22.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2461 í B-deild Alþingistíðinda. (2306)

Brottvikning fræðslustjóra í Norðurlandsumd. e.

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Ég hlýt að grípa aðeins við orði þegar hv. fyrirrennari minn hefur flutt ræðu með þeim hætti sem hann gerði hér. Hann talaði um og skoraði á að ég beitti mér fyrir því að slíðra sverðin. Sjálfur hagaði hann máli sínu með þeim hætti að það var í þykjustunni sem hann endaði þannig ræðu sína. Ég kom upp að vísu í upphafi fundar og þóttist þá aðeins vera að sveigja að því hvort menn gætu hugsað sér um hríð að setja niður deilur meðan réttir dómstólar taka málið fyrir til meðferðar og annaðhvort dæma mig fyrir lagabrot og valdníðslu eða sýkna mig, því að annað hvort verður að vera. Ég get ekki gengið öðruvísi til leiksins en að ég fái uppreisn æru því að ég er borinn þeim sökum að brjóta lög og beita valdníðslu. Við það get ég ekki búið. Og hvernig má það vera að þeir sem í hlut eiga skuli ekki leita réttar síns eftir lögvarinni leið?

Hvernig má þetta vera? Það stendur skýrum stöfum hvernig með skuli fara. Hvaða bögglingur er þetta eiginlega? Vantreysta menn íslenskum dómstólum?

Ég hef enga löngun til þess að standa yfir höfuðsvörðum eins eða neins. En ég gef ekki mannorð mitt laust baráttulaust. Hef ég brotið lög eða hef ég beitt valdníðslu? Um þetta verður að fást úrskurður. Og ég ítreka að ef þeir sem þykjast órétti beittir hliðra sér hjá að leita réttar síns verður ekki á það litið nema með einum hætti og þeir verða þá að búa við að svo sé gert.

En mig undrar ræða hæstv. fyrrv. menntmrh. því að mér virðist sem guð hafi búið hann út með fleiri hæfileika en gleymsku því að heyrnarleysi hlýtur hann að hafa verið sleginn undir allri umræðunni. Hann veit ekkert hvað er verið að tala um þegar ég er að bera af mér sakir í sambandi við húsnæðið sem tekið var á leigu. Ég skýrði frá því á hinu háa Alþingi í gær sem dæmi um að fyrrv. fræðslustjóri hefði virt að vettugi allt samband og samráð við ráðuneytið að hann hafi tekið á leigu og stofnað til stórfellds fjármagnskostnaðar án þess nokkru sinni að hafa samráð og samband við ráðuneytið. Þetta var það sem ég sagði og skýrði Alþingi frá. Bæði formaður fræðsluráðs og fyrrv. fræðslustjóri sögðu að ég færi með ósannindi. Hristir hv. þm. höfuðið yfir því? Þetta er að finna í viðtölum við þá í Morgunblaðinu í gær á bls. 37. Þeir segja að ég fari með ósannindi að þessu leyti. Hvað svo? Fréttamaður Ríkisútvarpsins leikur sér að því að reka þetta öfugt ofan í þá. Hann finnur fundargerðir fræðsluráðsins frá því í júnímánuði 1981 þar sem allar þessar ráðagerðir eru samþykktar og Ingólfur Ármannsson, þegar hæstv. þáv. menntmrh. gaf Sturlu Kristjánssyni frí til að fara að stjórna skóla á Þelamörk, tekur við embættinu og rekur í rogastans og kemst hvorki lönd né strönd með allan kostnaðinn vegna þess að það var enginn til að borga hann því að ráðuneytinu hafði aldrei verið gert viðvart um hann. Og ráðuneytið, eins og ég sagði, ef ég þarf að tyggja það ofan í hv. 1. þm. Norðurl. e., ákvað að láta sér það lynda þótt svona væri unnið í heimildarleysi og undirskrifa samninginn við Hallgrím Skaptason. Ég ætla ekkert að efast um að fyrirrennari minn hafi gert það. Þetta hlýtur að hafa verið borið undir hann. Og ég er heldur ekki að gagnrýna það að hann skyldi láta sér þetta lynda. Ég var bara að geta örfárra atriða. (IG: Afgreitt mál.) Þetta voru aðeins örfá atriði sem ég nefndi um hvernig hegðun þessa fræðslustjóra hefði verið þar sem hann áleit sig fara einn með öll völd og hann þyrfti ekki að spyrja ráðuneytið um eitt né neitt.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. gagnrýnir mig fyrir sambandsleysi og segir að það sé stórlega aðfinnsluvert sambandsleysi mitt við fræðslustjórann og formann fræðsluráðs. Hann hefur ekki verið að hlusta þegar ég las yfir honum bókanir ráðuneytisstjóra og skrifstofustjóra skólaskrifstofu. Með leyfi forseta:

