérstaklega bágt í svartasta skammdeginu því þetta er nú í þriðja sinn sem við eyðum einum af fyrstu starfsdögum eftir þinghlé í utandagskrárumræður um embættisfærslu hans. Við minnumst snarpra umræðna í janúar 1985 þegar hann sem iðnrh. hundsaði lög um verndun Mývatns og taldi sig einráðan og einfæran um veitingu námaleyfis fyrir Kísilgúrverksmiðjuna í Bjarnarflagi. Við minnumst heitra umræðna utan dagskrár í janúar á síðasta ári vegna vanhugsaðra og ósanngjarnra aðgerða í málefnum Lánasjóðs ísl. námsmanna sem ekki eru enn til lykta leidd og verða vafalaust enn til umræðu áður en þetta þing er úti. Og enn stöndum við hér í orðaskaki í janúar vegna furðulegrar og forkastanlegrar embættisfærslu hæstv. menntmrh. sem virðist vilja gera orð Loðvíks XIV. Frakkakonungs að sínum: Ríkið, það er ég.

Okkur Kvennalistakonum hefur oft ofboðið hátterni hæstv. menntmrh. og segja má að brottrekstur fræðslustjóra í Norðurlandsumdæmi eystra hafi að eins verið dropinn sem fyllti mælinn. Á þingflokksfundi 15. jan. s.l. var samþykkt ályktun sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta, en hún hefur farið hljótt þótt send væri öllum fjölmiðlum:

„Kvennalistinn átelur harðlega vinnubrögð núverandi menntamálaráðherra Sverris Hermannssonar sem ítrekað hefur ofboðið réttlætiskennd manna á stuttum embættisferli með óréttmætum uppsögnum starfsmanna, furðulegum embættisveitingum, fautaskapi í samskiptum við námsmenn og skilningsleysi á þörfum landsbyggðarinnar.

Kvennalistinn fordæmir vinnubrögð menntamálaráðherra við uppsögn Sturlu Kristjánssonar, fræðslustjóra í Norðurlandsumdæmi eystra, og telur að með þeim aðgerðum lýsi hann vantrausti á skólastefnu á Norðurlandi og reyndar landsbyggðinni allri. Þannig spillir hann eðlilegu samstarfi skólamanna við ráðuneyti sitt.

Kvennalistinn telur síðustu atburði staðfesta vanhæfni núverandi menntamálaráðherra til að gegna stöðu sinni.“

Herra forseti. Þetta eru þung orð en því miður ekki tilefnislaus. Menntamál eru viðamikill málaflokkur sem snertir alla landsmenn með beinni hætti en flest önnur mál sem stjórnað er úr ráðuneytum. Það varðar því miklu að í menntmrn. haldi um taumana maður sem kann að umgangast fólk.

Sverrir Hermannsson er litríkur maður og orðheppinn. Hann er vafalaust duglegur og atorkusamur og mundi sóma sér vel í margvíslegum störfum. Sem menntmrh. minnir hann á fíl í glervörubúð.

Herra forseti. Ég ætla ekki að rekja í löngu máli atburðarás í sambandi við brottrekstur Sturlu Kristjánssonar sem er tilefni þessarar umræðu utan dagskrár. Það hefur þegar verið gert og hæstv. menntmrh. hefur nú loks látið svo lítið að reyna að skýra sína hlið málsins og notaði til þess langt mál og misgott. Hann vitnaði m.a. í bréf allt frá 1980. Þar var ýmislegt sagt sem vissulega er umdeilanlegt en hafi mönnum ofboðið þá, hvernig má það vera að fræðslustjóri héldi þá embættinu? Er það aðeins núverandi menntmrh. sem kemur auga á það sein miður fer? Hins vegar hvarflaði það að manni þegar hæstv. ráðh. vitnaði í bréf Sturlu, þar sem hann sýnir fjárlögum litla virðingu, að ekki mun Sturla Kristjánsson hafa verið einn um það viðhorf og um þessar mundir var áreiðanlega með erfiðasta móti að taka mark á fjárlögum.

