20.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2410 í B-deild Alþingistíðinda. (2278)

Brottvikning fræðslustjóra í Norðurlandsumd. e.

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í viðtölum við mig í fjölmiðlum hef ég ekki verið sáttur við hvernig hæstv. menntmrh. stóð að uppsögn fræðslustjóra Norðurlandsumdæmis eystra. Hæstv. menntmrh. hefur nú gert grein fyrir þeim forsendum sem hann lagði til grundvallar uppsögn fræðslustjórans og kom þar margt fram sem ég vissi ekki áður og heyrði nú í fyrsta skipti. Ég mun að sjálfsögðu lesa ræðu hæstv. menntmrh. vandlega og kynna mér að öðru leyti gögn málsins og kjarna þeirrar deilu milli fræðsluráðs, fræðslustjóra og menntmrn. sem endað hefur með svo hörmulegum hætti. Ég hefði kosið að þar hefði verið unnt að koma málamiðlun við.

Ég hlýt að segja að í umfjöllun hæstv. ráðh. um sérkennslu hafi mér fundist anda köldu til sérfræðinga og uppeldisfræðinga sem að fræðslumálum vinna. Af persónulegum kunnugleika mínum af hæstv. ráðh. fullyrði ég að þar sé hita augnabliksins um að kenna en ekki hinu að hann kunni ekki að meta og skilja þá þýðingu sem þáttur stuðnings- og sérkennslunnar hefur í almennu skólastarfi. Ég tel jafnframt nauðsynlegt að fram komi að ég ber fullt traust til þeirra sérfræðinga á fræðsluskrifstofu Norðurlands eystra sem greina þörf fyrir sérkennslu og fylgjast með framkvæmd hennar.

Það er vitaskuld rétt að í starfi að fræðslumálum sem öðrum verður að halda sér innan þess ramma sem fjárlög og aukafjárveitingar marka. Jafnljóst er að réttur barna til stuðnings- og sérkennslu á að vera hinn sami hvar sem þau búa á landinu. Það er ánægjulegt að mikið hefur unnist í þeim efnum á allra síðustu misserum og verður að vinna að því áfram eftir því sem greining barna fyrir þörf slíkrar kennslu miðar áfram.