„Fræðslustjóri var spurður hvort hann hefði ekki talið eðlilegra að freista þess að fá leiðréttingu fyrir umdæmið með því að ganga á fund ráðherra og rökstyðja við yfirmann sinn þá rangsleitni sem fræðsluumdæmi hans var beitt að hans mati. Fræðslustjóri kvaðst ekki hafa gert tilraun til þess að ná fundi ráðherra frá því s.l. vor og kom fram í máli hans að hann taldi aðrar aðferðir árangursríkari til þess að fá áætlun menntmrn. til fjárlaga breytt.“

Svo kemur önnur tilvitnun þar sem hann telur það sjálfsagt að hafa farið á fund hv. 1. þm. Norðurl. e. með þetta plagg hérna og annarra þm. Það er ein af þessum sérstöku aðgerðum sem hann grípur til, þessum séraðgerðum, af því að hann vill ekki hafa samband við ráðherrann. En áfram segir:

„Var honum enn bent á að eðlilegra hefði verið fyrir hann sem embættismann ríkisins að leita til yfirmanns síns“ - með innihald plaggsins (þessara níðskrifa hérna). „Svaraði hann því til að hann hefði verið sannfærður um það frá því s.l. vor og sama gilti um fræðsluráð Norðurlands eystra að tilgangslaust væri að leita leiðréttingar hjá menntmrh. og því hefði þurft að finna aðrar leiðir.“

Og hverjar eru þær? Við heyrðum árangurinn á máli hv. þm. þar sem upp úr honum stóð strókurinn um það að þessu umdæmi væri mismunað, að Sverrir Hermannsson tæki ekki tillit til barna með sérþarfir í umdæminu, að það væri sniðgengið með þessa fyrirgreiðslu og, eins og hann sagði, að ég hefði af ráðnum hug haft þetta umdæmi út undan. Þetta eru fullyrðingar sem ná engri átt, staðlausir stafir. En hann hefur hlustað á þennan áróður því að hann dundi í allt haust í öllum fjölmiðlum þar sem því varð við komið. Þessar aðrar aðferðir gagnvart menntmrn. voru m.a. þær að boða til blaðamannafundar um trúnaðarmál sem átti að ræða í fræðsluráðunum og meðal fræðslustjóranna og lýsa þar með hve herfilegum hætti ég ofsækti þetta umdæmi, Norðurland eystra, eins og það er trúlegt eða hitt þó heldur, að þessu leyti og þar var miðað við, sagt frá: Hann er að auka við á Austurlandi. Þar jók ég úr einhverjum 440 stundum upp í 490. Hann er að auka við í Reykjavík. Þar var aukið úr 2430 stundum í 2489. En hann er að skera niður Norðausturland. Og þá tók hann áætlunartöluna sína, 1403 stundir, og setur þær í 700. En árið áður voru þetta 640 stundir og ekki hækkað að tiltölu við neitt umdæmi annað eins. Og hann kom suður í ráðuneyti loksins, laumaðist þar baka til án þess að ég vissi um, og ég gaf mínum mönnum heimild til þess að auka um 120 stundir aukalega við hann. Þessi hv. þm. virðist ekkert vita af því að við afgreiðslu fjárlaga náðist fram veruleg fjárhæð til þess sérstaklega að hygla þessu umdæmi umfram önnur. Lengi skal manninn reyna.