Það er erfitt að skilja réttmæti ásakana ráðherra um vonda fjármálastjórn og enn erfiðara að skilja það sem brottrekstrarsök þótt farið sé fram úr áætlun sem telur hundruð milljóna og hlýtur alltaf að byggjast á breytilegum forsendum. Hvað þá með ótal aðra starfsmenn ríkisins? Má þjóðleikhússtjóri eiga von á uppsagnarbréfi bráðlega? Verður útvarpsstjóri rekinn fyrir að fara langt fram úr fjárhagsáætlun? Á að reka núverandi framkvæmdastjóra Lánasjóðs ísl. námsmanna þótt honum hafi ekki tekist að lækka rekstrarkostnað sjóðsins fremur en fyrirrennara hans sem hæstv. menntmrh. rak fyrir rúmu ári? Á að reka alla sem bera ábyrgð á því að ekki tókst að draga úr launakostnaði vegna yfirvinnu um 150 millj. kr. á síðasta ári eins og áformað var í fjárlögum? Hver á þá að fjúka í ráðuneytinu sjálfu? Ekki tókst að spara þar samkvæmt áætlun.

Á bls. 223-224 í fjárlagafrv. sem við afgreiddum fyrir þinghlé er hækkun til aðalskrifstofu ráðuneytisins skýrð. Í niðurlagi skýringar segir svo, með leyfi forseta: „Að frátöldum þessum tveim skýringum hækka laun um 28% frá fjárlögum 1986 og er áætlað fyrir nokkurri aukningu yfirvinnu í samræmi við reynslu undanfarinna ára. Önnur gjöld vegna rekstrar hækka sem næst 36% frá fjárlögum. Hefur verið tekið tillit til niðurstöðutalna arsins 1985 og fyrstu mánaða ársins 1986. Helstu liðir sem hækka eru húsaleiga, risna og ýmis þjónusta.“

Já, þar höfum við það. Skilningurinn er í lagi hjá hæstv. ráðherrum þegar um rekstur eigin skrifstofu er að ræða. Það dugir ekki að láta skorta á yfirvinnu og risnu hjá yfirmanni menntamála. Toppurinn í píramítakerfinu verður að fá sitt. Aukafjárveitingar til aðalskrifstofu ráðuneytisins voru komnar yfir 9 millj. kr. í október s.l. og er ekki að vita nema eitthvað hafi bæst við síðan þá. Af þessum rúmlega 9 millj. kr. eru tæpar 8 millj. kr. sagðar vegna greiðsluerfiðleika á árinu 1986. Ekki hefur það verið skýrt frekar svo að ég viti en vafalaust hefur hæstv. ráðh. það á hreinu í hverju þessir erfiðleikar voru fólgnir og er nú rétt að spyrja hann þess beint: Af hverju stöfuðu þeir greiðsluerfiðleikar á árinu 1986 sem urðu til þess að aðalskrifstofa menntmrn. þurfti að fá a.m.k. 7,9 millj. kr. aukafjárveitingu á síðasta ári?

Við hljótum að spyrja hvort „fjármálaleg umsýsla“ eins og það er orðað í uppsagnarbréfi Sturlu Kristjánssonar sé mjög frábrugðin slíkri umsýslu í öðrum fræðsluumdæmum.

Ég hef hér ríkisreikning fyrir árið 1985 þar sem tölur eru bornar saman úr fjárlögum 1985 og niðurstöðutölur reikninga. Þar eru margar tölur sem ekki standast á sem vonlegt er. Ég nefni sem dæmi, úr því við erum að tala um grunnskóla hér, að grunnskólar í Reykjavík fóru rúmar 93 millj. kr. fram úr áætlun og í launa- og starfsmannaútgjöld rúmar 83 millj. Grunnskólar á Reykjanesi fóru rúmlega 56 millj. kr. fram úr fjárlögum. Grunnskólar á Vesturlandi rúmar 22 millj. kr. Grunnskólar á Vestfjörðum tæplega 12,5 millj. kr. Grunnskólar á Norðurlandi vestra rúmlega 21 millj. kr. Grunnskólar á Norðurlandi eystra 37,8 millj. kr. Grunnskólar á Austurlandi rúmar 17 millj. kr. Grunnskólar á Suðurlandi 35 millj. rúmar. Þetta er almennur rekstur.

Hér er mikið um framúrakstur en hraðinn mismikill. Ástæður geta verið ýmsar, m.a. er vitanlega um ófyrirséðar launa- og verðlagshækkanir að ræða en þær skýra ekki allt og það má undarlegt heita að þolinmæði hæstv. menntmrh. þryti þá fyrst við fræðslustjórann í Norðurlandsumdæmi eystra þegar hann var farinn að vinna innan heimildarramma ráðuneytisins eins og hv. málshefjandi benti á hér í ræðu sinni áðan.

