27.01.1987
Sameinað þing: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2541 í B-deild Alþingistíðinda. (2357)

240. mál, nýjungar í vinnslu landbúnaðarafurða

Fyrirspyrjandi (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Eins og hv. alþm. vita er í stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstjórnar vikið að landbúnaðarmálum og þar er m.a. að finna eftirfarandi klausu, með leyfi forseta:

„Lögð verði áhersla á nýjungar í vinnslu og sölustarfsemi landbúnaðarafurða og hagræðingu til að draga úr vinnslu- og dreifingarkostnaði.“

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um hversu brýnt er að þessi þáttur sé vel ræktur. Því hef ég leyft mér á þskj. 257 að bera fram svofellda fsp. til landbrh.:

„Hvernig hafa stjórnvöld stuðlað að nýjungum í vinnslu og sölustarfsemi landbúnaðarafurða og hagræðingu til að draga úr vinnslu- og dreifingarkostnaði?"

Ég tel nauðsynlegt að það liggi fyrir með hvaða hætti núv. hæstv. ríkisstjórn hefur unnið að þessu máli og vænti svars frá hæstv. ráðherra.