En þessi hæstv. fyrrv. ráðh. hefur haft sérstakar skoðanir á því hvernig ætti að halda á málum. Það er ekki mitt mál og þykir mér verra að vera til þess að vitna. Mitt mál er það ekki þegar hann rak þennan fræðslustjóra frá Þelamerkurskóla. Manni virtist það bara vera gert til að sparka honum upp á við því að hann taldi sjálfsagt, hv. þm., að setja hann yfir fræðslumál í umdæminu, mann sem hann rak með eigin hendi frá því að stjórna litlum skóla í umdæminu. Þessi var aðferðin. Félagi hans og mikill vinur minn, Sigurður Óli Brynjólfsson, sagði af sér formennsku í fræðsluráðinu við endurkomu þessa manns. Það var samþykkt með 4:3 atkvæðum í fræðsluráðinu að hann kæmi aftur og fólkið sem var þar reis allt upp, en hann gerði því skiljanlegt að það væri ekki velkomið og er búið að reka alla nema tvo af þeim sem þá voru þar. Það er gaman að þurfa að rifja þetta allt saman upp þar sem persóna sem á í miklum erfiðleikum á í hlut. Það er gaman að þurfa að standa hér og öskra út af þessu ódæma máli eins og það liggur fyrir og menn slíkir aumingjar vegna atkvæðanna sem þeir hyggja að séu í boði að þeir þora ekki að segja sannleikann og tala eins og menn og manneskjur um málin. Og maður má liggja undir þessum ásökunum eins og hér gefur á að líta. (SvG: Er það Ingvar sem er aumingi?) Hann er kominn frá útlöndum, þessi, að láta að sér kveða í málinu og það er eftir að vita hvaða sanngirni stendur upp af honum, (SvG: Hyskið er mætt.) vita hvort í Alþb. syðra er álíka fólk og gefur á að líta í hópi nokkurra kennara nyrðra þar sem hefur forustuna Benedikt nokkur Sigurðarson. Og ég gæti flett upp á dreifibréfum hans ef svo ber undir.

En ég vildi aðeins biðja, án þess að lengja þessa ræðu um of, hv. fyrirrennara minn að fletta upp í grein sem birtist á dögunum frá fyrrv. ráðuneytisstjóra. Það er kannske nokkuð seint fyrir hann nú. Þetta hefði hann þurft að kynna sér áður en hann varð ráðherra. Jón Sigurðsson heitir hann og var í fjmrn. í lengri tíð. Ég tek tilvitnun, forseti:

„Ráðherra, sem ber ábyrgð á framkvæmd laga af þessu tagi eins og grunnskólalögum, verður að miða þá framkvæmd við fjárveitingar fremur en lög ef hann á annað borð vill standa í ístaðinu í sínu starfi. Sama máli gegnir um einstaka embættismenn sem starfa á ábyrgð ráðherra. Fjárveitingar fela í sér stefnu innan ramma þeirrar viljayfirlýsingar sem lögin með þessum hætti verða. Embættismenn eru til þess ráðnir að framkvæma þessa stefnu á ábyrgð ráðherra síns og undir hans umsjón. Það er því ljóst að þessi embættismaður hefur tekið sér fyrir hendur að ganga fram fyrir skjöldu og berjast opinberlega fyrir og framkvæma stefnu sem fjárhagslegar heimildir frá Alþingi voru alls ekki til fyrir.“