Ekki virðast aðrir fræðslustjórar á landinu telja Sturlu Kristjánsson vantrausts verðan. Þeir hafa treyst honum til forustu í sínu félagi og þeir hafa ályktað einróma gegn brottrekstri hans. Fræðsluráð stendur að baki Sturlu og krefst þess að fá að taka á sig þá ábyrgð sem því er ætlað með lögum og reglugerðum. Fræðslustjóri í Norðurlandi vestra lýsir samábyrgð á hendur sér vegna eins af sakarefnum sem gefin eru í uppsagnarbréfi til Sturlu. Starfsfólk fræðsluskrifstofu Norðurlands eystra stendur einhuga að baki Sturlu. Kennarafélag Menntaskólans á Akureyri hefur ályktað og lýst undrun og vanþóknun á framkomu ráðherra og sama er að segja um skólamenn vítt og breitt um fræðsluumdæmið og víða annars staðar á landinu. Fjórðungssamband Norðlendinga vítir gerðir ráðherra í ályktun sinni. Morgunblaðið fjallar af tillitssemi og varúð um málið, tillitssemi í garð hæstv. menntmrh., en getur ekki leynt áhyggjum vegna aðgerða hans. Kennarasambandið, Skólastjórafélagið og Hið íslenska kennarafélag hafa ályktað um málið og gagnrýnt ráðherra harðlega. Þetta er nú liðið sem hæstv. menntmrh. kallaði hyski í ræðu sinni hér áðan. Og þannig má áfram rekja viðbrögð við þessari dæmalausu framkomu hæstv. menntmrh. sem hér er nú til umræðu.

Herra forseti. Við höfum heyrt ýmis rök í þessu máli. Sjónarmið fræðslustjóra og þeirra sem með honum standa eru nokkuð ljós. Hæstv. menntmrh. hefur skýrt sín sjónarmið. Engan hef ég heyrt samsinna ráðherra né mæla framferði hans bót nema tvo menn sem hringdu í Bylgjuna s.l. sunnudag og sögðu að þarna færi sinn maður, það þyrfti sko að stjórna. Spurningin nú er sú hvort nóg er að gert í þessu máli. Eru þessar skýringar viðsættanlegar? Hefur allt komið fram sem hér býr að baki og hafa þessar skýringar við rök að styðjast?

Það er óhætt að segja að þessarar stundar hafi verið beðið með eftirvæntingu. Hæstv. menntmrh. lét sem hann hefði eitthvað um málið að segja. Útskýringar hans hafa litlu breytt þótt seilst hafi verið langt aftur í tímann. Umræða eins og hér fer fram er aðeins einn þáttur þessa máls, aðferð til að létta á þrýstingi og pína fram einhverjar skýringar.

Við Kvennalistakonur teljum þetta mál hér með ekki útrætt. Við tökum eindregið undir kröfur kennarafélaganna og sem hv. málshefjandi, hv. 4. þm. Norðurl. e., hefur tekið undir og fleiri hér í umræðunni um hlutlausa rannsókn málsins þar sem öll málsatvik verða skoðuð til hlítar, vegin og metin. Hér er um svo alvarlegan trúnaðarbrest að ræða milli forsvarsmanna fræðslumála í landinu og æðsta yfirvalds menntamála að útilokað er fyrir alla aðila að búa við slíkt. Hér stendur staðhæfing gegn staðhæfingu í hverjum málslið á fætur öðrum og öllum fyrir bestu að fá hið sanna upp á borðið.

Orð hæstv. menntmrh. eru enginn endanlegur dómur í málinu og ég fagna því að hann skyldi lýsa því yfir hér áðan að hann vildi fá þetta mál rannsakað. Ég tek hins vegar undir með hv. síðasta ræðumanni að betur hefði farið á því að ráðherra sættist á brottvikningu fræðslustjóra um stundarsakir á meðan rannsókn færi fram. Ég teldi það eðlilegri og betri leið en að sækja málið fyrir dómi. Ég leiði engum getum að því hverjar niðurstöður yrðu af slíkum málarekstri. Sannleikurinn verður að koma í ljós og réttlætið að hafa sinn gang. Hæstv. menntmrh. hefur látið mörg orð falla í fjölmiðlum undanfarna daga og bætti nú heldur um betur í umræðunum núna. Hann hefur jafnvel lýst áhyggjum sínum yfir því að saklaus börn séu látin líða fyrir þetta mál, undir það skal tekið af heilum hug, en hæstv. menntmrh. verður að líta í eigin barm í leit að þeim sökudólgi sem truflar eðlilegt skólahald í Norðurlandsumdæmi eystra.

Herra forseti. Í upphafi máls míns vitnaði ég í Lao Tse. Í Bókinni um veginn segir sá mikli spekingur, með leyfi forseta:

„Að þekkja fáfræði sína er hið æðsta. Að þekkja hana ekki en hyggja sig fróðan er sjúkdómur.“