27.01.1987
Sameinað þing: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 2568 í B-deild Alþingistíðinda. (2386)

218. mál, efling atvinnu og byggðar í sveitum

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þegar maður virðir fyrir sér hvernig þessi mál hafa þróast get ég tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni að maður er hissa á þessum tillöguflutningi og þeirri sýndarmennsku sem er á ferðinni. Ég minni á að þegar þessi búvörulög, sem svo eru kölluð, voru samþykkt hér á hv. Alþingi urðu um það miklar deilur og var ekki létt verk að fá samstöðu um þetta mál. Sá sem hér stendur setti fram skilyrði fyrir því að standa með þessum lögum á þeirri tíð. Þar sem tíminn er svo stuttur get ég ekki farið út í þetta að öðru leyti en því að ég vil minna á að ég er hér með þá framsöguræðu sem ég flutti við 2. umr. í sambandi við lögin um framleiðslu og sölu búvara og sagði þá m.a. til þess að sýna hver voru viðhorf mín, enda vita það þeir hv. þm. sem unnu með mér í nefndinni og ég hef ekki fleiri orð um það. Ég les upp, með leyfi forseta:

„Með a-lið 9. brtt. er lagt til að eftir 1990 og þar til endurskoðun skv. 38. gr. hefur farið fram skuli útflutningsbætur árlega nema 4% af heildarverðmæti búvöruframleiðslunnar.“ Skv. frv. átti þetta að falla niður algerlega í árslok 1990. „Ákvæði IX. kafla frv. miða að því að aðstoða landbúnaðinn með aðlögun og breyttum markaðsaðstæðum. Við vitum ekki hver verður árangur þeirrar aðlögunar að fjórum árum liðnum. Í 38. gr. frv. er í samræmi við þetta ákvæði um að þessi ákvæði skuli tekin til endurskoðunar að liðnum fjórum árum frá gildistöku laganna með tilliti til aðstæðna í markaðsmálum og uppbyggingar nýrra búgreina. Með umræddri brtt. er tryggt að réttur bænda til útflutningsbóta verði ekki með öllu felldur niður nema til komi frekari umfjöllun Alþingis þar sem metið verður hvernig til hefur tekist með árangur af þessari lagasetningu. Þessi endurskoðun á fyrst og fremst, að mínum dómi, að vera til að meta hvernig hefur til tekist að ná því markmiði sem lögin fela í sér og yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar sem hafa hvað eftir annað verið endurteknar, þ.e. að byggja upp annan atvinnurekstur til þess að mæta því tekjutapi sem verður vegna þeirrar framleiðsluminnkunar í hefðbundnum búgreinum sem er talin nauðsynleg a.m.k. við þær aðstæður í markaðsmálum sem nú blasa við.

Ég hef þá trú að eftir fjögur ár verði staðan sú að það verði langt frá því að það mark hafi náðst að byggja upp atvinnurekstur í strjálbýli sem komi í veg fyrir þá framleiðsluminnkun sem manni sýnist nú blasa við. Við skulum vona að það verði breyting í þessum málum þannig að slík minnkun þurfi ekki til að koma. Þessi endurskoðun á því að mínu mati fyrst og fremst að byggjast á því hvort þurfi að herða róðurinn til að ná þessu marki, þ.e. að það fólk sem býr í strjálbýli hafi tekjumöguleika sem eru í einhverju samræmi við tekjur annarra stétta og að fjárhagsaðstoðinni, sem felst í 37. gr. og á að fara til þessarar uppbyggingar, verði ekki hætt heldur miklu fremur að ef of skammt hefur verið gengið verði hún aukin þar til við náum því marki sem hæstv. ríkisstjórn hefur sett sér, bæði í málefnasamningnum sem gerður var þegar ríkisstjórnin var mynduð og í yfirlýsingum um að reyna að halda landinu í svipaðri byggð og nú er.“

Mér þykir nauðsynlegt að rifja þetta upp nú vegna þess að þetta sýnir í sjálfu sér það viðhorf sem við, margir framsóknarmenn, höfðum til þessara mála. Og ég verð að segja það að við reyndum líka að fara mikið hægara í þessum samdrætti, að þetta næði a.m.k. til 10 ára, að útflutningsbæturnar yrðu ekki lækkaðar eins hratt og var ákveðið og fyrst og fremst að það yrði búið að byggja upp eitthvað annað jafnhliða og áður en samdrátturinn ætti sér stað. Nú er það því miður staðreyndin að það er verið að svelta suma bændur út af jörðunum vegna þess að þessi uppbygging kemur ekki nógu fljótt. Okkar afstaða þegar þessi lög voru samþykkt sýnir það að við höfðum rétt fyrir okkur, við óttuðumst að svona færi, en það fékkst ekki að ganga lengra með neinu móti, fyrst og fremst fyrir það að þeir sem unnu með okkur og vinna með okkur í ríkisstjórninni fengust ekki til að ganga lengra. Þetta er sannleikurinn í málinu og þetta vita a.m.k. þeir sem unnu með okkur í landbn. og raunar miklu fleiri.

Það er auðvitað góðra gjalda vert ef það er meiningin og alvara í þessu máli að breyta nú um og taka undir það sem við héldum fram og taka mið af því sem hefur gerst á þessum tíma. Og auðvitað er það alveg rétt að það er nauðsynlegt, og það var lagt til líka í þessari ræðu sem ég var að vitna í, að semja til margra ára þannig að menn vissu hvar þeir stæðu, en það hafðist ekki heldur fram þá. E.t.v. eru þessi umskipti af tvennum toga, annars vegar vegna þess hvernig horfir í landbúnaðinum og að öðru leyti vegna þess að það er stutt til kosninga.