Gefandi út 22 stöðuheimildir umfram það sem við höfðum á fjárlögum, umfram það sem ráðuneytið varð að tilkynna að til skiptanna væri miðað við fjárlög. „Hann hefur tekið sér umboð, þessi starfsmaður ráðuneytisins, sem enginn hefur veitt honum til að marka stefnu með því að ráðskast með fjármuni eins og honum þótti æskilegt.“ En ekki innan þess ramma sem hin stjórnmálalegu yfirvöld settu, ekki ég eða menntmrh. heldur fjvn. og allt Alþingi endilangt. „Embættismaðurinn var umboðslaus farinn að vinna eins og hann færi með stjórnmálalegt vald sem Alþingi eitt hefur að stjórnlögum.“ (Gripið fram í: Var þetta tilvitnun í Jón Sigurðsson?) Já.

Málið snýst, segir hv. 1. þm. Norðurl. e., um skólamálastefnu. Deilan snýst um það fjármagn sem verja á til sérkennslu. Og þar kemur að þessu höfuðatriði baráttunnar við menntmrh. og ráðuneytið að það kynni ekkert að meta þörfina hjá börnum sem eiga bágt. Þetta snýst um það þótt við höfum sérstaklega lagt okkur fram um úrbætur í þeim efnum og þrátt fyrir það að á tíu árum hefur hið háa Alþingi aukið framlög til þessara þarfa um hundruð milljóna. Og það er auðvitað ekki að ástæðulausu heldur vegna þessara brýnu þarfa. Það eru allir sammála um að hér er verkefni sem hið háa Alþingi verður að veita auknu fjármagni í. Ég hef aðeins haft með að gera undirbúning einna fjárlaga fyrir menntmrn., þeirra sem við erum að byrja að framkvæma. Ég tók við hinum fullbúnum af hálfu menntmrn. og hv. 1. þm. Norðurl. v., formaður fjvn., getur um það borið að ég hafði ekki minnstu áhrif á niðurstöður þeirra við afgreiðslu fjvn., ekki hin minnstu. Ég fékk ekki einu sinni ráðið forfæringu á einni milljón til eða frá. Þannig var mér haldið í þeirri bóndabeygju og ég get sannað þetta, það vill svo til.

En það er afskaplega slyngur áróður að halda þessu fram og það hefur gengið mjög vel að fá fólk til að hlusta á þetta. En heilindin og sanngirnina í þessu geta menn auðvitað dæmt um.

Og á hverju er það byggt að Norðurland eystra skuli vera afskipt og haft út undan? Byggt á þeim niðurstöðum að þar séu helmingi fleiri börn sem eigi við þennan vanda að stríða en til að mynda í Reykjanesi. Þetta liggur alveg ljóst fyrir. Norðurland eystra hefur hærra hlutfall, auðvitað ekki en Reykjavík sem hafði undirbúið þetta og komið þessu öllu í framkvæmd sjálf 1970 og hefur eiginlega ekkert verið aukið við síðan 1977, en í Norðurlandi eystra hafa sálfræðingarnir úrskurðað, sálfræðingar fræðsluskrifstofunnar sem eru fimm að tölu fyrir utan fyrrv. forstjóra, þeir hafa fundið helmingi fleiri börn sem þurfa á þessari sérmeðferð að halda en Helgi Jónasson fræðslustjóri Reykjanesumdæmis og hefur hann þó níu sálfræðinga í sinni þjónustu sem ég veit að draga ekki af sér. (Gripið fram í: Hver er hugsanleg skýring á þessu?) Hugsanleg skýring? Ég leiði ekki getum að þessu. Ég veit að hún er ekki sú að það sé eitthvað verr gefnara fólk á Akureyri og um Þingeyjarþing en annars staðar.

