22.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2451 í B-deild Alþingistíðinda. (2303)

Brottvikning fræðslustjóra í Norðurlandsumd. e.

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég mun í upphafi þessarar framhaldsumræðu tala stutt mál og ekki efnislega neina að einu leyti, sem ég kemst ekki hjá að orðfæra. Þau hafa nú tíðkast hin breiðu spjótin í þessari umræðu og ég hef ekki treyst mér til annars en að mæta ásökunum, ákærum um valdníðslu og lögbrot, af fullri hörku. En ræða mín er nú einkum til þess ef menn gætu hugsað sér að draga úr þessum fyrirgangi því ekki bætir hið háa Alþingi sérstaklega við hæð sína í virðingu af þeim sökum. Hér hlýtur þetta mál að ganga sína eðlilegu leið sem lög marka því og menn ættu kannske að beita þolinmæði á meðan.

Ég kemst ekki hjá að nefna eitt atriði. Ég var þegar í stað borinn þeim sökum að hafa flutt hinu háa Alþingi rangar upplýsingar í skýrslu minni eða ræðu sem ég flutti hér í fyrradag, af formanni fræðsluráðs Norðurlandsumdæmis eystra, Þráni Þórissyni, og fyrrv. fræðslustjóra, Sturlu Kristjánssyni, þar sem ég hafði haldið því fram að ákvarðanir og framkvæmdir í húsnæðismálum fræðsluskrifstofunnar hefðu verið með öllu undirbúnar og teknar ákvarðanir um fjárfestingar án nokkurs samráðs við ráðuneytið. Þessu var á bls. 37 í Morgunblaðinu í viðtali við báða þessa menn af þeim vísað á bug sem röngu og ósönnu. En Ríkisútvarpið, eins og menn hafa kannske heyrt, gerði sér hægt um vik og sannaði með öllu að þeir fóru með rangt mál. Ég skil ekki hvernig þetta má vera. Nema að mönnum detti í hug að hægt sé að skjóta undan eða skýla fundargerðum fræðsluráðsins. En þær fundargerðir höfðu verið sendar Hallgrími Skaptasyni, sem er eigandi húsnæðisins, til staðfestingar á því að samningur væri gerr á milli þessara aðila um þessi húsnæðismál. Og skiptir litlu máli í þessu sambandi þessi ákvörðun án samráðs við ráðuneytið og er eitt örlítið dæmi af allri súpunni um hvernig á málum var haldið, var á núvirði 4 millj. kr. og hlutur ríkisins 2,7 millj. kr. Það er þó drjúgum meira en við að jafnaði treystum okkur til þess að sjá af til framkvæmda hinna ýmsu grunnskóla, svo ég nefni það sem dæmi, og fjvn. hefur sem mest að vinna við að skipta á haustdögum. (Gripið fram í: Hvenær skeði þetta?) Þetta er í júnímánuði 1981 sem ákvarðanir eru teknar í fræðsluráðinu. Ég get ekki betur séð en það hafi verið niðurstaða þeirra félaga að reyna að koma sök að þessu leyti á þann sem tók við fræðslustjóraembættinu, Ingólf Ármannsson, vegna þess að það er 25. september sem hann undirritar þetta með leyfi ráðuneytisins af því að ráðuneytið taldi að ella yrði það stórlega skaðabótaskylt ef það gengi ekki inn í þennan samning. En allt gengur þetta fyrir sig í júnímánuði og þá er gengið frá öllum þessum hlutum og stofnað til þessa kostnaðar. En að sjálfsögðu, þegar Ingólfur kemur að embættinu vegna leyfis sem hæstv. þáv. menntmrh. veitti Sturlu Kristjánssyni að taka við skólastjóraembætti á Þelamörk, þá kemur hann að embætti, Ingólfur, til bráðabirgða og rekur þá þegar í stóra strand með þessa fjárfestingu og upplýsir ráðuneytið um hvað framkvæmt hafi verið. Allt er þetta bókað í bak og fyrir þannig að það þarfnast ekki lengri umræðu. En ég mátti til að segja frá þessu hér líka vegna þess að ég hef sagt að þótt fræðsluráð vilji, og ég sé þess albúinn að reyna að leysa vanda starfsemi fræðsluskrifstofunnar til bráðabirgða og fræðsluráðið hafi raunar gert tillögu um mann til þess, sem ég hef ekkert á móti og vil athuga, en ég treysti mér ekkert að svo komnu og við svo búið að starfa með eða taka við tillögum frá formanni fræðsluráðs Norðurlandsumdæmis eystra, Þráni Þórissyni, fyrr en hann hefur gefið fullgildar skýringar á og/eða beðist fullkominnar afsökunar á slíku ótrúlegu framferði eins og þarna átti sér stað, í andsvörum við þeirri skýrslu sem ég hafði þar flutt. Og læt ég nú þessu atriði lokið.

