22.01.1987
Sameinað þing: 39. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2507 í B-deild Alþingistíðinda. (2315)

Brottvikning fræðslustjóra í Norðurlandsumd. e.

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorð, enda er bráðum nóg sagt í þessu máli.

Hæstv. menntmrh. talaði af nokkru yfirlæti um það á þingfundi á þriðjudaginn að sú sem hér stendur og reyndar fleiri sem tóku til máls í umræðunum flyttu skrifaðar ræður. Ekki sé ég reyndar hvernig það má vera nokkrum til hnjóðs þótt hann undirbúi mál sitt og er þá kannske meiri von til þess að menn láti ekki fljótfærnisleg orð og vanhugsuð falla ef menn hafa eitthvað velt þeim fyrir sér áður. Er ég ekki frá því að hæstv. menntmrh. væri vegsauki að því að hugsa sig stundum um áður en hann orðar meiningar sínar upphátt.

Hins vegar get ég upplýst ráðherra um það að ég fylgdist með ræðu hans að mestu þótt löng væri og ruglingsleg og tók mið af henni í máli mínu í fyrradag og var auðheyrt af henni að aðstoðarfólk hans í ráðuneytinu hefur haft töluvert að gera, e.t.v. í nætur- og helgidagavinnu, við að fletta skjölum a.m.k. nokkur ár aftur í tímann. En þótt ég teldi mig leggja vel við hlustir þegar hæstv. ráðh. flutti sitt mál varð mér það á að misskilja hverjum hann ætlaði sæmdarheitið „hyski“ og mistúlkaði því orð hans í minni ræðu sem og reyndar fleiri gerðu. Ég bið hér með hæstv. ráðh. afsökunar á því. Nóg hefur hann á herðum sínum samt. Trúlega lítur hann ekki á það sem neinn dónaskap að kalla Alþýðubandalagsmenn hyski og best gæti ég trúað að þeim þætti sjálfum ekkert verra að fá enn eitt tilefnið til að skiptast á skeytum við hann. Ég vil hins vegar ekki láta það um mig spyrjast að ég rangfæri viljandi orð hæstv. ráðh. og lýsi því yfir að mér mun hafa misheyrst. Vonandi er hæstv. ráðh. mér sammála um að betra sé að hafa það sem sannara reynist og því ætla ég að ítreka spurningu til hæstv. ráðh. sem ég beindi til hans á mánudaginn en hann kaus að þykjast misskilja og sneri út úr í svari sínu. E.t.v. er hann búinn að láta ráðuneyti sitt kanna staðreyndir þess máls nú og því vil ég ítreka þessa spurningu og skýra hana.

Ég spurði hæstv. ráðh.: Af hverju stöfuðu þeir greiðsluerfiðleikar á árinu 1986 sem urðu til þess að aðalskrifstofa menntmrn. þurfti að fá a.m.k. 7,9 millj. kr. í aukafjárveitingu á síðasta ári? Ég er ekki að tala um framlag til listahátíðar í Reykjavík. Ég er ekki að tala um styrk til listkynningar erlendis né norræna leiklistarhátíð hér á landi, ekki um fjárveitingar til Handknattleikssambandsins né neinar aðrar aukafjárveitingar sem skýringar eru gefnar við. Ég er að tala um aukafjárveitingar til aðalskrifstofu menntmrn. sem m.a. er skýrt frá á bls. 362 í þskj. 1, en þar sést að aðalskrifstofa ráðuneytisins hefur fengið fjórum sinnum aukafjárveitingar fyrstu níu mánuði ársins 1986. Tvær þeirra eru fremur smáar. Önnur vegna lykta handritamálsins 750 þús. kr., en hin 500 þús. kr. sem er hluti kostnaðar vegna starfs útvarpsréttarnefndar. Hinar tvær, þ.e. 4,9 millj. kr. og 3 millj. eða samtals 7,9 millj., fá ekki aðrar útlistanir en þær séu vegna greiðsluerfiðleika á árinu 1986. Ég er síður en svo að drótta því að einum eða neinum að hér sé ekki um eðlilegar ástæður að ræða, en hér er um svo háar upphæðir að ræða til aðalskrifstofu ráðuneytisins að það er óhugsandi annað en hæstv. ráðh. viti í hvað þær hafa farið. Mér finnst eðlilegt að hann upplýsi það og ítreka því spurningu mína og bið nú hæstv. ráðh. að stilla sig um að snúa út úr fyrir mér í svari sínu.

Hvað varðar brottrekstur fræðslustjóra í Norðurlandsumdæmi eystra vil ég leggja áherslu á það, sem fram kom í ræðu minni á mánudaginn, að við Kvennalistakonur höfðum ekki tekið afstöðu í því máli, þ.e. hvort sá brottrekstur hafi verið lögmætur. Við teljum einfaldlega ekki efni til þess að taka afstöðu í því máli þar sem þar um stendur staðhæfing gegn staðhæfingu. Við höfum aldrei vænt hæstv. ráðh. um lögbrot og ég sé engan tilgang með því að við alþm. flytjum þetta mál með og á móti hér í þingsölum. Það eru vinnubrögðin sem við höfum gagnrýnt harðlega og lýsum fullri ábyrgð á hendur ráðherra vegna þess vandræðaástands sem skapast hefur og veldur því að skólar í Norðurlandsumdæmi eystra eru nánast óstarfhæfir vegna þess róts sem hæstv. ráðh. hefur komið á hugi manna með framkomu sinni.

Það sem skiptir máli núna er ekki það, hæstv. ráðh., sem gerðist árin 1980 eða 1981 eða 1982. Það sem skiptir máli er að hæstv. ráðh. sá ástæðu til þess að senda fræðslustjóra áminningarbréf í ágúst s.l. sem hefur að vísu af ýmsum verið sagt á misskilningi byggt, en það er sú áminning sem máli skiptir og það sem síðan hefur gerst. Það eru þessi atriði sem þarf að kanna og varpa hlutlausu ljósi á.

Hæstv. ráðh. vill láta þetta mál ganga til dóms. Hann segist óhræddur við niðurstöður. Það væri út af fyrir sig fróðlegt að vita hvort hann er þá tilbúinn til að veita Sturlu Kristjánssyni fræðslustjóra aftur embætti sitt ef uppsögnin verður fundin ólögmæt. Ég teldi fljótlegri og eðlilegri leið að sérstök nefnd ynni þetta verk. En aðalatriðið er að ljúka þessu máli á þann hátt að það dragi ekki fleiri dilka á eftir sér. Hér er of mikið í húfi, nefnilega skólahald í Norðurlandsumdæmi eystra og farsælt samstarf og trúnaður á milli skólamanna og hv. ráðuneytis. En hæstv. ráðh. hefur að mínu mati unnið ógagn með framkomu sinni.