Það getur vel verið að á skorti á Austurlandi úttekt á þessum málum að ekki hafi verið rannsakað nógu grandgæfilega og fundnir allir þeir unglingar sem á þessari sérumönnun þurfa að halda, enda er þetta hlutfall á Norðurlandi eystra þrefalt hærra en á Austurlandi. Svona eru allar þessar tölur fundnar út. Ég hef ekki nokkra aðstöðu til að segja og fullyrða að þetta sé rangt. En þeir sem hafa mestan skilninginn á þessu og vilja taka tillit til og ekki mismuna neinum hefðu átt að beita sér fyrir því á Alþingi að leiðrétta þá þetta ranglæti með því að auka fjárveitingar til umdæmisins. Ég hef aðeins stundað menntamálaráðherraembættið í 15 mánuði.

Hvað var fyrirrennari minn lengi, hv. 1. þm. Norðurl. e., í því? (IG: Þrjú ár held ég.) Fjögur ár? (IG: Nei, rúm þrjú kannske.) Já, rúm þrjú ár. Var þetta aldrei á hans borði til þess að leysa eða styðja að framganginum? Það hefur heldur vaxið hlutfallið í sérkennslunni í þessu umdæmi eftir að ég tók við en var á hans árum. (IG: Það eru mörg ár liðin síðan.) Já, það eru mörg ár liðin síðan. En hv. þm. skildi eftir sig ýmis óunnin verk sem voru embættisafglöp að vinna ekki, svo sem að segja þessum fræðslustjóra upp störfum og víkja honum frá. Með vitnun í hans eigin orð og afstöðu er hægt að sanna að hann var til þessara verka allsendis óhæfur. Og ég hefði ekki tekið þessa ákvörðun og framkvæmt hana nema af því að ég komst í þrot. Það var ekki hægt, þrátt fyrir þriggja tíma stanslausa sókn á hendur honum í lokahrinunni, að fá hann til þess að breyta neinu í sinni afstöðu sem ég hef rakið áður í löngu máli.

Og ég spyr enn: Hvað skyldi mér ganga til? Ég hef líka sagt að það vill svo vel til að það verður þá ekki í þetta skipti sagt að ég sé að beita pólitískri ofsókn.

Ég hef í höndum þetta plagg sem fræðsluráðið og nefnd skólamanna fór með til þm. með fræðslustjóranum sem hann og þeir vildu ekkert ræða við mig af því að þeir álitu það þýðingarlaust. Ég rakst að vísu inn í herbergið þar sem þeir voru að ræða þessi mál. Samt er það tilkynnt af formanni fræðsluráðsins að það hafi ekki náðst í mig af því að ég hafi ekki verið í landi. En að sjálfsögðu náði hv. 1. þm. Norðurl. e. í mig samstundis. (IG: Daginn eftir held ég.) Daginn eftir, já. Og halda því fram að það hafi ekki náðst í mig er auðvitað vitleysa út í hött. En það var bara ákveðið, eftir upplýsingum fræðslustjórans, af honum og fræðsluráðinu á liðnu vori að slíta við mig öllu sambandi. Ég sé auðvitað eftir á, maður er svo mikið önnum kafinn að maður má ekki vera að því að velta einstaka hlutum fyrir sér, en ég sé eftir á að þetta er rétt því að aldrei heyrði ég stunu eða hósta norðan yfir fjöll. Hér er ein málsgrein, með leyfi forseta, þar sem á það er bent að menntmrh. hafi ekki samþykkt sérkennslu í almennum grunnskólum í umdæminu í sama hlutfalli og Reykjavík. Ég hef áður bent á hvernig Reykjavík sjálf hafði komið þessum málum fyrir og ég veit að enginn ætlast til þess að ég fari að skera það niður. Málið er afar einfalt. Fjárveitingavaldið hefur ekki gefið okkur rýmra um hendur í þessum efnum. Ef svo væri, dettur einhverjum í hug að maður mundi ekki nota fjármagnið?