En til mín hafa leitað menn úr mörgum stjórnmálaflokkum þeirra erinda að spyrjast fyrir um hvort þrátt fyrir réttmæti brottrekstursins sé ekki fært að koma málum svo fyrir vegna fjölskylduaðstæðna mannsins, Sturlu Kristjánssonar, að hann standi ekki uppi algjörlega tekjulaus meðan hann er að finna sér nýtt starf. Þetta atriði var mér töluverð hugraun í sambandi við ákvörðun mína um brottvikninguna. Hin köldu lög tilkynntu mér að hjá því yrði ekki komist að nema nafn Sturlu af launaskrá þegar í stað og skýring ríkislögmanns var sú að ella, ef ég héldi honum og mælti með að halda honum á launaskrá, sem ég hélt nú að væri manneskjulegt, yrði það e.t.v. notað í málarekstrinum sem rök þess efnis að ég hefði ekki talið mig alveg vissan upp á mínar hendur um að hún væri á fullkomnum rökum reist, þessi ákvörðun um brottvísun. Þetta er álit lögfræðinganna og ríkislögmanns í þessu falli. Ég hef þess vegna mikla samúð með þessum aðstæðum þó ég standi fast á þeirri skoðun minni að gerðir mínar hafi í hvívetna verið lögmætar og réttmætar og óhjákvæmilegar þar sem ég fékk engu um þokað í afstöðu fyrrv. fræðslustjóra til málanna. Því mun ég nú beita mér fyrir því við fjmrh. að sérstök fjárveiting fáist til að greiða manninum, Sturlu Kristjánssyni, fjárhæð sem svarar u.þ.b. þriggja mánaða launum, án þess þó, og það tek ég skýrt fram, að í því felist nokkur viðurkenning á að brottvikningin hafi ekki í hvívetna verið lögmæt. Þetta vildi ég að fram kæmi í upphafi framhaldsumræðunnar nú.

Mönnum er það auðvitað sjálfrátt að hefja þræturnar á nýjan leik eins og lund þeirra liggur til. Ég verð þá að taka þátt í henni að mínu leyti eins og ég tel þörf á, enda þótt ég hafi frá upphafi farið fram á það að menn spöruðu hin stóru orðin og gættu fyrst að staðreyndum eins og þær standa til, vegna þess að þetta er bara fyrsta spilið í borginni sem þarna hrynur og þeim verður á að reyna að byggja á um fjárreiður og fjárfestingar í sambandi við húsaleigumálið. Allt er þetta á eina bók lært, því miður, og í raun og veru er hið háa ráðuneyti í sök að því einu leyti að hafa látið þessa ósvinnu viðgangast um svo langa hríð, svo sem fram kom hér í skýrslum og eigin orðum þess sem hér á hlut að máli.

Það er þess vegna von mín að menn stilli aðeins ákafann og bíði þess, sem hlýtur að verða vegferð þessa máls, að þeir sem telja sig hafa verið órétti beitta fari lögverndaða leið að leita réttar síns, svo sem segir í lögum um opinbera starfsmenn og er að finna í 11. gr. þeirra laga. Aðrar aðferðir eru ekki ásættanlegar eins og menn hljóta að skilja, því að þessa aðferð hefur Alþingi hið háa sjálft markað og getur ekki tekið neina nýja afstöðu til úrskurðar málum, í þessu falli frekar en öðru, þótt vald þess sé auðvitað ótakmarkað að bregða á þau ráð sem því svo kann að sýnast. En ég hygg að meiri hluti Alþingis, og hef reyndar rökstuddan grun um það, að meiri hluti Alþingis muni ekki hlíta slíkum tillögum.