27.01.1987
Sameinað þing: 41. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2547 í B-deild Alþingistíðinda. (2362)

263. mál, aðstoð við foreldra veikra barna

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Mér virðist ljóst af svörum hennar að því miður taka ekki lög né neinar reglur á þessum vanda í raun og veru og er fjarri því að nóg sé að gert. Ég kannast við þá kosti sem hæstv. ráðh. nefndi og ég held að það sé afskaplega ljóst, það er það a.m.k. í mínum huga, að þeir duga ekki, duga engan veginn. Ég náði reyndar ekki nákvæmlega skýringum hennar á því hvaða kostir foreldrum bjóðast vegna ferðalaga, en samkvæmt upplýsingum sem ég hef eru ferðir foreldris til og frá heimabyggð ekki greiddar fyrr en farnar hafa verið, ja, ég hélt að það væru þrjár ferðir, mér heyrðist hæstv. ráðh. segja tvær ferðir fram og til baka, þannig að það þarf alla vega að leggja töluvert út fyrir fram. Það er í mínum huga ljóst að þetta er ekki fullnægjandi því að auk angistar vegna veikinda barna sinna, tvístraðra fjölskyldna, öryggisleysis samfara búferlaflutningum o.fl. þurfa þessir foreldrar að fást við mikinn fjárhagsvanda. Það kemur oft til dagvistunar systkina veika barnsins svo að móðirin geti dvalið á spítalanum og kostnaður við það er talsverður. Ég veit um dæmi þess að móðir búsett úti á landi hefur ekki farið heim til sín í þrjá mánuði vegna þess að hún hafði ekki efni á því að lána ríkinu fargjaldið.

Það er húsnæðisvandinn sem er verstur fyrir þetta fólk og það voru mér nokkur vonbrigði að heyra ekki um nein stórhuga áform um að taka á þeim vanda. Mæður utan af landi hafa oft búið hjá vinum og vandamönnum og það sjá allir að það gengur ekki til lengdar.

Alþm. utan af landi kannast við þann vanda sem er samfara tvöföldu heimilishaldi og miklum ferðalögum heiman og heim. Fjármálayfirvöld sýna því skilning og greiða þann kostnað. Ég held að það minnsta sem við gætum gert væri að reyna að leysa húsnæðisvanda þessa fólks, þ.e. foreldra veikra barna. Ég held að það væri ráð að ríkið eða ríkisspítalarnir og sveitarfélög sameinuðust um íbúðir í Reykjavík sem væru leigðar þá fyrir rekstrarkostnaði og leigðu þetta fjölskyldum utan af landi. Þetta er ekki kröfuhart fólk. Það biður ekki um lúxus heldur öryggi. Í mörgum tilvikum gætu mæður veikra barna sameinast um íbúð því að sá stuðningur sem þær geta veitt hver annarri er mikilvægari en fermetrafjöldi.

Að lokum vildi ég upplýsa þingheim um að það er ekki nóg með það að foreldrar veikra barna verði fyrir fjárútlátum, óþægindum og tekjutapi heldur leggja þeir mikla vinnu af mörkum á sjúkrahúsunum sem munar um í þeim alvarlega skorti á starfsfólki sem þar ríkir. Ég skora á hæstv. heilbrmrh., sem ég held að hafi skilning á þessu máli, að kanna þetta betur og finna lausn bæði nú þegar og til frambúðar.