Svo kemur hér áróðurinn sem auðvitað hefur snert hv. 1. þm. Norðurl. e. inn að hjartarótum og á þessu hefur gengið í hálft ár. Með leyfi forseta:

„Við leyfum okkur að mótmæla þeirri hugsun sem býr að baki skerðingu á framlögum til þeirra barna sem eiga litla möguleika án aðstoðar en eru ekki fær um að krefjast réttar síns.“

9. liður í þessari þokkalegu upptalningu, með leyfi forseta: „Við vörum við því að almennir grunnskólanemendur séu lokaðir frá samskiptum við fatlaða eða greindarskerta jafnaldra sína.“

10. liður: „Við vörum við því að börn og unglingar, sem á viðkvæmum aldri rísa ekki undir þeim kröfum sem almennt eru gerðar, séu jafnvel flutt búferlum og einangruð frá fjölskyldu og vinum.“

Og svo má ég enn einu sinni til með, þó ég hafi gert það hér á dögunum, að lesa yfir þennan samsetning hérna, með leyfi forseta:

„Einnig er rétt að hafa í huga að það er á engan hátt forsvaranlegt að láta það endurtaka sig óátalið ár eftir ár að launagreiðslur sem eru meiri en ráðuneytið reiknar með verði til þess að akstur og annar kostnaður, sem er fullkomlega innan áætlana, verði ekki greiddur.“

Ég þarf víst ekki enn einu sinni að skýra það fyrir mönnum hvernig það má vera að skólar í þessu umdæmi hafa lokað eða haldið við lokun árum saman. Ég mátti í aprílmánuði, þegar ég var á Akureyri, taka til þeirra bragða að slá lán í banka til að halda Hafralækjarskólanum opnum. Aksturinn er dýr þar. Börnum er ekið utan frá Tjörnestá í gegnum Húsavík og inn á Hafralæk. Það er fullt af mönnum hérna sem mæla þessu fyrirkomulagi bót eins og þó að börn séu sótt út að Skagaströnd og ekið í gegnum Blönduós inn á Húnavelli - af því að ég sé hv. 2. þm. Norðurl. v. sitja í dyrunum og glotta drjúgum.

En málið er auðvitað þannig, sem maður eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. getur skýrt t.d. sem fyrrv. fjmrh., hvernig greiðslum er háttað til umdæmanna frá fjmrn. Sveitarfélögin standa bílstjórunum skil á greiðslum fyrir skólaakstur. Bein laun eru látin ganga fyrir og þegar menn eyða umfram það sem þeir hafa til skiptanna fá sveitarfélögin ekki endurgreiddan skólaaksturinn. Og þau hætta að borga. Fátæk sveitarfélög geta ekki borgað bílstjórunum og þannig hætta þeir að aka og skólinn lokar. Á þessu hefur gengið öll árin á vegum þessarar skrifstofu sem laut forustu þess manns sem nú hefur verið vikið frá.

Ég held áfram að vitna í þessa makalausu málsgrein. Þeir voru að segja að það væri náttúrlega ekki viðhlítandi að ekki væri greiddur allur kostnaður sem til félli.

„Ekki síst ef það liggur fyrir að ráðuneyti menntamála hefur nægilegt fé til ráðstöfunar og þarf ekki að gera neinn út af örkinni til að betla peninga.“

Hvernig í lifandis ósköpunum ber að skilja þetta? Hvar eru þeir fjármunir sem hv. fjvn. hefur séð af og úthlutað til þessara þarfa og ég á nóg af? Hvað sögðu hv. þm. við sendinefndina og fræðslustjórann þegar hann kom til þeirra og kynnti þeim þessi ósköp? Renndu þeir þessu niður eins og ekkert væri?

„Spyrja má“, segir hér enn með leyfi forseta, „hvort það sé í valdsviði einstakra starfsmanna innan ráðuneytis að trufla skólahald eins og endurtekur sig ár eftir ár og koma í veg fyrir að veitt sé þjónusta sem forsendur eru fyrir og fræðslustjóri hefur áætlað.“

Það kom margsinnis fram í hans máli að hann segir að sín áætlun gildi og hann fer eftir henni. Og Þráinn Þórisson, Mývetningurinn frægi og formaður fræðsluráðsins, sagði: Þeir í menntmrn. eru með sínar áætlanir og fjárlög. Við gerum okkar og auðvitað förum við eftir þeim. Nema hvað. Þingeyingar láta sér nú ekki allt fyrir brjósti brenna.

Þeir segja: Ekki síst ef þetta endurtekur sig ár eftir ár og komið í veg fyrir að veitt sé þjónusta sem forsendur eru fyrir og fræðslustjóri hefur áætlað, ekki síst ef vinnubrögð af þessu tagi virðast aðeins snúa að einu umdæmi. Allt bendir því til að hér sé um að ræða tæknileg mistök af herfilegasta tagi.

Svo enda ég á og hætti svo að vitna í þetta, með leyfi forseta, og nú hrærist hjarta manna væntanlega, allra nema mín sem ekki skilur þetta og ekki vill skilja þetta og ofsækir þetta umdæmi og lætur bitna á því af einhverjum ástæðum sem enginn veit:

„Það fólk sem hér býr og börnin í skólunum hafa til engra annarra að leita en okkar. Við stöndum frammi fyrir börnunum persónulega. Við stöndum ábyrg fyrir því að skólahaldið gangi eðlilega, eins og lög og reglur og námsskrár mæla fyrir um. Við getum ekki sætt okkur við að þetta allt sé meðhöndlað eins og leikur með tölur og aðeins leikur með tölur. Fyrir framan augun á okkur getur þetta snúist upp í persónulega harmleiki.“

Og ég er svo kenndur við það að það sé aðeins einstrengingsleg afstaða mín sem öllu þessu veldur. Það er hægt að færa fram sönnur á að öll málafærslan, öll embættisfærslan er fyrir neðan allar hellur og það er meira en lítið alvarlegt mál fyrir Alþingi ef þetta dæmi getur orðið fordæmi fyrir aðra með því að ætla að sporðrenna þessu og hrinda þeirri réttmætu ákvörðun sem tekin hefur verið.

Ég nefndi sem dæmi á dögunum hvað yrði í útgerð frá Hellissandi ef háseti neitaði að hlýða skipstjóra sínum. Ég held að menn séu sammála um og viti hvað skeður. Hann fær pokann sinn. Ég nefndi sem dæmi ef verkamaður í frystihúsi á Hellissandi neitar að hlýða frystihússtjóranum. Þá mundi hann verða rekinn. Það þótti hv. 4. þm. Norðurl. e. alveg sjálfsagt mál og spurði: Hvað er hann að jafna þessu saman, hinum heilaga embættismanni og svona sjóurum og verkamönnum? Sá er aldeilis skynvilltur, þessi Sverrir Hermannsson, að láta sér detta slík ósvinna í hug að jafna einhverju svona saman, heilagri kú í embættismannastétt og venjulegum verkamanni og sjómanni. Veit hann ekki að þetta er margvíggirt og á að vera? Þetta hlýtur að vera einhver úr gáfumannafélaginu og ég vissi ekki að íshússtjórinn væri þar enn þá.

Já, það er auðvitað mikill munur á þessu og á líklega að vera og e.t.v. er það Alþingis að sjá svo um að þeir verði hinir ósnertanlegu hvernig svo sem þeir haga sér.

Ég bið að lokum um aðeins eitt því engan hef ég heyrt væna íslenska dómstóla um sérdrægni. Engan hef ég heyrt halda því fram enn sem komið er að við getum ekki fullkomlega treyst réttsýni þeirra. Ég bið um að þetta mál gangi þá leið og ég skal taka við mínum dómi ef það fellur á mig. Það kostar auðvitað stöðuna mína, en það skiptir engu máli. Það kemur ekki til nokkurra mála. Ekki eitt einasta andartak mundi ég sitja í þeim stól eftir að dómstóll hefði fellt þann úrskurð að ég hefði brotið lög á einstaklingi og beitt hann valdníðslu, ekki eitt einasta andartak. Hvað er að að menn ekki skuli samþykkja og hvetja til þess að þessi leið verði farin? Á meðan skulum við reyna að lagfæra það óréttlæti, ef það fyrirfinnst, sem hefur verið beitt við börn í Norðurlandskjördæmi eystra.

Ég verð þó að minna á að það er útilokað fyrir mig að eiga samstarf við formann fræðsluráðs sem borið hefur mig ósannindasökum og verið sannað á hann jafnóðum að hann fór með rangt mál. (JK: Er það ekki gagnkvæmt hjá ykkur?) Nei, það er ekki gagnkvæmt. Þú ert þá ekki alveg með réttu ráði ef þér dettur það í hug. Það er það ekki. En menn verða að svara því hérna sem berja bumburnar í pólitísku plötusláttarskyni: Hvers vegna er þetta ekki sent rétta boðleið þegar í stað til rétta aðilans sem Alþingi ákveður að skuli hafa með þetta að gera og lög standa til um? Hvers vegna ekki? Ef gagnaðili er ekki tilbúinn að þola dóm þá er hann ekki viss um málstað sinn. Þá er hann hræddur um málstað sinn. Öðruvísi getur ekki orðið á þetta litið. Menn vilja fá hér fram rannsóknarnefndir á mig og mín verk á hinu háa Alþingi. Ég er ekkert hræddur við slíkar rannsóknarnefndir. En hlýtur Alþingi ekki að benda mönnum á að fara þá leið sem það sjálft hefur markað í lagasetningu sinni? (SJS: Og bjóða gjafasókn í málið.) Já, já, já. Ég skal beita mér fyrir því. Gjafsókn. Það heitir gjafsókn. Ég skal beita mér fyrir því svo sannarlega og skal tala strax við fjmrh. og rétt yfirvöld um það, undir eins. Þó það nú væri. Auðvitað liggur okkur hið mesta á að fá úr þessu skorið. Og ég minni þá á sem koma enn hér og eiga eftir að koma, fjöldi manna, að leggja orð í belg að svara mér þessu: Getum við ekki treyst því að mál þetta fari þessa leið?

Ég verð að segja fyrir mig að ég veit ekki nákvæmlega nú til hvaða ráða á að grípa til að hreinsa af sér slíkan áburð eins og ég ligg undir um lagabrot og valdníðslu ef menn treysta sér ekki til að leita réttar síns sem menn eru að tala um að ég brjóti á þeim.

Ég enda svo með því, sem ég gjarnan vildi leggja hér til, að menn lækkuðu aðeins nóturnar. Þó ég eigi erfitt með það, því að skapsmunir mínir þola afskaplega illa við að vera beittur þeim rangindum sem er gert í orðræðum manna, var ég að reyna af veikum burðum að leggja það til hvort við, vegna þess sem verulega á bágt í þessu máli og erfitt, lækkuðum nóturnar og spiluðum þetta á lægri nótunum, líka vegna virðingar Alþingis, en þá kemur yfir mig gusa af slíkri samansettri ósanngirni og rangfærslum að ég mátti ekki við bindast enn á ný. Þetta stendur enn til boða. Ekki hef ég sagt að útilokaðar séu sættir. Þó ekki nema með því móti að menn dragi til baka allar ávirðingar í minn garð um að ég hafi brotið lög eða beitt valdníðslu. Sættast skal ég ef menn draga það til baka. Það er ekki boðið upp á það. En menn eru kannske að neyta annarra bragða, annarra ráða, reyna að afla atkvæða með þessum hætti vegna þeirra kosninga sem í hönd fara. Verði þeim að góðu ef þetta eru ráðin og skoða þá ekki hug sinn um að höggva þann sem þeir þykjast vilja hlífa.